Home / Fréttir / Pelosi-heimsókn til Tævan lokið – mikil reiði í Peking og vopnaglamur

Pelosi-heimsókn til Tævan lokið – mikil reiði í Peking og vopnaglamur

Nancy Pelosi með þingmönnum á Tævan.

Tsai Ing-wen, forseti Tævans, sagði miðvikudaginn 3. ágúst að þjóð sín mundi „ekki láta undan“ hernaðarhótunum stjórnvalda í Peking eftir að þau tilkynntu upphaf meiriháttar heræfinga umhverfis eyríkið vegna heimsóknar Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þangað.

Síðdegis miðvikudaginn 3. ágúst að staðartíma hélt Pelosi frá Tævan til Suður-Kóreu,

Nancy Pelosi sagði að hún og sendinefnd hennar kæmu „með friði“ og að Bandaríkjastjórn mundi standa við skuldbindingu sína um að verja Tævan hvað sem liði hótunum frá Peking. Oft áður hefðu sendinendir Bandaríkjaþings heimsótt Tævan.

„Í dag kom sendinefnd okkar til Tævan til að segja afdráttarlaust að við munum ekki hlaupast undan skuldbindingum okkar vegna Tævans og að við eru stolt af varanlegri vináttu okkar,“ sagði Pelosi (82 ára) á fundi með Tsai forseta í Taipei, höfuðborg Tævans.

Í 25 ár hefur hærra settur bandarískur embættismaður ekki heimsótt eyjuna. Brugðust ráðamenn í Peking hart við heimsókn Pelosi.

Kínverska utanríkisráðuneytið fordæmdi það sem kallað var „alvarlegt brot“ á fyrirheitum Bandaríkjamanna gagnvart Peking-stjórninni sem græfu „alvarlega undan friði og stöðugleika á svæðinu“.

Varnarmálaráðuneytið Tævans sagði að í sama mund og Pelosi hóf heimsókn sína (þriðjudaginn 2. ágúst) hefði 21 kínversk hervél brotið gegn lofthelgi Tævans.

Kínastjórn lítur á Tævan sem hluta að yfirráðasvæði sínu og hún er tilbúin til að innlima eyjuna í Alþýðulýðveldið Kína (ALK) með valdi telji hún það þjóna hagsmunum sínum. Í ljósi þessarar stefnu líta ráðamenn ALK á það sem viðurkenningu á fullveldi Tævans heimsæki embættismenn annarra ríkja forystumenn eyríkisins.

Fyrir heimsókn Pelosi bárust hótanir frá Peking um „ákveðnar og öflugar aðgerðir“ léti þingforsetinn verða af henni. Að kvöldi þriðjudags 2. ágúst sagði kínverska varnarmálaráðuneytið Frelsisher fólksins í „hárri viðbragðsstöðu“ og hann mundi efna til margra markvissra hernaðaraðgerða til að „varðveita fullveldi þjóðarinnar“ sem svar við heimsókn Pelosi. Allri erlendri íhlutun yrði hrundið og jafnframt tilraununum til aðskilnaðar undir merkjum „sjálfstæðs Tævans“.

Af hálfu Biden-stjórnarinnar í Washington var Pelosi ekki afdráttarlaust hvött til að hætta við Tævan-förina hins vegar lögðu bandarískir embættismenn sig fram um að ferðin boðaði enga breytingu á Tævan-stefnu Bandaríkjastjórnar.

Wang Yi, utanríkisráðherra í Peking, sagði að með því ganga á bak orða sinna í Tævan-málinu gerði Bandaríkjastjórn „trúverðugleika sinn að engu“.

„Sumir bandarískir stjórnmálamenn leika sér að eldi vegna málefna Tævans,“ sagði Wang í yfirlýsingu: „Það leiðir örugglega ekki til góðs … með því að afhjúpa fantasvip sinn að nýju sýna Bandaríkjamenn að þeir eru mestu skemmdarverkamenn heimsins gegn friði.“

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …