Home / Fréttir / Peking-stjórnin herðir tökin á Hong Kong

Peking-stjórnin herðir tökin á Hong Kong

Í Peking óttast menn mátt mótmælenda í Hong Kong.
Í Peking óttast menn mátt mótmælenda í Hong Kong.

Kínversk stjórnvöld ætla að opna „þjóðaröryggisskrifstofu“ í Hong Kong til að framfylgja nýsettum lögum gegn mótmælum í borginni. Ríkismiðlar greindu frá þessu laugardaginn 20. júní.  Í framkvæmd hafa nýju lögin forgang gagnvart öllum öðrum lögum í Hong Kong sem fjalla um svipað efni segir Xinhua-fréttastofan.

Öryggisskrifstofan í Hong Kong lýtur sérstakri stjórn þar sem æðsti stjórnandi borgríkisins gegnir formennsku. Hún hefur vald til að taka ákvarðanir um aðgerðir gegn þeim sem taldir eru ógna almannaöryggi.

Xinhua segir að í lögunum séu ákvæði um að refsivert sé að vilja aðskilnað frá kínverska móðurlandinu, stunda undirróður gegn ríkisvaldinu og eiga samvinnu við erlend ríki.

Talið er að ekki líði á löngu þar til fastanefnd kínverska þjóðþingsins, afgreiðslustofnunar kínverskra valdhafa, sendi frá sér „endanlegan“ texta nýju laganna.

Margir utan Kína og Hong Kong telja að nýju lögin afmái síðustu leifar frelsis í borgríkinu sem varð hluti Kína árið 1997 þegar Bretar létu af stjórn þess.

Nýju öryggislögin eru sett án samráðs við löggjafarþing Hong Kong. Ýmsir óttast að ekki sé aðeins vegið að frelsi til orðs og æðis með lögunum heldur einnig að stöðu borgríkisins sem fjármálamiðstöðvar. Þeir sem stunda viðskipti á fjármálamarkaði Hong Kong sætti sig ekki við pólitíska ofstjórn valdhafanna í Peking.

Komi til ágreinings um hvort Hong Kong-lög eigi að gilda eða nýju öryggislögin er úrskurðarvaldið um það hjá fastanefnd kínverska þjóðþingsins í Peking.

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …