
Paul Wolfowitz (72 ára) var vara-varnarmálaráðherra þegar George W. Bush var forseti Bandaríkjanna,. Hann studdi innrásina í Írak árið 2003 og var talinn lykilmaður í hópi ný-íhaldsmanna (neo-conservatives) sem höfðu á sínum tíma veruleg áhrif á stefnu Bandaríkjanna í utanríkis- og öryggismálum.
Ný-íhaldsmennirnir voru upphaflega í flokki bandarískra demókrata en snerust gegn honum þar sem þeir töldu hann ekki fylgja nægilegra fastmótaðri utanríkis- og varnarmálastefnu í kalda stríðinu.
Í viðtali við Der Spiegel sem birtist á ensku á vefsíðunni Spiegelonline International föstudaginn 26. ágúst varar Wolfowitz við stefnu Donalds Trumps, forsetaframbjóðanda bandarískra repúblíkana, og gefur til kynna að hann ætli að kjósa Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, í forsetakosningunum 8. nóvember 2016.
Spiegel spyr hvort Wolfowitz þyki miður að vera kallaður „arkitekt Íraksstríðsins“. Hann sagði rangt að kalla sig þetta, margt hefði farið á annan veg hefði hann verið arkitektinn. Eftir 9/11 hefði hann talið rétt að beita enn meiri hörku en gert var vegna þess að Saddam Hussein, harðstjóri í Írak, hefði komið í veg fyrir eftirlit með gjöreyðingarvopnum. Saddam hefði veitt hryðjuverkamönnum skjól. Hann hefði talið tímabært að setja Saddam úrslitakosti eins og gert hefði verið gagnvart talíbönum sem skutu skjólshúsi yfir Osama Bin Laden. Menn virtust gleyma því að Saddam hefði verið eini þjóðarleiðtoginn sem hefði borið lof á árásina 9/11.
Spiegel minnir á að ranglega hafi verið fullyrt að Saddam Hussein ætti gjöreyðingarvopn. Wolfowitz svaraði að það hefði verið samdóma álit njósnastofnana að hann ætti þau. Yfirmaður CIA hefði sagt George W. Bush forseta að það lægi í augum uppi. Saddam Hussein hefði beitt taugagasi gegn eigin þjóð, hann hefði beitt efnavopnum gegn Írönum og hann hefði næstum eignast kjarnorkusprengju 1981 og 1991. Þá hefði fundist hjá honum miltisbrandur árið 1995 við eftirlit á vegum Sameinuðu þjóðanna þótt hann neitaði að eiga hann. Sjálfur sagðist Wolfowitz ekki hafa stjórnað njósnastofnunum. Niðurstaða þeirra hefði verið skýr. Að sjálfsögðu hefðu aðrar ákvarðanir verið teknar ef menn hefðu vitað að ekki væri um neinar birgðir gjöreyðingarvopna að ræða, að það væri aðeins ætlunin að eignast þau að nýju eins og Saddam hefði viðurkennt eftir handtöku sína. Þá hefði ekki komið til innrásar.
Spiegel minnir á árásirnar í París, Brussel, Orlando og Nice í ár og spyr hvort meiri ógn steðji að Vesturlöndum núna en fyrir 15 árum. Wolfowitz sagði að fyrir 15 árum hefðu 3.000 manns verið drepnir á einum degi. Menn hefðu raunverulega óttast að hryðjuverkamenn mundu komast yfir miltisbrand eða sarín. Það mætti líta á það sem árangur að tekist hefði að koma í veg fyrir það. Auðvitað sköpuðu minni árásir vandamál. Fólk tæki mið af þeim. Bandaríkjamenn sem hann þekkti færu ekki til Parísar af því að þeir teldu það of hættulegt. Hann teldi það yfirdrifin viðbrögð. Í löndum eins og Pakistan og Bangladesh hefðu menn búið lengi við þetta hryðjuverkastig. Lífið gengi þó sinn vanagang.
Spiegel: Nýlega lýstu 50 fyrrverandi háttsettir öryggismálasérfræðingar úr röðum repúblíkana Donald Trump sem öryggisógn. Er hann það?
Wolfowitz: Já, hann er það.
Spiegel: Hvers vegna?
Wolfowitz: Hann segist dást að Pútín, að Saddam Hussein hafi drepið hryðjuverkamenn, að það veki aðdáun á Kínverjum hve þeir sýndu mikla hörku á Torgi hins himneska friðar. Þetta er allt frekar ótraustvekjandi.
Spiegel: Telur þú tímabært fyrir menn eins og þig að snúast gegn Trump?
Wolfowitz: Það er alls ekki einfalt mál. Trump segir að það séu einmitt við og okkar stefna sem hafi leitt til vandræðanna í Írak. Ég tel hins vegar mikilvægt að láta í sér heyra og segja til hvílíkra vandræða hann er. Það stendur síður en svo á mér að gera það.
Spiegel: Ertu hræddur við hvað hugsanlega leiddi af stefnu Trumps í utanríkis- og öryggismálum?
Wolfowitz: Eina leiðin til að sætta sig við utanríkisstefnu Trumps er að ímynda sér að hann meini í raun ekkert af því sem hann segir. Það er býsna óþægileg staða. Öryggi okkar ræðst af góðum tengslum við bandamenn okkar. Trump sýnir þeim einkum fyrirlitningu. Honum virðist standa á sama um árásargirni Rússa gagnvart Úkraínu. Með þessu segir hann þeim að þeir geti haldið áfram á sömu braut. Það er hættulegt.
Spiegel: Trump virðist sérstaklega fús til til að finna nýjan samstarfsaðila í Rússlandi.
Wolfowitz: Pútin hagar sér mjög hættulega. Trump talar á þann veg að ætla má að hann muni aðeins halla sér aftur og leyfa þessu að hafa sinn gang. Ég hef áhyggjur af hvar þar muni enda.
Spiegel: Donald Trump hefur einnig vakið efasemdir um mikilvægi NATO fyrir Bandaríkin. Getur þú skilið þennan þátt í máli hans?
Wolfowitz: Nei, vegna þess að NATO er enn mjög mikilvægt fyrir okkur, það er enn merkasta bandalag sögunnar. Innan þess stóðu ríki saman í 40 ár kalda stríðsins, síðan tóku þau höndum saman til að berjast í Afganistan. Á níunda áratugnum hefði ég ekki talið að þetta mundi takast.
Spiegel: Hvernig mundi heimurinn breytast ef Trump yrði forseti?
Wolfowitz: Við sjáum nú þegar votta fyrir óstöðugleika í heiminum vegna þess að Obama virðist markvisst hafa viljað hörfa. Trump verður Obama í öðru veldi, róttækari útgáfa af því sama.
Spiegel: Hvers vegna tókst Repúblíkanaflokknum ekki að stöðva Donald Trump?
Wolfowitz: Almenningur er augljóslega óhamingjusamur. Framgangur Bernies Sanders [keppinautar Hillary Clinton meðal demókrata] sýnir að þetta er ekki bundið við repúblíkana. Sú skoðun er almennt ríkjandi að landið sé á rangri leið. Í krafti slíkrar svartsýni kann einhverjum á borð við Trump að takast að fá tilnefningu.
Spiegel: Hvern ætlar þú að kjósa í nóvember?
Wolfowitz: Mikið vildi ég óska þess að einhver væri í framboði sem mér þætti gott að kjósa. Ef til vill verð ég að kjósa Hillary Clinton jafnvel þótt ég hafi mikla fyrirvara gagnvart henni.