Home / Fréttir / Patrusjev taldi Prigózjín ógna veldi Pútins og drap hann – hitti Össur í Reykjavík 2012

Patrusjev taldi Prigózjín ógna veldi Pútins og drap hann – hitti Össur í Reykjavík 2012

 

Jevgení Prigózjín

Rússinn Jevgeníj Prigózjín, forstjóri Wagner-málaliðahópsins, var drepinn með sprengju sem sett var undir væng einkaþotu hans að undirlagi elsta bandamanns Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

Nikolai Patrúsjev, fyrrv. KGB-foringi og valdamikill yfirmaður rússneska öryggisráðsins, skipulagði aðgerðina með eigin hendi að sögn The Wall Street Journal (WSJ) sem vísar til heimildarmanna hjá vestrænum leyniþjónustum og til fyrrverandi rússnesks njósnaforingja.

Prigószjín týndi lífi þegar einkaþota hans sprakk yfir Tver-héraði 23. ágúst 2023, tveimur mánuðum eftir að hann stjórnaði vopnaðri uppreisn gegn yfirstjórn rússneska hersins. Hefur ekki meiri ógn steðjað að valdi Pútins í tvo áratugi.

Talsmenn Pútins og Kremlverja hafa áður hafnað því sem „hreinni lygi“ þegar gagnrýnendur Pútins og vestrænir álitsgjafar láta í það skína að Pútin hafi gefið fyrirmæli um drápið á Prigózjín vegna uppreisnar hans.
Pútin sagði að þota Prigózjíns hefði farist þegar handsprengja hefði fyrir mistök sprungið um borð í henni, Prigózjín og félagar hans hefðu annað hvort verið fullir eða í kókaínvímu.

Nú er hins vegar fullyrt að lítil sprengja hafi verið sett undir væng á Embraer Legacy 600-þotunni þegar Prigózjín og níu aðrir biðu í henni á flughlaðinu í Moskvu á meðan framkvæmt var nauðsynlegt eftirlit fyrir brottför vélarinnar.

Svo virðist sem enginn í farþegarýminu hafi tekið eftir þegar vítisvélinni var plantað þarna áður en þeir fóru í loftið á leið til St. Pétursborgar.

Þotan hækkaði flugið í um 30 mínútur, upp í 28.000 feta hæð, áður sprengjan sprakk og brakið féll til jarðar.

Allir fórust sem voru um borð, 10 manns. Þeir voru, auk Prigózjíns, fjórir lífverðir hans, þrír í flugáhöfninni og tveir mikilvægir félagar í Wagner-hópnum.

„Það varð að fjarlægja hann,“ sagði embættismaður í Kreml við evrópskan njósnaforingja með aðgang að upplýsingum innan úr æðstu röðum rússneska stjórnkerfisins.

Frásagnirnar um atbeina Patrusjevs sýna að launmorðið var skipulagt í Kremlarkastala með blessun Pútins.

Patrusjev er 72 ára og hann er talinn einn áhrifamesti harðlínumaðurinn í mjög þröngum innsta hring Rússlandsforseta. Þeir Pútin hafa þekkst síðan á áttunda áratugnum þegar þeir unnu saman í Leníngrad (nú St. Pétursborg) á vegum KGB.

Þegar Pútin varð forsætisráðherra hjá Boris Jeltsín forseta árið 1999 varð Patrusjev yfirmaður rússnesku öryggislögreglunnar, FSB.

Patrusjev vakti oft máls á hættunni af því að rússnesk stjórnvöld treystu á Wagner-málaliðana í Úkraínu og færðu með því of mikil áhrif til Prigózjíns sem hann gæti einhvern tíma nýtt sér gegn Kremlverjum.

„Allir sögðu við Pútin að það væru mistök að halda úti samhliða-her,“ sagði fyrrverandi embættismaður í Kreml. „Þegar hann hrækir í andlit herstjórnarinnar dag eftir dag veldur það þér sjálfum vandræðum.“

Patrusjev hóf að flytja varnaðarorð sín sumarið 2022. Fáir sýndu þeim áhuga á meðan Wagner-liðar sóttu fram á vígvellinum í grimmilegri orrustu um Bakhmut.

Áður en Prigózjín var drepinn deildi hann hart á rússnesku herstjórnina vegna skorts á vopnum. Sauð upp úr í júní 2023 þegar hann sendi um 25.000 vígamenn og skriðdreka í áttina að Moskvu.

Patrusjev greip til sinna ráða til að koma í veg fyrir að vegið yrði að valdi Pútins á þann veg að ekki yrði við neitt ráðið en forsetinn var sjálfur í bústað sínum utan Moskvu. Reyndi Patrusjev að ná sambandi við Prigózjín með aðstoð herforingja sem voru svipaðrar skoðunar og málaliðaforinginn.

Eftir fimm árangurslausar tilraunir til að ná samtali við Prigózjín í síma sneri Patrusjev sér til leiðtoga Kazakhstan og Belarús.

Jomart Tokajev, forseti Kazakhstan, neitaði öllum afskiptum enda hefur hann haldið sig frá stríðinu í Úkraínu. Alexander Lukasjenkó, einræðisherra Belarús, samþykkti hins vegar að leita sátta á milli Prigozjíns og ráðamanna í Moskvu.

Samkomulag náðist að lokum – uppreisnarmennirnir sneru aftur til búða sinna og Prigózjín samþykkti að flytja starfsemi sína til Belarús enda fengi hann sakaruppgjöf.

Með því að beita sér gegn uppreisnarmönnunum sýndi Patrusjev hollustu sína við Pútin og hermt er að kínverskir ráðamenn hafi viljað að hann yrði næsti leiðtogi Rússlands.

„Hefði Pútin verið settur af eða drepinn fyrr á þessu ári af Wagner-hópnum grunar mig að ráðamenn í Peking hefðu lagt sig fram um að Patrusjev kæmi í stað Pútins,“ sagði fyrrverandi embættismaður í Hvíta húsinu í Washington.

Eftir að uppreisninni lauk fylgdust Kremlverjar náið með ferðum Wagner-foringjans. Hann fór til Afríku til að huga að viðskiptahagsmunum sínum þar.

„Það er augljóst hver áform Pútins voru – að leyfa þeim dauðadæmda að ferðast svo þeir gætu haldið áfram að kanna hvað gerðist,“ sagði Mowatt-Larsen hjá CIA, bandarísku leyniþjónustunni, við WSJ.

Í byrjun ágúst 2023 gaf Patrusjev aðstoðarmönnum sínum fyrirmæli um að undirbúa aðgerð í því skyni að losna við Prigózjín.

Málið var kynnt Pútin og hann lagðist ekki gegn áformunum segir WSJ og vitnar í vestrænar leyniþjónustustofnanir.

Við uppreisnina rofnuðu öll tengsl milli Prigózjíns og Pútins, þau höfðu hins vegar versnað eftir að Wagner-foringinn kvartaði beint við forsetann vegna skorts á vopnum og vistum.

Eftir að brakið úr flugvél Prigózjíns fannst lýsti Pútin honum sem manni sem „gerði mörg mistök í lífinu en náði réttum árangri“.

Föstudaginn 22. desember sögðu Kremlverjar að frásögn WSJ væri reyfari.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlar, neitaði að ræða efni málsins en sagði:

„Því miður hefur það gerst undanfarið að The Wall Street Journal hefur haft mikið dálæti á að framleiða reyfara.“

 

Heimild: The Telegraph – Joe Barnes.

Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, og Nikolai Patrusjev, fyrrv. KGB-foringi og valdamikill yfirmaður rússneska öryggisráðsins, á Rauðarárstíg 31. mars 2012.

Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrv. alþingimaður, vakti athygli á því á Facebook 22. desember að Patrusjev hefði hitt Össur á fundi hér í Reykjavík 31. mars 2012. Í tilkynningu utanríkisráðuneytsins um fund þeirra sagði:

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Nikolay Patrushev, formanni þjóðaröryggisráðs Rússlands, sem staddur er hér á landi í stuttri heimsókn. Á fundinum var meðal annars rætt ítarlega um málefni norðurslóða og gott samstarf ríkjanna á tvíhliða grunni, sem og innan Norðurskautsráðsins. Þá voru samskipti Rússlands og Atlantshafsbandalagsins til umræðu, auk málefna Miðausturlanda.“

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …