Home / Fréttir / Patriot-flaug grandar ofurhljóðfrárri eldflaug Rússa

Patriot-flaug grandar ofurhljóðfrárri eldflaug Rússa

Patriot-flaug skotið án loft.

Herstjórn Úkraínu staðfesti laugardaginn 6. maí að hún hefði í fyrsta skipti beitt bandarískum Patriot-flugskeytum gegn rússneskum flaugum að næturlagi fimmtudaginn 4. maí.

Með því að nota Patriot-kerfið tókst Úkraínuher í fyrsta skipti að granda einni fullkomnustu eldflaug Rússa, það er af Kinzhal-gerð. Úkraínskur flugforingi sagði að Kh-47 flauginni hefði verið skotið úr MiG-31K flugvél yfir rússnesku landsvæði. Skotmark flaugarinnar var í Kyív.

Kinzhal-flaugin er eitt nýjasta og háþróaðasta vopn Rússa. Hún er ofurhljóðfrá og svo þung að hún á að geta grandað sérstaklega styrktum mannvirkjum, þar á meðal neðanjarðarbyrgjum og jarðgöngum í fjöllum.

Úkraínuher hefur til þessa viðurkennt að hann ætti ekki nauðsynleg tæki til að granda flaugunum.

Bardögum er haldið áfram um bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu og nú sakar Úkraínuher Rússa um að beita fosfórskotfærum til að ná bænum á sitt vald.

Innrásarherinn hefur mánuðum saman átt í höggi við varnarlið Úkraínumanna í Bakhmut. Þar hefur verið háð ein lengsta og blóðugasta orrusta stríðsins.

Laugardaginn 6. maí var haft eftir foringja í flugher Úkraínu að óvinurinn notaði „fosfór- og íkveikjuvopn í Bakhmut í því skyni að afmá bæinn af yfirborði jarðar“.

Birti blaðið myndir sem sýndu elda loga víða í borginni.

Samkvæmt alþjóðalögum er bannað að nota vopn af þessu tagi í þéttbýli.

 

Heimild: Euronews

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …