
Þegar Robert Work, vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, var á Keflavíkurflugvelli mánudaginn 7. september 2015 lét hann þau orð falla að enn nýttist flugskýlið sem skrúfuvélarnar P-3 Orion notuðu þar á sínum tíma en þær komu fyrst til kafbátaleitar árið 1959. Taldi ráðherrann flugskýlið í fullkomnu lagi, aðeins yrði að skera gat í efri dyrakarminn til að stélið á nýju P-8 Poseidon kafbátaleitarvélunum kæmist þar inn, það er um 1 m hærra en á P-3 vélunum.
Boeing P-8 Poseidon vélin er hervél sem var þróuð fyrir bandaríska flotann á grunni 737-800ERX þotu. Vélin er notuð til kafbátaleitar, aðgerða gegn herskipum, til eftirlits með siglingum, leitar, björgunar og til rafeindanjósna. Unnt er að búa vélina tundurskeytum, djúpsprengjum, SLAM-ER skotflaugum, Harpoon-flaugum gegn skipum og öðrum vopnum. Úr vélinni er unnt að flygjast með hljóðmerkjum sem sónar-baujur safna í hafinu. Vélarnar geta unnið með drónum á hafi úti.
Vélum af þessari gerð var fyrst flogið í apríl 2009, bandaríski flotinn tók þær formlega í notkun í nóvember 2013. Indverjar og Ástralir hafa keypt P-8 vélar. Bretar sem lögðu Nimrod-eftirlitsþotunum fyrir nokkrum árum velta fyrir sér kaupum á P-8 og jafnvel einnig Norðmenn.
Níu menn eru í áhöfn vélanna, tveir flugmenn og sjö til eftirlits og aðgerða. Lengd vélanna er 39,47 m (P-3 36 m), vænghaf 37,64 m (P-3 30 m), hæð 12,83 m (P-3 11,8 m).
P-8 vélar geta flogið á allt að 907 km hraða á klst. (P-3 750 km). Venjulegur hraði 815 km á klst. (P-3 610 km). Átaka-radíus 2.222 km (P-3 2.490 km) fjórar klukkustundir að störfum á hafi úti við kafbátaleit (P-3 þrjár klst. við kafbátaleit). Í langflugi milli staða fer P-8 7.500 km (P-3 8.944). Mesta flughæð P-8 er 41.000 fet, 12.496 m (P-3 28.300 fet, 8.625 m).