
Varðberg efndi til fundar í Norræna húsinu í hádegi mánudags 11. nóvember 2019 með Sir Stuart Peach, formanni hermálanefndar NATO, sem ræðumanni. Baldur Arnarson blaðamaður birtir ítarlega frásögn af fundinum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 12. október. Birtist frásögnin hér með leyfi höfundar:
„Stuart Peach, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir varnarmálin orðin ófyrirsjáanlegri en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins.
Þrjátíu árum eftir fall Berlínarmúrsins séu áskoranir í varnarmálum óljósar og í öllum heimshornum. Almenn samstaða sé um að alþjóðakerfi laga og reglna, sem byggt var upp eftir síðari heimsstyrjöldina, sé nú ógnað. Við því þurfi að bregðast. Þá komi ógnir úr nýjum áttum, þar með talið frá hópum sem ekki séu fulltrúar þjóðríkja.
Peach fór yfir stöðu varnarmála á fundi Varðbergs í Norræna húsinu en Björn Bjarnason, fv. ráðherra, var þar fundarstjóri. Nokkrir þingmenn sóttu fundinn. Peach er einn nánasti ráðgjafi Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO. Hann hóf herferil sinn í breska hernum.
Ný stjórnstöð í Virginíu
Peach rakti aðgerðir til að styrkja NATO, ekki síst til að efla viðbragðsgetu bandalagsins. Hluti af því væri uppbygging nýrrar stjórnstöðvar fyrir bandalagið í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum.
Stöðin hafi sérstakt eftirlit með siglingaleiðum og samskiptaleiðum á Norður-Atlantshafi. Þannig megi tryggja viðbragðsgetu bandalagsins.
Þá hafi verið lögð áhersla á að efla getu NATO til að bregðast hratt við aðstæðum, meðal annars með þjálfun 30 flotadeilda, 30 flugsveita og 30 herfylkja sem geti brugðist við innan 30 daga ef þörf krefur.
Árið 2023 muni NATO taka í notkun stjórnstöð í borginni Mons í Belgíu til að verjast netárásum. Ætlunin sé að tengja saman varnargetu bandalagsins og aðildarríkjanna.
Hluti af fælingarmætti
Staðfesta NATO hafi meðal annars birst í auknum umsvifum í Svartahafi að undanförnu. Þá sé loftrýmisgæslu ætlað að sýna staðfestu bandalagsins, ásamt því að tryggja getu þess til að hafa fælingarmátt.
Koma breskra orrustuþotna til Íslands á næstunni sé birtingarmynd þessarar áherslu.
Með fælingarmætti (e. deterrence) er vísað til aðgerða sem hindra frekari stigmögnun. Hann er því hluti hernaðarlegra varna.
Peach sagði að þótt stundum mætti skilja annað af umfjöllun fjölmiðla hefði NATO aðlagast nýjum veruleika. Yfirmenn NATO hefðu undirritað nýja hernaðaráætlun, þá fyrstu síðan 1967, til að styrkja fælingarmátt og varnir bandalagsins.
Sú hernaðaráætlun gagnist til að búa bandalagið undir framtíðina.
NATO sé að þróa nýja herfræði til næstu 20 ára sem nái til geimsins, nýsköpunar og tækni sem geti raskað innviðum, sem aftur geti skert viðbragðsgetu bandalagsins. Sú herfræði nái til líka norðursins.
Jafnframt sagði Peach það skoðun sína að bandalagið hefði í gegnum tíðina mögulega mátt skýra betur tilgang og markmið heræfinga. Með það í huga þurfi bandalagið að hlúa betur að samskiptum við almenning.

Á sér langan aðdraganda
Peach ræddi aukin hernaðarleg umsvif Rússa á síðustu árum.
Þau umsvif ættu sér langan aðdraganda. Til dæmis hefðu Rússar verið að nútímavæða sjóherinn í mörg ár. Þessar aðgerðir væru ekki aðeins hernaðarleg áskorun fyrir NATO, heldur væri hún mögulega ógn við samfélag okkar. Sæstrengir væru dæmi um möguleg skotmörk.
Þá lagði Peach áherslu á hversu víðtækt NATO-samstarfið væri. Dæmi um það væri að Georgíumenn legðu til næstum þúsund hermenn vegna starfsemi NATO í Afganistan.
Að loknu erindi sínu tók Peach við spurningum úr sal.
Meðal þeirra sem báru upp spurningu var Ólafur Egilsson, fyrrverandi fulltrúi hjá NATO og sendiherra Íslands í Moskvu 1990-1994.
Bað hann Peach að bera saman umsvif Rússa á síðustu árum og umsvif þeirra á Sovéttímanum þegar kalda stríðið stóð sem hæst og útbreiðsla kommúnismans var forgangsmál hjá Sovétríkjunum.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Peach út í þau ummæli Emmanuels Macrons, forseta Frakklands, að NATO ætti við »heiladauða« að stríða. Gaf Frakklandsforseti jafnframt í skyn að Evrópa þyrfti að bera aukna ábyrgð á eigin vörnum. Peach svaraði með því að benda á að 80% af hernaðargetu NATO verði utan ESB eftir útgöngu Breta úr sambandinu. Mikilvægi NATO til að tryggja öryggi beggja vegna Atlantshafsins stæði óhaggað þrátt fyrir að Evrópumenn viðruðu slíkar hugmyndir
Rússar vilja vera stórveldi
Peach sagði svarið fara eftir því hvar borið væri niður. Með hliðsjón af hernaðarlegum umsvifum Rússa í Kyrrahafi, Svartahafi, Kaspíahafi og allt vestur til Venesúela hljóti menn að draga þá ályktun að metnaður Rússa standi til þess að vera alþjóðlegt stórveldi sem geti beitt valdi sínu um allan heim.
Rússneskar hersveitir hafi eflst og lært af aðgerðum síðustu ára. Þá til dæmis í Úkraínu og í Georgíu fyrir 11 árum. Það sé sláandi hversu stóran hluta Georgíu rússneskar hersveitir hafi lagt undir sig.
Þá megi nefna »frosin átök« sem lítið sé fjallað um, til dæmis í héraðinu Nagornó-Karabak í Kákasus-fjöllunum og átök í Transnistríu. Nú birtist metnaður Rússa í alþjóðamálum meðal annars í auknum umsvifum í hafinu í kringum Ísland. Þrátt fyrir áföll í efnahagslífinu hafi Rússar haldið áfram að nútímavæða her sinn. Sú vígvæðing hafi birst í stríðinu í Sýrlandi. Þótt hersveitir Rússa séu fámennari en á Sovéttímanum séu þær engu að síður öflugar.
Rússneskar hersveitir gangi á stundum fram með þeim hætti að það væri NATO óheimilt. Ólíkt Rússum þurfi NATO að starfa á opinn og gagnsæjan hátt.
»Við þurfum að vera vakandi og fjárfesta í leyniþjónustu. Við þurfum að skilja hvað vakir fyrir Rússum og hvers vegna. Þá vil ég hvorki vera hrakspármaður né ögrandi,« sagði Peach og minnti á það markmið NATO að tryggja öryggi milljarðs manna með fælingarmætti.
Hafi nægan fælingarmátt
Eftir fundinn ræddi Morgunblaðið við Peach.
Spurður hvað knýi metnað Rússa í alþjóðamálum sagði Peach margar leiðir til að svara því. Hlutverk NATO væri að skilja aðgerðir Rússa og bregðast við þeim með nauðsynlegum fælingarmætti. Rússar hefðu valið að nýta takmarkað efnahagslegt svigrúm sitt til að fjárfesta í háþróaðri og nýrri varnartækni.
Spurður hvernig NATO hefði aðlagast nýjum ógnum sagði Peach að bandalagið hefði í sögu sinni aðlagast aðstæðum. Eftir lok kalda stríðsins hefði NATO sinnt friðargæslu eftir átökin á Balkanskaga og stutt við viðkvæmt ástand í Afganistan.
»Nú eru ógnirnar að verða fleiri og flóknari. Bandalagið þarf að nútímavæða viðbragðsgetuna til að hafa nauðsynlegan fælingarmátt. Hluti þess er að efla viðbragðsgetu NATO og sýna fram á að bandalagið hafi sveitir á láði, í lofti og á legi sem eru reiðubúnar að bregðast við hinu óvænta,« sagði Peach.
Spurður hvort hann teldi Vesturlandabúa almennt upplýsta um spennuna sem byggst hefur upp vegna hernaðaraðgerða Rússa sagði Peach að margvíslegar deilur og átök kæmust ekki í kastljós fjölmiðla. Til dæmis milli þjóðarbrota. Þau fyndu sér ekki farveg í fréttastraumnum.
»Við megum ekki halda að þótt við séum hér á jaðri Norðvestur-Evrópu séum við ónæm fyrir því sem gæti gerst í öðrum hlutum heimsins. Þar má nefna austurhluta Svartahafs, Georgíu og Kákasussvæðið. Þótt þessi svæði heyri ekki undir NATO ber að hafa í huga að afleiðingar átaka breiðast gjarnan út til annarra svæða,« sagði Peach.