Home / Fréttir / Óvissa um Norðurskautsráðið hjá Bandaríkjastjórn

Óvissa um Norðurskautsráðið hjá Bandaríkjastjórn

 

Jim DeHart, yfirmaður norðurslóðamála í bandaríska utanríkisráðuneytinu.

Á vefsíðunni Arctic Today birtist mánudaginn 28. mars viðtal við Jim DeHart, hæstsetta starfsmann bandaríska utanríkisráðuneytisins í norðurslóðamálum. Hann segir óvist hvernig Bandaríkjastjórn ætli að halda áfram samstarfi sínu á vettvangi Norðurskautsráðsins í hópi ríkjanna sjö sem stóðu að því 3. mars 2022 að gera hlé á öllu samstarfi við Rússa, vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

„Lánshæfismat Rússa um þessar mundir er á þann veg að þeir eru í ruslflokki. mér finnst að það eigi einnig við stöðu þeirra á norðurslóðum (e. in the Arctic),“ segir DeHart.

Hann segir samstarfið innan Norðurskautsráðsins reist á virðingu fyrir lögum og reglum þar sem fullveldi og landsyfirráðaréttur ríkja séu virt. „Þegar Rússar brjóta gegn þessum grundvallarreglum á svo svívirðilegan hátt annars staðar í heiminum verðum við einnig að líta það mjög alvarlegum augum á norðurslóðum vegna þess að landamæri setja grundvallarreglum ekki skorður.“

Hann segir að „auðvelt“ hafi verið að ákveða tímabundið hlé á störfum Norðurskautsráðsins en svonefnd Arctic-7-ríki (það er aðildarlönd ráðsins utan Rússlands) hefðu af varúð talað um tímabundið hlé í stað þess að segja sig frá samstarfi innan ráðsins eða stokka upp aðildina að því.

Arctic-7-ríkin hafa ekki ákveðið hvernig þau haga samstarfi sínu. Segir DeHart að fulltrúar ríkjanna verði að ræða það í sinn hóp áður en ákvörðun er tekin. Bandaríkjamenn hafi fyrir innrásina haft áhyggjur að hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum, truflunum þeirra á GPS-kerfum í nágrannaríkjum sem komu niður á almennum borgurum og því sem Bandaríkjamenn telja ólögmætar reglur um stjórn siglinga eftir Norðurleiðinni, það er fyrir norðan Rússland.

Biden-stjórnin vilji enn að lágspenna ríki á svæðinu. Hún vilji einnig eiga náið samstarf þar við NATO-ríkin og við Kanada sérstaklega um rekstur NORAD-loftvarnakerfisins „gegn hvers kyns ógn“.

Þótt athyglin sé nú öll á Rússum megi ekki gleyma umsvifum Kínverja á norðurslóðum, Bandaríkjamenn telji þau áhyggjuefni.

Kínverjar hafi staðið að margvíslegri „mikilvægri mannvirkjagerð“ til dæmis í fjarskiptum, höfnum og flugvöllum auk þess að senda vísindaleiðangra norður á bóginn þar sé „greinilega ekki um hrein vísindi að ræða heldur hugsanlega lagður grunnur að því að þeir geti haft hernaðarleg afskipti á norðurslóðum í framtíðinni,“ seg De Hart.

Hann segir að Bandaríkjamenn séu ekki á móti fjárfestingum Kínverja en þar þurfi að ríkja gagnsæi og virðing fyrir lögum og rétti.

Hann telur ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að opna ræðisskrifstofu í Nuuk í júní 2020 „eitt það besta sem við höfum gert“.

Á næstu mánuðum gefi Bandaríkjastjórn út endurskoðaða norðurslóðastefnu sína með nýju mati á samskiptum við Rússa og Kínverja. Þar verði ekki aðeins fjallað um geópólitísk viðfangsefni heldur einnig hvernig fjárfestingum verði háttað á svæðinu.

DeHart segir við Melody Schreiber frá Arctic Today að nú séu norðurslóðir almennt taldar hafa mikið strategískt gildi og mikil athygli beinist að þeim í Washington:

„Enginn þarf lengur að hafa fyrir að færa rök fyrir mikilvægi norðurslóða,“ segir DeHart. „Áður fyrr var áhuginn stundum mismunandi mikill á milli ríkisstjórna, svo er ekki lengur.“

Brátt kemur að því að tveggja ára tímabili DeHarts sem sérlegur yfirmaður norðurslóðamála í utanríkisráðuneytinu ljúki. Hann segir að málaflokkurinn njóti áfram forgangs hjá þeim sem sitji við stjórnvölinn í Washington.

Ekki hefur verið tilkynnt hver kemur í stað DeHarts.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …