Home / Fréttir / Óvissa um fund Trumps og Kims

Óvissa um fund Trumps og Kims

Donald Trump og Moon Jae-in, forseti S-Kóreu.
Donald Trump og Moon Jae-in, forseti S-Kóreu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þriðjudaginn 22. maí að ef til vill yrði fyrirhuguðum fundi sínum með Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu frestað.

„Það eru mjög verulegar líkur á að þetta gangi ekki upp,“ sagði Trump við fréttamenn áður en hann hitti Moon Jae-in, forseta S-Kóreu, á fundi í Hvíta húsinu í Washington. „Ef til vill gengur þetta ekki upp 12. júní.“

Trump lýsti þrátt fyrir þetta áhuga sínum á að fundurinn yrði haldinn og sagði að hann kynni að boða upphaf blómlegri tíma fyrir íbúa Norður-Kóreu. Hann viðurkenndi hins vegar að nýlegar yfirlýsingar frá Norður-Kóreu hefðu leitt til efasemda um dagsetningu fundarins sem ákveðið var að færi fram í Singapúr. Trump virtist jafn ráðþrota og aðrir yfir hvað gerðist næst, segir í The New York Times.

„Okkur miðar áfram. Við sjáum hvað gerist,“ sagði Trump. „Við höfum sett nokkur skilyrði. Ég held að þau náist. Gerist það ekki verður enginn fundur. Verði hann ekki, kann hann að verða síðar. Ef til vill verður hann á öðrum tíma. Við sjáum til. Við ræðum málið.“

Forsetinn segir að hann hafi séð breytingu hjá Kim eftir að hann hitti Xi Jinping, forseta Kína, öðru sinni fyrir nokkrum vikum. Gaf hann til kynna að Xi hefði áhrif á afstöðu N-Kóreumanna til Bandaríkjanna.

„Afstaða þeirra frá Norður-Kóreu breyttist eftir þennan fund,“ sagði Trump. „Satt að segja er ég ekki ánægður með það.“

Moon, forseti S-Kóreu sagðist hafa fulla trú á því að Trump mundi stíga það sögulega skref að hitta Kim.

Moon hefur verið milliður í samskiptum Trumps og Kims. Í apríl héldu Moon og Kim sögulegan fund sem ýtti undir líkur á því að Trump og Kim mundu hittast. Í fyrri viku sögðu N-Kóreumenn þó að þeir þyrftu að íhuga málið betur og andmæltu kröfu stjórnar Trumps um að þeir afsöluðu sér kjarnorkuvopnum áður en þeir fengju nokkuð í staðinn.

Á sínum tíma var það sendinefnd frá S-Kóreu sem flutti Trump boð frá Kim til Trumps um fund þeirra. Forsetinn tók boðinu á staðnum við undrun sendinefndarinnar og eigin ráðgjafa sinna.

Trump ræddi við Moon í síma laugardaginn 19. maí og lét í ljós efasemdir vegna breyttrar afstöðu N-Kóreumanna. Þeir mótmæltu sérstaklega orðum Johns Boltons, þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, sem sagði að hann liti á Líbíu sem fordæmi í samningum við N-Kóreumenn.

Trump afneitaði síðan ummælum Boltons og viðurkenndi að einhliða afvopnun Líbíumanna árið 2003 hefði ekki veitt Muammar el-Gaddafi, einræðisherra í Líbíu, neina vernd. Hann var felldur af eigin þegnum í uppreisn innan við áratug síðar.

Í ræðu í fyrri viku boðaði Trump að hann mundi tryggja Kim áfram setu á valdastóli og framfarir í landi hans samþykkti hann að afsala sér kjarnorkuvopnum sínum. Þessu hefur verið tekið af tortryggni og ólund af fjölmiðlum í N-Kóreu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …