Home / Fréttir / Óvissa um bandarísk áform á Grænlandi

Óvissa um bandarísk áform á Grænlandi

greenland

Nýjar ofurhljóðfráar skotflaugar Rússa skýra ef til vill hvers vegna áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi er eins mikill og raunin er. Flaugunum má meðal annars koma fyrir í flugvélum sem athafna sig frá rússneskum herstöðvum á norðurskautssvæðinu. Stöðvarnar eru ekki langt frá bandarísku Thule-herstöðinni á Grænlandi.

Þetta kemur fram í grein sem danski blaðamaðurinn Martin Breum birtir miðvikudaginn 27. nóvember á dönsku vefsíðunni altinget.is.

Nú eru þrír mánuðir liðnir frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að í Hvíta húsinu í Washington veltu menn fyrir sér hvort þeir ættu að kaupa Grænland.

Síðan hafa Danir og Bandaríkjamenn rætt saman við ýmis tækifæri. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, og Ane Lone Baggars, utanríkisráðherra grænlensku heimastjórnarinnar, fóru til dæmis nýlega til viðræðna við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Martin Breum segist hins vegar vita að þrátt fyrir þessa gerjun hafi hvorki danska ríkisstjórnin né grænlenska stjórnin hugmynd um hvað fyrir Bandaríkjastjórn vaki í raun á Grænlandi.

Hann segir að bandarískir diplómatar, embættismenn og herforingjar streymi til Grænlands og í þeim hópi sé Thomas Ulrich Brechbuhl, hernaðarráðgjafi Mikes Pompeos utanríkisráðherra. Ekkert hafi hins vegar komið fram um hernaðarleg verkefni á vegum Bandaríkjamanna á Grænlandi.

Martin Breum minnir á að hernaðarleg umsvif Bandaríkjamanna hafi aukist að nýju frá Keflavík. Hann veltir fyrir sér hvort Bandaríkjastjórn hafi áform um að senda menn til að stunda kafbátaleit frá Kangerlussuaq (Syðri Straumfirði). Hvort þeir ætli að koma upp velli fyrir dróna á austurströnd Grænlands sem notaðir verði til eftirlits með rússneskum kafbátum í GIUK-hliðinu, hafsvæðinu sem nær frá Grænlandi um Ísland til Bretlands.

Greiningarvinna

Breum segir að innan bandaríska stjórnkerfisins vinni menn að því að greina hernaðarlegu stöðuna á norðurslóðum. Hlutverk diplómata sé að plægja jarðveginn fyrir eins fjölbreytta aðkomu bandarískra yfirvalda að norðurslóðum og verða má. Hver hún eigi að vera sé enn óljóst þar sem greinendur eigi eftir að stilla saman sjónarmið allra þeirra fjölmörgu sem koma að úrlausn mála af þessu tagi í Washinbgton undir forystu þjóðaröryggisráðsins, utanríkisráðuneytisins og starfsmanna forsetans.

Breum segir að Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Dana, hafi nýlega endurspeglað vanda dönsku ríkisstjórnarinnar á ráðstefnu samtakanna Folk & Sikkerhed í Kristjánsborg. Hún hafi aðeins svarað almennum orðum þegar hún var spurð um hvað vekti í raun fyrir Bandaríkjamönnum á Grænlandi.

Í grein Breums segir að aðeins ein stór bandarísk hernaðarleg framkvæmd á Grænlandi hafi veruleg áhrif. Grænland fái nýja strategíska þýðingu ekki aðeins í augum Bandaríkjamanna heldur einnig Rússa. Nýjar sveitir bandarískra hermanna hafi áhrif á grænlenskt samfélag, auki hlut Bandaríkjamanna á Grænlandi og hafi áhrif á jafnvægið innan danska ríkjasambandsins.

Minnt er á að Mike Pompeo hafi í frægri ræðu í Rovaniemi í Finnlandi í maí 2019 að með aukinni áherslu á norðurslóðir ætli Bandaríkjamenn að bregðast við því sem þeir telja skýrar ógnanir Rússa og Kínverja þar. Á Grænlandi hafa bandarískir stjórnarerindrekar að látið í ljós óskir um nánari tengsl við Grænlendinga, boðað stuðning við enskukennslu, kynnt áform um námsstyrki og um að opna ræðisskrifstofu. Í danska blaðinu Berlingske Tidende kynnti

Thomas Brechbuhl markmið Bandaríkjamanna á Grænlandi með þessum orðum:

„Vegna afls okkar of reynslu í öryggis- og varnarmálum í norðri held ég að þar sé um að ræða svið þar sem Bandaríkjamenn taki afgerandi forystu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að á ýmsum öðrum sviðum þar sem Bandaríkjamenn hafa áunnið sér orð, það er á sviði frumkvæðis og nýsköpunar í þágu aukinnar hagsældar, verði þeir Grænlendingum til framdráttar.

Ég tel einnig að búum að ýmissi reynslu sem nýta megi í samstarfi. Margir framúrskarandi skólar eru hjá okkur, þar má einnig finna fyrirmyndir um rekstur fyrirtækja við erfiðar aðstæður.“

Kenning um áhuga Bandaríkjamanna

Torben Ørting Jørgensen flotaforingi hvarf úr danska hernum árið 2009 og starfar nú sem skipamiðlari. Hann tekur virkan þátt í dönskum umræðum um varnar- og öryggismál og hefur viðrað niðurstöður eigin athugana á því hvað vaki fyrir Bandaríkjamönnum á Grænlandi.

Breum vitnar í ræðu Ørtings Jørgensens á fyrrnefndri ráðstefnu á vegum Folk & Sikkerhed. Kenning hans er að bandarískir herfræðingar líti mjög til ógnarinnar af ofurhljóðfráum flaugum Rússa. Þeim er skotið á miklu meiri hraða en öðrum langdrægum eldflaugum og þær eru þannig úr garði gerðar að þeim má víkja af upphaflegri leið í átt að skotmarkinu.

Í samtali við Breum benti Torben Ørting Jørgensen á að í hefðbundnum fjárlögum Bandaríkjanna væri ekki varið umtalsverðum fjárhæðum til hefðbundinna skipa og flugvéla sem beita megi á norðurslóðum en hins vegar sé stórfé varið til að þróa enn frekar bandarískt varnarkerfi gegn ofurhljóðfráu flaugunum og auk þess til að framleiða sambærilegar flaugar í Bandaríkjunum.

Bandaríska hugveitan Rand Corporation varaði árið 2018 við nýju, stjórnlausu vígbúnaðarkapphlaupi:

„Ofurhljóðfráar flaugar eru ný ógn því að þeim má stjórna á flugi og einnig fara þær hraðar en 5.000 km á klukkustund og geta því farið gegnum flest eldflaugavarnarkerfi og stytta auk þess tímann sem þjóð undir árás hefur til að gera gagnráðstafanir.“

Bandaríkjaþing hefur lögfest að árið 2022 skuli stjórnvöld í Washington hafa til reiðu ofurhljóðfráar flaugar. Þetta snýr að Grænlandi á þann. veg að undanfarin tvö til þrjú ár hafa Rússar sett ofurhljóðfráar flaugar á herskip og í orrustuþotur. Þar er meðal annars um að ræða svonefndar Zirkon-flaugar sem geta átta sinnum hraðar en hljóðið og borið bæði venjulega og kjarnorku sprengjuodda.

Flaugunum kann að verða skotið úr orrustuþotum sem fara á loft frá norðlægustu flugvöllum Rússa í hlutfallslega lítilli fjarlægð frá Thule-stöðinni.

Torben Ørting Jørgensen gerir ráð fyrir að Bandaríkjamenn þarfnist ratsjárkerfis eða annars konar eftirlitskerfis í stöðvum á Norðaustur-Grænlandi. Þaðan mætti greina ofurhljóðfráar flaugar áður en þær ná til austurstrandar Bandaríkjanna. Þá mætti efla varnir vesturhluta Bandaríkjanna í Alaska. Varnir gegn nýjum gerðum eldflauga munu treysta á eftirlitsnema í gervihnöttum í samvinnu við ratsjár eða infrarauða tækni á landi – til dæmis á Norðaustur-Grænlandi.

Torben Ørting Jørgensen hvetur danska og grænlenska ráðamenn til að búa sig undir að semja við Bandaríkjamenn á þann veg að mannvirki sem reist verða á Grænlandi nýtist einnig Grænlendingum á hvaða sviði sem er.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …