Home / Fréttir / Óvissa um áhrif ESB-úrsagnar Breta á öryggi Evrópu

Óvissa um áhrif ESB-úrsagnar Breta á öryggi Evrópu

Breskir hermenn smíða bráðabirgðabrú yfir fljót í Póllandi í nýlegri heræfingu.
Breskir hermenn smíða bráðabirgðabrú yfir fljót í Póllandi í nýlegri heræfingu.

Áður en Bretar greiddu atkvæði um aðild sína að ESB birtust viðvaranir um að úrsögn ógnaði öryggi Evrópu ef ekki heimsfriði. Eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir og Bretar eru á leið úr ESB telja ýmsir sérfræðingar að Atlantshafsbandalagið (NATO) fái nýtt og aukið hlutverk auk þess sem Þjóðverjar kunni að auka útgjöld sín til varnarmála. Þetta tvennt verði til þess að auka öryggi Evrópu.

Hvað sem vangaveltum á þennan veg líður eru embættismenn sammála um að úrsögnin valdi óvissu segir Jules Barnes, fréttaritari The Wall Street Journal í Brussel.

„Það sem Bretar gera skiptir máli, Bretar leggja mest af mörkum til evrópsks öryggis,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. „Það ríkir meiri óvissa um framtíðina núna en áður.“

Þá er bent á að innan ESB hafi Bretar lengi lagst gegn því að sambandið fengi aukið hernaðarlegt hlutverk. Nú sé líklegt að lífi verði blásið í umræður um að koma á fót sameiginlegri herstjórn eða dreifingu fastaherafla ríkjanna.

Stoltenberg og embættismenn NATO hvetja til nánari samvinnu við ESB en vara því að komið verði á tvöföldu stjórnkerfi herafla, til dæmis með herstjórn ESB.

Julius Barnes segir að innan ESB án Breta muni ýmsir mæla með því að sambandið fari eigin leið í öryggismálum og stefni að því að koma á fót ESB-herafla. Innan NATO telja menn stefnu í þessa átt grafa undan bandalaginu.

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, vill að sambandið láti meira að kveða á sviði hermála. Hún lagði sunnudaginn 26. júní lokahönd á nýja stefnu sambandsins í öryggismálum þar sem hvatt er til þess að Evrópuríki hækki útgjöld sín til varnarmála. Í stefnunni er hvatt til þess að ESB eigi nána samvinnu við NATO en jafnframt að ESB leggi grunn að sjálfstæði sínu í öryggismálum.

Hryðjuverk eru hættulegust Evrópuþjóðum um þessar mundir. Bandaríkjastjórn hefur hvatt stjórnvöld Evrópuríkja til að miðla meiri leyniupplýsingum um hryðjuverkamenn milli höfuðborga ríkjanna. Þar hafa Bretar gegnt mikilvægu hlutverki enda með öflugustu evrópsku leyniþjónustuna í Evrópu.

Bandaríkjamenn hafa ýtt undir mikilvægi Europol, Evrópulögreglunnar, sem nú lýtur stjórn bresks forstjóra, og hryðjuverkamiðstöðvar hennar. Þeir hafa hvatt Breta til að setja meiri af trúnaðarupplýsingum sínum inn í gagnagrunn Europol um hryðjuverkaógnina. Nú er talið að þetta samstarf Breta við Europol kunni að vera í hættu.

Hvað sem líður samstarfi á ESB- og NATO-vettvangi hafa margir embættismenn og hernaðarsérfræðingar mestar áhyggjur af framtíð sjálfs Sameinaða konungdæmisins (UK). Skoskir þjóðernissinnar hafa sagt að áhugi Skota á að vera áfram í ESB auki líkur á nýrri atkvæðagreiðslu meðal Skota um aðild þeirra að UK.

Komi til þess að UK klofni vakna spurningar um framtíð kjarnorkuherafla Breta. Kafbátastöð þeirra er í Skotlandi en skoskir þjóðernissinnar vilja að Skotland verði kjarnorkuvopnalaust svæði. Sjálfstæðir Skotar mundu loka lægi kjarnorkukafbátanna og gera þá brottræka.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …