Home / Fréttir / Óvissa ríkir enn í Tyrklandi um efnahag þjóðarinnar

Óvissa ríkir enn í Tyrklandi um efnahag þjóðarinnar

 

45061139_7

Af hálfu seðlabanka Tyrklands var gripið til ýmissa aðgerða mánudaginn 13. ágúst til að tryggja greiðslugetu bankakerfis landsins. Þar með snerust yfirvöld landsins í fyrsta sinn á markvissan hátt gegn hruni lírunnar sem kann að leiða til allsherjar fjármálakreppu.

Í yfirlýsingu seðlabankans sagði að af hálfu bankans yrði „gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að tryggja fjármálalegan stöðugleika“ og „til að tryggja bönkum nauðsynlega greiðslugetu“. Nefnd voru nokkur sérgreind atriði sem eiga að tryggja nægilegt framboð á lírum og erlendum gjaldeyri til bankanna.

Að morgni mánudags féll líran í 7,22 gagnvart dollar þegar viðskipti hófust á Asíumarkaði. Eftir að seðlabankinn lét í sér heyra varð gengið 6,85 gegn dollar en var 6,6 föstudaginn 10. ágúst. Þetta jafngildir 4% falli. Í fyrri viku birti Goldman Sachs niðurstöðu á mati sem sýndi að færi líran í 7,1 á móti dollar þyldu tyrkneskir bankar ekki álagið.

Gengi tyrknesku lírunnar gagnvart dollar hefur lækkað um 45% frá áramótum, fallið var 15% föstudaginn 10. ágúst. Um heim allan er fylgst náið með framvindunni.

Efnahagsstefna Erdogans Tyrklandsforseta hefur einkennst af ríkri áherslu hans á að halda vöxtum sem lægstum. Í tilkynningu seðlabankans nú var ekki minnst einu orði á vexti en hagfræðingar telja brýnt að hækka þá til að ná tökum á ástandinu og sýna sjálfstæði seðlabankans.

Þá hafa tyrknesk yfirvöld hafnað öllum hugmyndum um að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Recep Tayyip Erdogan forseti hefur hvað eftir annað gagnrýnt kröfur um hærri vexti auk þess að veitast að Bandaríkjastjórn vegna krafna hennar um framsal á bandarískum presti frá Tyrklandi.

Sunnudaginn 12. ágúst hvatti Erdogan kaupsýslumenn til að taka ekki erlenda mynt út af bankareikningum fyrirtækja sinna. „Að öðrum kosti verðum við að hrinda í framkvæmd áætlunum B og C,“ sagði forsetinn án frekari skýringa á efni hótunarinnar. Kaupsýslumenn ættu að vita að það væri ekki aðeins hlutskipti forsetans og stjórnar hans að halda lífi í þjóðinni heldur einnig iðnrekenda og kaupmanna.

Erdogan hefur af þjóðernislegum eldmóði lýst gengishruninu sem vísvitandi erlendri „árás“ á land og þjóð og heitið því að láta ekki bugast.

Berat Albayrak, fjármálaráðherra og tengdasonur Erdogans, tók undir orð forsetans um að fall lírunnar mætti rekja til „árásar“. Hann sagði líruna vera „beint skotmark“ Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem tilkynnti á Twitter föstudaginn 10. ágúst að hann ætlaði að hækka tolla á tyrknesku áli og stáli. Á hinn bóginn þakkaði Albayrak þýska efnahagsmálaráðherranum, Peter Altmaier, sem á dögunum sakaði Trump um að vinna gegn hagvexti með tollastefnu sinni gegn ESB, Kína og Tyrklandi.

Albayrak hótaði hverjum þeim málsókn sem stundaði rangfærslur til að skaða efnahag Tyrklands. Saksóknarar sögðu síðar að þeir myndu rannsaka allar skráðar fréttir eða sjónvarpsfréttir og færslur á samfélagsmiðlum sem ógnuðu „efnahagsöryggi“ og hefðu að geyma „falskar fréttir“.

Hræðslan við „smit“ frá tyrkneska markaðnum hefur neikvæð áhrif á efnahag nýmarkaðslanda og evru-landanna. Gengi evrunnar lækkaði gagnvart dollar í 1,13 dollara. Óttast er um hag spánskra, ítalskra og franskra banka sem hafa lánað mikið til Tyrklands.

Spænskir bankar eiga alls 83,3 milljarða dollara útistandandi í Tyrklandi, franskir bankar 38,4 milljarða og ítalskir bankar 17 milljarða. Nú óttast menn að tyrknesk fyrirtæki hafi ekki burði til að endurgreiða lán sem þau tóku í dollurum og evrum vegna hruns lírunnar og þessi fyrirtæki dragi bankanna niður með sér.

 

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …