Home / Fréttir / Óvissa í öryggismálum einkennir ársskýrslu MSC

Óvissa í öryggismálum einkennir ársskýrslu MSC

 

Frá öryggisráðstefnunni í München 2017.
Frá öryggisráðstefnunni í München 2017.

Árlega öryggisráðstefnan verður haldin í München dagana 16. til 18. febrúar. Fimmtudaginn 8. febrúar birtist úttekt á stöðu öryggismála í heiminum sem samin er af sérfræðingum ráðstefnunnar og ber að þessu sinni fyrirsögnina: Að brúninni – og til baka? og lýsir hún óvissunni sem talin er ríkja um þessar mundir. 

„Á liðnu ári hefur heimurinn færst nær – alltof nærri – brún alvarlegra átaka,“ segir Wolfgang Ischinger, forstöðumaður Öryggisráðstefnunnar í München (MSC), í inngangi ársskýrslunnar.  

Hann minnir á sífellt vopnaskak í samskiptum Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna, harðnandi keppni milli Sáda og Írana og stöðuga spennu milli Rússa og NATO í Evrópu. 

Í MSC-úttektinni í fyrra var talið líklegt að Donald Trump forseti mundi með einhliða aðgerðum fara á svig við þá skipan heimsmála þar sem Bandaríkjamenn ábyrgjast alþjóðlegt öryggi og með því að gæta hagsmuna Bandaríkjanna á kostnað hefðbundinna bandamanna. 

Nú segir að undir stjórn Trumps hafi Bandaríkjastjórn hafnað stefnu sem mótuð sé á sameiginlegum gildum, hún hafi lítinn áhuga á að efla svæðisbundnar eða hnattrænar stofnanir sem móta alþjóðasamskipti en hallist frekar að tvíhliða tengslum sem þjóni eigin hagsmunum hennar. 

Samhliða þessu hafi forseti Bandaríkjanna lítinn áhuga á að sinna hefðbundnum samskiptum á alþjóðavettvangi. Fjárveitingar til bandaríska utanríkisráðuneytisins hafa verið stórlækkaðar en hækkaðar verulega til varnarmálaráðuneytisins. 

Í skýrslunni er vitnað í John Ikenberry, sérfræðing í utanríkismálum við Princeton-háskóla, sem segir: „Voldugasta ríki heims er byrjað að vinna skemmdarverk á því kerfi sem það skapaði.“ 

Bent er á að stefnubreytingin í Bandaríkjunum leiði til þess að Evrópuríkin verði að leggja meira af mörkum til eigin öryggis, þar á meðal með því að auka útgjöld til varnarmála og skilgreina varnir sínar innan nýs samstarfsramma. 

Færu ESB-þjóðirnar og Norðmenn að samþykkt NATO um svonefnda 2%-reglu og veittu 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála mundi það leiða til nærri 50% hækkunar á útgjöldum, yrðu útgjöld þeirra til varnarmála alls 386 milljarðar dollara. 

Í skýrslunni er bent á að samvinna Evrópuríkja aukist í ýmsu tilliti. Þannig hafi til dæmis 25 Evrópuríki ákveðið að samhæfa varnir sínar og varnarstefnu innan ramma ESB í fastmótuðu samstarfskerfi sem nefnist á ensku Permanent Structured Cooperation eða PESCO. 

Frakkar og Þjóðverjar hafa lýst áhuga á að hanna og smíða nýja kynslóð af orrustuþotum. Þá er Emmanuel Macron Frakklandsforseti eindreginn stuðningsmaður Evrópuhers. 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …