Home / Fréttir / Óvissa í öryggismálum einkennir ársskýrslu MSC

Óvissa í öryggismálum einkennir ársskýrslu MSC

 

Frá öryggisráðstefnunni í München 2017.
Frá öryggisráðstefnunni í München 2017.

Árlega öryggisráðstefnan verður haldin í München dagana 16. til 18. febrúar. Fimmtudaginn 8. febrúar birtist úttekt á stöðu öryggismála í heiminum sem samin er af sérfræðingum ráðstefnunnar og ber að þessu sinni fyrirsögnina: Að brúninni – og til baka? og lýsir hún óvissunni sem talin er ríkja um þessar mundir. 

„Á liðnu ári hefur heimurinn færst nær – alltof nærri – brún alvarlegra átaka,“ segir Wolfgang Ischinger, forstöðumaður Öryggisráðstefnunnar í München (MSC), í inngangi ársskýrslunnar.  

Hann minnir á sífellt vopnaskak í samskiptum Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna, harðnandi keppni milli Sáda og Írana og stöðuga spennu milli Rússa og NATO í Evrópu. 

Í MSC-úttektinni í fyrra var talið líklegt að Donald Trump forseti mundi með einhliða aðgerðum fara á svig við þá skipan heimsmála þar sem Bandaríkjamenn ábyrgjast alþjóðlegt öryggi og með því að gæta hagsmuna Bandaríkjanna á kostnað hefðbundinna bandamanna. 

Nú segir að undir stjórn Trumps hafi Bandaríkjastjórn hafnað stefnu sem mótuð sé á sameiginlegum gildum, hún hafi lítinn áhuga á að efla svæðisbundnar eða hnattrænar stofnanir sem móta alþjóðasamskipti en hallist frekar að tvíhliða tengslum sem þjóni eigin hagsmunum hennar. 

Samhliða þessu hafi forseti Bandaríkjanna lítinn áhuga á að sinna hefðbundnum samskiptum á alþjóðavettvangi. Fjárveitingar til bandaríska utanríkisráðuneytisins hafa verið stórlækkaðar en hækkaðar verulega til varnarmálaráðuneytisins. 

Í skýrslunni er vitnað í John Ikenberry, sérfræðing í utanríkismálum við Princeton-háskóla, sem segir: „Voldugasta ríki heims er byrjað að vinna skemmdarverk á því kerfi sem það skapaði.“ 

Bent er á að stefnubreytingin í Bandaríkjunum leiði til þess að Evrópuríkin verði að leggja meira af mörkum til eigin öryggis, þar á meðal með því að auka útgjöld til varnarmála og skilgreina varnir sínar innan nýs samstarfsramma. 

Færu ESB-þjóðirnar og Norðmenn að samþykkt NATO um svonefnda 2%-reglu og veittu 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála mundi það leiða til nærri 50% hækkunar á útgjöldum, yrðu útgjöld þeirra til varnarmála alls 386 milljarðar dollara. 

Í skýrslunni er bent á að samvinna Evrópuríkja aukist í ýmsu tilliti. Þannig hafi til dæmis 25 Evrópuríki ákveðið að samhæfa varnir sínar og varnarstefnu innan ramma ESB í fastmótuðu samstarfskerfi sem nefnist á ensku Permanent Structured Cooperation eða PESCO. 

Frakkar og Þjóðverjar hafa lýst áhuga á að hanna og smíða nýja kynslóð af orrustuþotum. Þá er Emmanuel Macron Frakklandsforseti eindreginn stuðningsmaður Evrópuhers. 

 

 

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …