Home / Fréttir / Óvissa á norðurslóðum – einum hættulegasta heimshlutanum

Óvissa á norðurslóðum – einum hættulegasta heimshlutanum

Frá Trident Juncture 2018 NATO æfingunni.

Lars Saunes, fyrrverandi yfirmaður norska sjóhersins og núverandi prófessor við U.S. Naval War College, háskóla bandaríska flotans, lýsti 5. desember áhyggjum yfir stöðu öryggismála á norðurslóðum í samtali við norska ríkisútvarpið, NRK.

Saunes segir að á norðurslóðum ríki eitt mesta hættuástand í heiminum vegna þess að ógjörningur sé að segja hvað þar kunni að gerast, misstigi eitthvert ríki sig þar.

Hann vekur athygli á hve Rússar hafi þar mikilla hagsmuna að gæta og þróunin hafi verið í átt frá samvinnu og samtali til óvissu og samskiptaleysis sem stuðli óhjákvæmilega að meira hættuástandi en ríki almennt í heiminum – utan hreinna átakasvæða.

Hann bendir á að hervæðing aukist á norðurslóðum, einkum milli Vesturlanda og Rússa. Þar séu megin kjarnorkuherstöðvar Rússa.

Öryggisleysi vaxi vegna þess að næstum engin samtöl fari fram milli þeirra sem hervæðist, einkum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Við það hafi orðið hlé á samstarfi við Rússa innan Norðurskautsráðsins og stjórnmálasambandið milli Norðmanna og Rússa hafi minnkað.

Hann minnir á hve mikilla efnahagslegra hagsmuna Rússar hafi að gæta á norðurslóðum, einkum vegna olíu- og gasvinnslu. Þá skipti siglingar eftir Norðurleiðinni frá Atlantshafi til Kyrrahafs Rússa miklu. Kínverjar láti meira að sér kveða á norðurslóðum en áður og það hvetji Bandaríkjamenn til aukinnar árvekni þar. Sú hætta sé fyrir hendi að misskilningur eða mistök leiði til átaka á norðurslóðum.

Í sama þætti NRK tekur norski varnarmálaráðherrann, Bjørn Arild Gram, undir nauðsyn þess að draga úr óvissu og auka stöðugleika í norðri. Hann segir að menn viti nú síður en áður upp á hverju Rússar kunni að taka. Telur hann nauðsynlegt að halda einhverjum samskiptaleiðum opnum við Rússa til að koma í veg fyrir misskilning og vegna öryggis sjófarenda á Barentshafi.

Andreas Østhagen, sérfræðingur við Fridtjof Nansen-stofnunina, telur ekki líkur á átökum á norðurslóðum. Hann útilokar þó ekki að Rússar hafi uppi kjarnorkuhótanir vegna þess sem kunni að gerast í Úkraínu eða öðrum nágrannalöndum. Það gæti leitt til viðbragða af hálfu NATO.

Um leið og Østhagen telur að ekki sé ástæða til að hafna bjartsýni vegna ástandsins. Ekki séu nein óleyst mál í norðri sem kynnu að skerpa ágreining og ýta undir valdbeitingu, þar sé ekki deilt um landamæri eða auðlindir. Það séu gagnkvæmir hagsmunir norðurskautsþjóða, þar með Rússa og Kínverja að viðhalda stöðugleika og stunda nýtingu auðlinda og siglingar. Niðurstaða hans er að norðurslóðir séu ekki púðurtunna á barmi sprengingar þótt ástandið þar kunni að tengjast alvarlegum atburðum í stærra samhengi og átökum á fjarlægum slóðum.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …