Home / Fréttir / Óvinsældir Macrons Frakklandsforseta aukast áfram

Óvinsældir Macrons Frakklandsforseta aukast áfram

Hér ganga þeir saman fyrir miðju Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Edouard Philippe forsætisráðherra.
Hér ganga þeir saman fyrir miðju Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Edouard Philippe forsætisráðherra.

Rúmum tveimur mánuðum eftir að hafa verið kjörinn forseti Frakklands hafa vinsældir Emmanuels Macrons minnkað á við það sem verst hefur orðið áður í V. lýðveldinu sem kom til sögunnar 1958. Árið 1995 mældust vinsældir Jacques Chiracs aðeins 39% í júlí, Macron mælist nú með 36%, François Hollande mældist með 56% í júlí 2012 og Nicolas Sarkozy með 66% árið 2007.

Vinsældir Edouards Philippes, forsætisráðherra Frakklands, hafa einnig stórminnkað og eru nú 37%.

Könnunarfyrirtækið YouGov birti fimmtudaginn 3. ágúst niðurstöður könnunar sem sýndi 36% stuðning við forsetann en hann var kjörinn 7. maí með 66% atkvæða en kosningaþátttaka var innan við 50%.

Stjórnmálaskýrendur segja að óvinsældir forsetans megi rekja til aðhaldsstefnunnar í ríkisfjármálum sem hann hefur boðað án þess að hafa haldið vel á kynningu hennar. Hún leiddi meðal annars til afsagnar æðsta manns franska hersins, Pierres de Villiers, mikilsvirts hershöfðingja. Þá telja ólíkir þjóðfélagshópar að sér vegið með stefnunni. Laun opinberra starfsmanna eru fryst. Eftirlaunaþegar óttast um sinn hag. Sveitarstjórnir sjá að sér vegið. Húsaleigubætur lækka.

Á vinstri væng stjórnmálamanna heyrast háværar gagnrýnisraddir vegna viðhafnarinnar sem forsetinn krafðist þegar hann tók á móti Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Versölum og Donald Trump á Bastilludaginn 14. júlí.

Þá er bent á að hluti kjósenda telur sig hafa verið beittan blekkingum að því leyti að þeir hafi treyst á boðskap Macrons í kosningabaráttunni en að henni og sigri hans loknum blasi við autt svið eins og eftir ofursýningu í Hollywood-stíl. Kaldur veruleikinn felist í niðurskurði og aðhaldi.

Franska þingið er farið í sumarleyfi en fyrir þinghlé veitti það forsetanum umboð til róttækra breytinga á vinnulöggjöfinni sem var eitt helsta kosningaloforð Macrons. Hann vill auka svigrúm atvinnurekenda til að ráða og reka starfsfólk.

Í ágúst er franskt þjóðlíf í sumarleyfisdvala en að honum loknum hafa verkalýðsfélög boðað til mikilla mótmæla gegn stefnu forsetans.

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …