Home / Fréttir / Óvandaður eftirleikur G7-leiðtogafundar

Óvandaður eftirleikur G7-leiðtogafundar

 

Jezco Denzel, ljósmyndari þýsku kanslaraskrifstofunnar, tók þessa mynd á G7-fundinum í Kanada. Af öllum m,yndum þaðan fór þess á mest flug í netheimum. Hún þykir sýna best andrúmsloftið á fundinum og hafa langar blaðagreinar verið ritaðar um hvað lesa megi úr henni.
Jezco Denzel, ljósmyndari þýsku kanslaraskrifstofunnar, tók þessa mynd á G7-fundinum í Kanada. Af öllum myndum þaðan fór þess á mest flug í netheimum. Hún þykir sýna best andrúmsloftið á fundinum og hafa langar blaðagreinar verið ritaðar um hvað lesa megi úr henni. Kanslaraskrifstofan setti myndina á flot og má lesa pólitíska yfirlýsingu úr því einu: Merkel sé nóg boðið.

Larry Kudlow, helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 10. júní að forsetinn hefði neitað að hafa nafn sitt undir sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga G7-ríkjanna sem birt var laugardaginn 9. júní vegna „svika“ Justins Trudeaus, forsætisráðherra Kanada. Trudeau hefði vegið að forsetanum og reynt að veikja stöðu hans fyrir fund hans með Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, í Singapúr þriðjudaginn 12. júní.

Kudlow sagði að Trump hefði orðið að grípa til sinna ráða eftir að Trudeau sagði á blaðamannafundi að Kanadamenn mundu ekki láta Bandaríkjamenn ráðskast með sig í viðskiptum.

Trudeau „stakk okkur í bakið“ sagði Kudlow með því að láta þessi orð falla eftir að forsetinn hafði þegar skrifað undir sameiginlegu yfirlýsinguna og lagt af stað til sögulegs fundar síns með Kim Jong-un í Singapúr.

„Við gengum í góðri trú frá texta lokayfirlýsingarinnar,“ sagði Kudlow í CNN-þættinum State of the Union. „Menn haga sér einfaldlega ekki svona – er það? Þetta eru svik.“

Hann sagði einnig að Trump hefði „allan rétt – allan rétt – til að snúast gegn þessum klaufabrögum Trudeaus“.

Trump „lætur ekki kanadíska forsætisráðherrann tuska sig,“ sagði Kudlow og einnig: „Hann leyfir ekki að neitt veikleikamerki birtist á leið til viðræðna við [stjórnanda] Norður-Kóreu.“

Á laugardaginn sagði Trudeau að Kanadamenn mundu svara ákvörðunum Bandaríkjastjórnar um tolla á stál og ál. Trump frétti af ummælum hans um borð í forsetavélinni á leið til Singapúr og dró ekki að láta til sín heyra á Twitter.

„Með vísan til rangra yfirlýsinga Justins á blaðamannafundi hans og þeirrar staðreyndar að Kanada leggur þunga tolla á bandaríska bændur og fyrirtæki hef ég sagt bandarískum fulltrúum að standa ekki að yfirlýsingunni á sama tíma og við hugum að tollum á bíla sem flæða á Bandaríkjamarkað,“ sagði Trump.

Í annarri Twitter-færslu sagði hann að Trudeau væri „mjög óheiðarlegur og veikur“.

Frá skrifstofu Trudeaus barst varlega orðað svar við því sem forsetinn hafði sagt. „Við beinum athygli okkar að öllu sem náðist fram hér á leiðtogafundinum. Forsætisráðherrann sagði ekkert sem hann hefur ekki sagt áður – bæði opinberlega og í einkasamtölum við forsetann,“ sagði Cameron Ahmad, talsmaður Trudeaus.

Frá Emmanuel Macron Frakklandsforseta barst yfirlýsing þar sem sagði að ekki mætti láta reiðiköst ráða ferðinni í alþjóðasamstarfi eða tilfallandi ummæli. Dögum saman væri unnið að því að semja sameiginlegar yfirlýsingar og ákveða skuldbindingar. Fara yrði eftir þeim og þeir sem gerðu það ekki skorti samfellu og staðfestu. Menn ættu að sýna alvöru og sanna þjóðum sínum að þeir væru verðugir fulltrúar þeirra. Standa ætti við gefin loforð.

 

 

Taken by Jezco Denzel, a photographer working the German government and winner of a category award in this year’s prestigious World Press Photo award, the German picture shows Merkel dominant.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …