
Moon Jae-in, forseti S-Kóreu, efndi til óvænts fundar með Kim Jomg-un, einræðisherra í N-Kóreu, laugardaginn 26. maí við landamæri ríkjanna og ræddu þeir saman um hugsanlegan fund Kims með Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Moon og Kim ræddu saman í tvær klukkustundir í landamæraþorpinu Panmunjom. Fyrr í vikunni aflýsti Trump boðuðum fundi sínum með Kim í Singapúr 12. júní. Tilkynnti Trump afstöðu sína í bréfi til Kims en dró síðan í land aftur föstudaginn 25. maí. Sagði Trump þá að ef til vill yrði fundurinn haldinn.
S-Kóreumenn hafa haft milligöngu vegna fundar Trumps og Kims. S-kóresk sendinefnd sagði fyrst frá því eftir fund með Trump í Washington að hann vildi hitta Kim.
Kim og Moon hittust einnig á fundi 27. apríl.