Home / Fréttir / Óupplýst, dularfull höfuðveikindi bandarískra sendiráðsmanna á Kúbu

Óupplýst, dularfull höfuðveikindi bandarískra sendiráðsmanna á Kúbu

Bandaríska sendiráðsbyggingin í Havana.
Bandaríska sendiráðsbyggingin í Havana.

Margir bandarískir stjórnarerindrekar sem starfað hafa í sendiráði Bandaríkjanna í Havana á Kúbu glíma við varanlega heyrnarskerðingu og heilahristing segir í tilkynningu starfsmannafélags þeirra, American Foreign Service Association (AFSA), föstudaginn 1. september.

Sama dag og tilkynningin birtist sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að fjöldi þeirra starfsmanna á Kúbu sem glímdu við þennan vanda væri nú 19. Heather Nauert, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sagði að eitt nýtt tilvik hefði greinst í ágúst 2017.

Fyrstu fréttir um „hljóðvistar árásirnar“ eins og AFSA kallar vandamálið birtust nú í ágúst og þá sagði utanríkisráðuneytið að vandamálið væri úr sögunni. Það hefur hins vegar ekki reynst rétt.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar málið. Nauert segir nú að ekki sé unnt að útiloka að fleiri starfsmenn í Havana verði fyrir skaða vegna „árásanna“. Enn sé unnið að því að kanna líðan einstakra starfsmanna og fjölskyldna þeirra.

Þótt AFSA tali um „árásir“ notar bandaríska utanríkisráðuneytið ekki það orð um þessi tilvik. Þá hefur Bandaríkjastjórn ekki heldur sakað stjórnvöld á Kúbu um að standa að baki því sem gerst hefur.

Nýlega vísaði Bandaríkjastjórn þó tveimur kúbverskum stjórnarerindrekum úr landi með þeim rökum að hún vildi mótmæla að stjórnvöld á Kúbu veittu bandarískum sendiráðsmönnum ekki þá vernd sem þeim bæri samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband ríkja.

Veikindin sóttu á bandaríska sendiráðsfólkið á meðan það starfaði í Havana og bjó í húsum sem stjórn Kúbu hafði ráðstafað til þeirra. Sum tilvik voru svo alvarleg að fólk varð að hverfa frá Kúbu og leita sér lækninga í Bandaríkjunum.

Til þessa hafa takmarkaðar upplýsingar verið veittar um eðli veikindanna fyrir utan að um heyrnarskerðingu sé að ræða. Af hálfu AFSA hefur nú gefist kostur á að hitta eða ræða við 10 af þeim sem hafa veikst.

„Við greiningu koma í ljós mildir, þrúgandi heilaskaðar auk varanlegrar heyrnarskerðingar, einkennin eru meðal annars jafnvægisskortur, mígreni og heilabjúgur,“ segir í tilkynningu starfsmannafélagsins.

Fjölmiðlar segja að þessi tilkynning bendi til að tilvikin séu alvarlegri en áður var látið í veðri vaka. Enn er þó með öllu óljóst hvað er á seyði í Havana.

Ríkisstjórn Kúbu segir að málið sé sér óviðkomandi. Hún sendi frá sér tilkynningu í ágúst um að á Kúbu hefði það aldrei liðist að gert væri á hlut stjórnarerindreka sem væru löglega skráðir í landinu eða fjölskyldna þeirra. Stjórnin segist einnig vinna að rannsókn málsins með FBI.

Þessara tilvika fór að gæta meðal bandarískra sendiráðsmanna í Havana síðla árs 2016 og snemma árs 2017. Talið var líklegt að beitt væri einhvers konar leynilegu hljóðtæki gegn bandarísku starfsmönnunum en rannsakendur hafa ekki fundið neitt slíkt tæki. Bandaríska utanríkisráðuneytið segist ekki geta fullyrt neitt um hver standi að baki því sem þarna gerist.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …