Home / Fréttir / Ótvíræður meirihluti Dana vill í ESB-varnarsamstarf

Ótvíræður meirihluti Dana vill í ESB-varnarsamstarf

Mette Frederiksen forsætisráðherra og leiðtogi stjórnarandstöðunnnar, Jakob Ellemann-Jensen, formaður Venstre, fagna sameiginlegum sigri.

Danir gengu miðvikudaginn 1. júní til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fella ætti niður fyrirvara þeirra gagnvart aðild að varnarsamstarfi ESB-ríkjanna. Með yfirgnæfandi meirihluta, 66,9% ja gegn 33,1% nei, var samþykkt að falla frá fyrirvaranum.

Hér er leiðari Jyllands-Posten frá 2. júní um úrslitin:

„Sannfærandi meirihluti sagði já við því með atkvæði sínu að Danir axli ábyrgð og fái tækifæri til að hafa áhrif á varnar- og öryggismálastefnu Evrópu.

Þegar til kastanna kemur er ekki um neinn vafa að ræða. Danmörk er hluti kjarna Evrópu. Það er skýri boðskapurinn í skilaboðum ótvíræðs meirihluta kjósenda. Fyrir það ber að þakka.

Það þurftu að líða næstum 30 ár þar til tókst að þurrka út einn af fyrirvörunum sem hafa verið í gildi og skaðað á djúpan hátt samskipti Dana innan ESB. Vissulega má til lengdar láta eins og maður sé með í öllu: Krónan er bundin við evru, gerðir hafa verið samhliða samningar á sviði lögreglu- og réttarfarsmála og á sviði varnarmála hafa Danir að hluta ofgert til að sýna varnarvilja sinn. Raunverulegi skaðinn birtist á þann veg að fyrirvararnir eru eins og prisma þegar litið er til allra ESB-mála. Þegar rætt er um evrópska samstarfið er ekki sagt „við“ heldur „þeir“. Hikandi og í vafa.

Það væri oftúlkun á úrslitunum að að halda að þessi afstaða hefði breyst. Nú þakkar Danmörk fyrir að fá sent boð um inngöngu frekar en að standa varanlega utan við varnarsamstarfið. Ekki er um neitt fullveldisafsal að ræða og þjóðþingið ræður því alfarið hvenær Danir leggja sitt af mörkum til sameiginlegra ESB-aðgerða. Á hinn bóginn er ekki unnt að segja um aðrar undanþágur vegna ESB að þær séu „komnar heim“.

Þótt já-hliðin fagnaði forðuðust flokksleiðtogarnir að taka of mikið upp í sig og veifa ESB-flöggunum, þeir héldu sig við það sem máli skiptir: Að Danir hafa sent mikilvæg skilaboð bæði til vina sinna og fjandmanna. Við núverandi aðstæður það mjög mikilvægt. Mette Frederiksen [forsætisráðherra] sagði þetta skýrt: Þetta er stór sigur fyrir stöðu Danmerkur í Evrópu. Danir hafa sent skýr skilaboð til Evrópu og skýr skilaboð til Pútins.

Holger K. Nielsen, fyrrverandi formaður SF [Sósíalíska þjóðarflokksins], faðir fyrirvarans, staðfesti að það væri heimskulegt að hengja sig fastan við fortíðarskoðanir þegar veröldin breyttist. Stríð Rússa gegn Úkraínumönnum hefur skapað nýtt ástand í Evrópu. Það hefur áhrif á öryggi Danmerkur og hefur gjörbreytt leikreglunum. Nú fá Danir tækifæri til að hafa áhrif á evrópskar varnir, einnig innan ESB. Hjá nei-flokkunum þremur urðu kosningahátíðirnar stuttar, fyrir flokka sem lögðu sig í kosningabaráttunni fram um að ala á efasemdum um fulltrúalýðræðið og þjóðþingið er auðvitað ekki önnur útleið en að viðurkenna rödd fólksins. Enhedslisten [lengst til vinstri] varð meðal annars að viðurkenna að margir kjósenda flokksins hefðu sagt já.

Vopnahléð milli já-flokkanna brast strax kvöldið sem úrslitin birtust. Þingskosningarnar koma næst. Við uppgjörið vegna kosningabaráttunnar blasir við að einn tapaði mestu: nýr formaður Danska þjóðarflokksins, Morten Messerschmidt, sem fyrir utan að verða kyngja því að nei-hliðin tapaði varð einnig að lesa á Twitter að [forveri hans] Kristian Thulesen Dahl kæmi ekki á kosningahátíð flokksins. Það virðist ríkja næstum algjör upplausn í flokknum sem hefur hvað eftir annað hefur verið í sigurliðinu eftir atkvæðagreiðslur um ESB-fyrirvarana.

Kosningabaráttan varð Jakob Ellemann-Jensen, formanni Venstre, sú lyftistöng sem hann hefur lengi þarfnast. Mette Frederiksen getur glaðst yfir að hún er fyrsti forsætisráðherrann sem tekst að vinna sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-fyrirvara. Sigurræða hennar var lýsandi andstæða við útreiðina sem Poul Nyrup Rasmussen [forveri hennar og flokksbróðir] fékk árið 2000 þegar borið var undir þjóðina hvort hún vildi falla frá fyrirvaranum vegna evrunnar.

Tæpum 50 árum eftir að Danir greiddu í fyrsta skipti atkvæði um ESB, þá EB, er já-hlutfallið hærra en nokkru sinni í mörgum þjóðaratkvæðagreiðslum um ESB. Samstaða af þessu tagi sést sjaldan en hún skapast þegar staðið er frammi fyrir einhverju sem er stærra en maður sjálfur.“

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …