Home / Fréttir / Ótti við nýtt kalt stríð við Rússa

Ótti við nýtt kalt stríð við Rússa

Sergei Lacvrov, utanríkisráðherra Rússa, skar á tengslin við NATO mánudaginn 18. október 2021.

Hættuleg stefna í kalt stríð
er fyrirsögn leiðara Jyllands-Posten miðvikudaginn 22. október. Þar segir að líta beri alvarlegum augum á þróun samskipta Rússlands og NATO. Rússar hafi skorið á stjórnmálasambandið með því að loka skrifstofu sinni í NATO og reka jafnframt fulltrúa NATO frá Moskvu. Þetta ýti undir öryggisleysi á sama tíma og báðir aðilar æsi hvorn annan. Það gerist einkum á Eystrasalti og norðurslóðum (d. Arktis) þar sem orðið hafi atvik þar sem litlu mátti muna að upp úr syði. Rússneskar hersveitir æfi sig oftar en áður og Bandaríkjamenn hafi efnt til stórra flotaæfinga í Barentshafi.

Þá minnist blaðið á stóru rússnesku heræfinguna Zapad sem stofnað hafi verið til í nánu samstarfi við Hvít-Rússa rétt við landamæri NATO-landa.

Vegna þessarar þróunar hafi herfræðingar varað við því að til hins versta kynni að koma, það er að þeir sem hlut eiga að máli dragi rangar ályktanir af því sem gerist og líti á æfingu gagnaðilans sem raunverulega árás. Það hafi til dæmis munað litlu árið 1983 að það hitnaði í kolum kalda stríðsins þegar vafðist fyrir Sovétmönnum hvort NATO-æfingin Able Archer væri ekta eða blekking til að fela árás.

Blaðið segir að útiloka megi misskilning af þessu tagi með því að leggja rækt við hefðbundið stjórnmálasamband. Rússland og NATO hafi einmitt gripið til slíkra varúðarráðstafana með gagnkvæmum sendiskrifstofum.

Það sé þess vegna mjög alvarlegt skref sem Rússar hafi nú stigið. Enginn sem fylgist með orðum og gerðum Vladimirs Pútins geti leyft sér að dreyma um að aftur megi taka upp þráðinn frá 10. áratugnum, eftir fall múrsins og hrun Sovétríkjanna, þegar samskipti NATO og nýja Rússlands urðu hlýlegri, Í stað þess að leggja sig fram um friðsamlega samvinnu hafi Pútin markvisst valið þann kost að auka á spennuna. Hverfa megi aftur til innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014 til að finna hápunkt eða ef til vill réttara sagt lágpunkt í framgöngu Rússa. Þar telji Rússar að þeim hafi tekist vel að ná markmiði sínu og það hafi gefið Kremlverjum blod på tanden.

NATO hafi sýnt Rússum langlundargeð þar til ekki reyndist annað unnt en vísa átta Rússum í sendinefnd þeirra hjá NATO á dyr vegna gruns um njósnir þeirra allra.

Jyllands-Posten segir að allir sem átt hafi náin samskipti við Rússa viti að ekki dugi neitt annað en að tala hátt og skýrt við Kremlverja. Reynslan úr kalda stríðinu sýni einnig að nauðsynlegt er að menn ræði saman til að allt fari ekki af sporinu. Rússum sé þetta einnig ljóst án þess að þeir geri nokkuð til að bæta ástandið. Þeir geri í raun allt annað en það.

Blaðið telur að Danmörk sé í meira skjóli gagnvart Rússum nú en áður vegna stækkunar NATO í austur. Lærdómurinn sem draga megi af kalda stríðinu og aukin umsvif Rússa á norðurslóðum eigi hins vegar að hvetja Dani til að gæta sín á Rússum og því sem vaki fyrir Pútin.

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …