Home / Fréttir / Ótti við leiftursókn og langvinn átök í Úkraínu

Ótti við leiftursókn og langvinn átök í Úkraínu

Rússneskir fallhlífarhermenn bíða flutnings á bílpalli.

Bandarískir njósnarar fullyrða að Rússar hafi komið á birgðaflutningakerfi í þágu bardagasveita sinna umhverfis Úkraínu sem geri þeim kleift að heyja langvinnan hernað.

Þessar upplýsingar bætast við safn frétta sem reistar eru á því sem berst frá vestrænum njósnastofnunum um víðtækan stríðsviðbúnað Rússa við landamæri Úkraínu. Talið er að allt að 175.000 rússneskir hermenn séu við landamærin.

Bandarískir njósnarar segja að ef til vill láti rússneski herinn til skarar skríða í upphafi nýs árs. Hermennirnir ráða yfir háþróuðum og aflmiklum vopnum, njóta verndar úr lofti og frá herflota Rússa við strönd Úkraínu á Svarta hafi.

Nú er talið að herinn hafi búið þannig um sig að hann geti sótt fram hratt og nær fyrirvaralaust. Hluti viðbúnaðarins felst í uppsetningu sjúkraskýla og eldsneytisbirgðastöðva sem leyfa að minnsta kosti nokkurra vikna átök.

Sagt er að birgðum hermanna í fremstu línu sé þannig háttað að þeir geti barist í minnst sjö daga án stuðnings birgðasveita.

Demókratinn Mike Quigley, fulltrúadeildarþingmaður frá Illinois, sem á sæti í leyniþjónustunefnd deildarinnar, segir að Rússar ráði nú yfir herafla til leiftursóknar á þessum slóðum.

„Við vitum ekki hvort Pútin forseti hefur ákveðið að gera innrás. Við vitum að hann leggur áherslu á að ráða yfir styrk til að gera það með skömmum fyrirvara, taki hann af skarið. Við verðum að búa okkur undir allar sviðsmyndir,“ sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Lettlandi miðvikudaginn 1. desember.

Rússar segja af og frá að þeir ætli að hefja innrás en krefjast þess að ráðamenn Vesturlanda ábyrgist að Úkraína gangi ekki í NATO.

„Neiti NATO-menn áfram að ræða þetta viðfangsefni eða ábyrgðina eða boðskap Rússlandsforseta, Vladimirs Pútins, grípum við að sjálfsögðu til ráðstafana til að tryggja öryggi okkar, fullveldi okkar og óskertan landsyfirráðarétt,“ sagði Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fimmtudaginn 2. desember.

Breska ríkisútvarpið BBC segir Lavrov hafa varað við því að Evrópa kynni að standa frammi fyrir kaldri „martröð hernaðarátaka“.

Herfræðingar víða um lönd hafa undanfarnar vikur sagt álit sitt á herútkalli Rússa og hvernig eigi að líta það varðandi Úkraínu og hvert svar NATO eigi að verða.

„ Rússar haga sér nú þegar eins og þeim sé ógnað. Eftir að pólitísk ákvörðun er tekin verður það hlutverk rússnesku áróðursvélarinnar að telja fólki trú um að ráðamenn Rússlands hafi verið lítilsvirtir og þeim hafi verið nauðugur einn kostur að gera innrás þvert gegn vilja sínum. Dembt verður inn á samfélagsmiðla frásögnum um „árás Úkraínumanna“ og ef til vill einnig „voðaverk Úkraínumanna“. Rússar bíta á agnið en einnig nokkur fjöldi fólks utan Rússlands,“ segir öryggismálafræðingurinn Natalia Antonova á foreignpolicy.com.

Hún lýsir hernaðarlegri návist Rússa sem hættulegri.

„Rökin gegn hugsanlegri innrás eru einfaldlega að það sé ekki skynsamlegt að grípa til hennar og að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hljóti að gera sér grein fyrir hættunni af löngu og blóðugu stríði sem hugsanlega að kalli á þátttöku frá Vesturlöndum,“ segir í viðvörun Antonovu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að ekki komi til greina að ganga að kröfu Rússa sem snýr að hugsanlegri stækkun NATO.

Joe Biden og Vladimir Pútin eiga fjarfund í næstu viku. Þar kann að ráðast hvort spennufall verður við landamæri Úkraínu eða hvort ástandið þar versnar.

Heimild: ABC Nyheter

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …