Home / Fréttir / Ótti við að Rússar klippi á net-neðansjávarkapla

Ótti við að Rússar klippi á net-neðansjávarkapla

 

 

Rússneskur kafbátur af Akula-gerð.
Rússneskur kafbátur af Akula-gerð.

Rússneskir kafbátar og njósnaskip sýna áreitni í nágrenni við lífsnauðsynlega neðansjávarkapla sem flytja nær öll internet-samskipti. Veldur þetta ýmsum bandarískum her- og njósnaforingjum áhyggjum, að fyrir Rússum vaki að höggva á þessa kapla á tímum  spennu eða átaka, segir í The New York Times (NYT) mánudaginn 26. október.

Blaðið segir að þessar áhyggjur nú séu meiri og annars eðlis en sóttu á menn í kalda stríðinu þegar þeir óttuðust að Rússar mundu hlera kaplana – en áratugir eru liðnir frá því að bandarískir njósnarar fengu tæknibúnað til þess. Nú beinist óttinn að því að Rússar valdi skaða á köplunum einhvers staðar þar sem mjög erfitt sé að gera við þá.

NYT segir engin dæmi um að klippt hafi verið á kapla, Rússar láti þó sífellt meira að sér kveða í nágrenni þeirra víðs vegar um heiminn. Umræður meðal ráðamanna í Washington staðfesti hins vegar að þeir líti allt sem Rússar taki sér fyrir hendur grunsemdaraugum, minni það helst á viðhorfið í garð Sovétmanna á sínum tíma.

Farið er með upplýsingar um aukin flotaumsvif Rússa sem viðkvæmt trúnaðarmál innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins og bandarískra njósnastofnana. Þá láti embættismenn ekkert uppi um bandarískar gagnráðstafanir, hvorki eftirlit né viðbrögð sé skorið á kapla.

Blaðið hefur eftir heimildarmönnum að frá Norðursjó til Norðaustur-Kyrrahafs og jafnvel nærri strönd Bandaríkjanna láti rússneski flotinn meira að sér kveða en áður í nágrenni fjarskiptakapla.

Í september 2015 sigldi rússneska njósnaskipið Yantar, búið tveimur fjarstýrðum djúpsjávar kafbátum, hægt suður með austurströnd Bandaríkjanna á leið sinni til Kúbu – þar fer einn stórkapall á land skammt frá bandarísku flotastöðinni við Guantánamo-flóa. Fylgst var stöðugt með skipinu úr bandarískum njósnatunglum, skipum og flugvélum. Flotaforingjar segja að með því að beita fjarstýrðu kafbátunum geti áhöfnin á Yantar skorið á kapla á miklu dýpi.

NYT hefur eftir evrópskum embættismanni að umsvifin nú líkist því sem var í kalda stríðinu. Í einu NATO-ríki, Noregi, séu áhyggjur svo miklar að óskað hafi verið aðstoð nágranna til að fylgjast með rússneskum kafbátum.

Ef skorið yrði á helstu net-kaplana mundu heimsviðskipti stöðvast og 95% allra venjulegra, daglegra samskipta. Heimvarnarráðuneyti Bandaríkjanna telur landstöðvar kaplanna, einkum í nágrenni New York, Miami og Los Angeles, meðal þeirra mannvirkja sem mikilvægast sé að gæta.

Skoða einnig

Hælisleitendur peð Rússa gagnvart Finnum

Fréttamenn finnska ríkisútvarpsins, Yle, ræddu við þrjá hælisleitendur sem komu til Finnlands frá Rússlandi um …