
Í trúnaðarskýrslu sem unnin var á vegum NATO er dregið í efa að bandalagið geti varið aðildarríki sín gegn árás Rússa. Í NATO-löndum í austurhluta Evrópu ríkir ótti við að Rússar ráðist inn í löndin.
Vitnað er í skýrsluna í nýjasta hefti þýska vikuritsins Der Spiegel sem kom út laugardaginn 21. október. Skýrslan ber heitið: Áfangaskýrsla um eflingu fælingar- og varnarmáttar bandalagsins. Þar er dregið í efa að viðbragðsherafli NATO geti „svarað hratt og haldið út sé það nauðsynlegt“.
Í Der Spiegel er vitnað beint í trúnaðarskýrsluna þar sem segir:
„Geta NATO til að halda úti og styðja við hraðlið á enn stærra svæði á ábyrgð Evrópuherstjórnarinnar hefur rýrnað frá því að kalda stríðinu lauk.“
Bent er á að herstjórnir NATO hafi minnkað síðan kalda stríðinu lauk og erfitt sé með alla aðdrætti fyrir herafla á austur væng bandalagsins.
Öll samskipti NATO við Rússa hafa versnað eftir að rússneska stjórnin innlimaði Krím og hóf íhlutun í Úkraínu fyrri hluta árs 2014.
Bent er á að Pólverjar, Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðir telji Rússa ógna sér og þær hafi hvatt til þess að bandalagið efldi varnir á austur væng sínum.
Af hálfu NATO hefur verið hraðað skipulagi og uppbyggingu á 40.000 manna viðbragðs-herafla.
Þá hefur NATO sent fjögur 1000 manna herfylki til fjögurra landa: Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands til að sýna samheldni innan bandalagsins gegn ögrunum Rússa. Stjórnendur herfylkjanna koma frá: Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Þýskalandi.
Heimild: DW