Home / Fréttir / Óttast um líðan fyrrverandi forseta Georgíu

Óttast um líðan fyrrverandi forseta Georgíu

Myndin er tekin 1. febrúar 2023 og sýnir Mikheil Saakashvili, fyrrverandi forseta Georgíu, í  fangelsissjúkrahúsi.

Hópur pólskra lækna er tilbúinn til að halda til Georgíu og kynna sér líðan Mikheils Saakashvilis, fyrrverandi forseta landsins, segir í frétt Reuters frá Varsjá mánudaginn 13. mars. Óttast er að heilsu hans hraki ört.

Saakashvili, 55 ára, var sendur í sex ára fangavist árið 2021, dæmdur fyrir valdníðslu í forsetatíð sinni. Hann segist hafa hlotið pólitískan dóm.

Saakashvili hefur glímt við veikindi í fangavistinni þar sem hann hefur farið í hungurverkfall og telur að sér hafi verið byrlað eitur. Hann er nú undir læknishendi á sjúkrahúsi í Tbilisi, höfuðborg Georgíu.

Piotr Muller, talsmaður pólsku ríkisstjórnarinnar, var á blaðamannafundi 13. mars spurður hvort Pólverjar hefðu áform um að senda lækna til að líta á forsetann fyrrverandi. Talsmaðurinn sagðist geta staðfest að pólskur mannúðarhópur væri tilbúinn til að halda til Georgíu:

„Nú bíðum við eftir samþykki frá Georgíu … við vitum að miklar efasemdir eru í alþjóða samfélaginu um læknismeðferð vegna heilsufarsástands fyrrverandi forseta Georgíu og þess vegna erum við tilbúnir til að eyða öllum vafa á þennan hátt.“

Stuðningsmenn Saakashvilis segja að yfirvöld í Georgíu neiti að veita honum viðunandi læknismeðferð. Embættismenn Georgíustjórnar segja að hann mikli hve veikburða hann sé til að flýta fyrir því að hann verði látinn laus.

Pólsk stjórnvöld hafa áður lagt til við ríkisstjórn Georgíu að Saakashvili fái læknisaðstoð í Póllandi.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …