Home / Fréttir / Óttast að aðþrengdir erlendir vígamenn Daesh leiti skjóls utan Íraks og Sýrlands

Óttast að aðþrengdir erlendir vígamenn Daesh leiti skjóls utan Íraks og Sýrlands

 

 

Vígamenn Daesh
Vígamenn Daesh

Sótt er að liðsmönnum Daesh (Ríkis íslams) í Sýrlandi og Írak. Um leið og þrengt er að þeim vex ótti meðal vestrænna sérfræðinga við að vígamenn úr liðinu leiti til fyrri heimkynna sinna í Evrópu og búi sig undir að hefna harma sinna þar.

Sumir þessara manna koma frá norðurhluta Vestur-Evrópu, „Þegar þeir koma til baka og tengjast inn í raðir öfgamanna í Evrópu skapast mjög mikið spennuástand í þjóðaröryggismálum okkar,“ segir Dick Schoof, stjórnandi gagnhryðjuverka í Hollandi við The New York Times (NYT) sunnudaginn 18. september.

Síðustu stóru miðstöðvar Daesh eru Mósúl í Írak og Raqqa í Sýrlandi. Þær eru undir stöðugum árásum liðs undir forystu Bandaríkjamanna.

Vitað er að nokkrir vígamenn frá Írak og Sýrlandi hafa laumað sér til Evrópu með straumi flótta- og farandfólks síðan snemma árs 2014. Nú óttast vestrænir sérfræðingar að fjöldinn aukist þegar þrengt er að Daesh og kalífaríkið sem samtökin ætluðu að stofna hrynur.

Í stað þess að berjast fyrir tilvist þessa draumaríkis er talið að leiðtogar Daesh leggi nú áherslu á að myndaðar séu sellur í Evrópu þar sem komi saman vígamenn á flótta og öfgamenn úr hópi heimamanna sem hafa ánetjast kenningum um stríð gegn búsetu- og heimaríkjum sínum.

Þriðjudaginn 13. september handtók þýska lögreglan þrjá Sýrlendinga sem höfðu farið um Tyrkland og Grikkland en voru taldir tengjast félögum í Daesh sem unnu hryðjuverkin í París í nóvember.

Þýska öryggislögreglan fylgdist mánuðum saman með Sýrlendingunum eftir að þeir komu til Þýskalands um miðjan nóvember á fölskum vegabréfum sem voru gerð á sama stað og vegabréf árásarmannanna í París, sagði Thomas De Maiziére, innanríkisráðherra Þýskalands.

Hollendingurinn Schoof segir að vígamenn sem snúi aftur til Evrópu geti  tengst sellum á Bretlandi, Ítalíu, í Þýskalandi, Tyrklandi og öðrum löndum og farið huldu höfði þar til þeir geri árás. Hann telur að enn séu 180 Hollendingar í Írak og Sýrlandi af þeim 260 sem álitið er að hafi farið þangað til liðs við Daesh.

Bandarískir herforingjar segja að eftir tvo til þrjá mánuði muni verða sótt harkalega gegn þeim sem halda Raqqa og Mósúl. Þá standi erlendu vígamennirnir þar frammi fyrir erfiðu vali: að falla með kalífaríkinu eða koma sér á brott. Sumir þeirra sem fari muni leggja niður vopn aðrir halda stríðinu áfram á nýjum stöðum.

„Enginn vill verða síðasti maðurinn á vígvellinum þegar Kúrdar, Írakar eða Bandaríkjamenn koma,“ segir Peter Neumann, forstjóri International Center for the Study of Radicalization and Political Violence í King’s College London. Hann spáir því að margir vígamannanna muni fyrst halda til Tyrklands og ýta enn undir óstöðugleika þar, sumir muni snúa aftur til heimalanda sinna og enn aðrir leita uppi ný átakasvæði.

Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakka, sagðist fyrir skömmu óttast að vígamenn Daesh mundu leita skjóls í Egyptalandi eða Túnis eftir að verða hraktir úr bækistöð sinni í Surt í Líbíu.

Vestrænar njósnastofnanir segja að nú reyni aðeins fáeinir einstaklingar að komast frá Vesturlöndum til yfirráðasvæðis Daesh en áður fyrr hafi þeir verið allt að 2.000 á mánuði sem gengu til liðs við hryðjuverkasamtökin frá öðrum löndum.

Það er þó ekki aðeins óttinn við hrun kalífaríkisins sem heldur aftur af útlendingum heldur hafa stjórnendur Daesh hvatt þá sem vilja ganga til liðs við sig frá Evrópu eða Norður-Afríku til að halda sig heima og hefja baráttu gegn yfirvöldunum þar. Þeir geri málstaðnum meira gagn með árásum og sjálfsmorðssprengjum á heimavelli en með því að reyna að komast til Íraks eða Sýrlands.

Bandarískar njósnastofnanir telja að 42.000 vígamenn frá rúmlega 120 löndum – þar af 260 Bandaríkjamenn meðal 7.600 Vesturlandabúa ­– hafi farið eða reynt að fara til Sýrlands og Íraks síðan 2011.

Óljóst er hve margir erlendir vígamenn eru enn á átakasvæðunum, tölur frá 10.000 til 30.000 eru nefndar. Meðal sérfræðinga eru skiptar skoðanir um hve margir þessara manna ætli að fórna lífi sínu fyrir málstaðinn í Írak eða Sýrlandi, hve margir þeirra muni hverfa aftur í fjöldann á griðasvæðum Sunni-manna og hve margir muni snúa aftur til heimalanda sinna eða annarra fjarlægra landa og skapa hættu þar.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …