Home / Fréttir / Óstaðfestar grunsemdir um skemmdarverk á gasleiðslum

Óstaðfestar grunsemdir um skemmdarverk á gasleiðslum

Kortið sýnir hvar leiðslurnar voru sprengdar í september skammt frá Bornholm og Christiansø.

The New York Times (NYT) sagði þriðjudaginn 7. mars að bandarískir njósnarar teldu að stuðningshópur Úkraínu (e. pro-Ukrainian group) stæði að baki árásunum á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum í september 2022 þegar þrjú af fjórum rörum í leiðslunum voru sprengdar.

Úkraínustjórn hefur tvisvar mótmælt þessum fréttum og sagt að hún hafi ekki átt neinn hlut að skemmdarverkinu sem batt enda á flutning á gasi frá Rússlandi til Þýskalands. Áður en NYT birti frétt sína sögðu fjölmiðlar að Gazprom, rússneska fyrirtækið sem á leiðslurnar, ætlaði að „pakka leiðslunum inn“ enda benti ekkert til að þær yrðu notaðar í bráð eða jafnvel nokkru sinni.

„Þetta er ekki eitthvað sem við höfum gert,“ sagði Oleksíj Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, við fréttamenn í Stokkhólmi miðvikudaginn 8. mars, áður en hann fór á fund ESB-varnarmálaráðherra þar.

Mykhajlo Podoljak, ráðgjafi Úkraínu, mótmæli þriðjudaginn 7. mars öllum ásökunum um hlut stjórnvalda að skemmdarverkinu og þau hefðu enga vitneskju þennan stuðningshóp Úkraínu.

Í frétt NYT sagði að fyrir lægi vitneskja hjá bandarískum njósnurum um að „andstæðingar“ Vladimirs Pútins Rússlandsforseta stæðu að baki sprengingunni.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sat einnig varnarmálaráðherrafundinn í Stokkhólmi 8. mars. Hann bað menn að gæta þess að hrapa ekki að niðurstöðu. Allt sem nú hefði komið fram væri „getgátur“. Rannsókn málsins væri ekki lokið, bíða yrði niðurstöðu hennar áður en málið teldist upplýst.

Ríkissaksóknari Þýskalands gaf út yfirlýsingu um að leitað hafi verið að skipi milli 18. og 20. janúar 2023 „í tengslum við grunsamlegt leiguskip“ sem kynni að hafa verið notað til að flytja sprengiefni sem notað var gegn leiðslunum á botni Eystrasalts.

Í yfirlýsingunni sagði að enn væri unnið að því að skilgreina gerendur og tilgang þeirra og ekki unnt að „fullyrða“ neitt hvort um einhverja opinbera aðild hafi verið að ræða.

Danskur sérfræðingur, Johannes Riber sjóliðsforingi, segir við danska ríkisútvarpið, DR, 8. mars að skemmdarverkið á leiðslunum hafi ekki verið unnt að vinna frá skipinu sem Þjóðverjar tóku til rannsóknir í janúar. Skip með nokkurra manna áhöfn hafi ekki getað valdið þessu tjóni.

Þýska blaðið Die Zeit segir að um borð í skipinu hafi verið skipstjóri, tveir kafarar, tveir aðstoðarmenn kafara og læknir.

Johannes Riber segir tvær meginástæður ráða því að skipið hafi ekki verið notað til að eyðileggja leiðslunnar. (1) Mikið magn af sprengiefni, nokkur hundruð kíló af TNT, hafi þurft að setja á hafsbotn til að valda tjóninu. Án sérstaks tækjabúnaðar verði það ekki gert. (2) Dýpið þar sem skemmdarverkið var unnið er 60 til 70 m og þess vegna síður en svo auðvelt að vinna það.

Danski sjóliðsforinginn telur líklegra að kafbátur hafi verið notaður við verkið. Honum hafi verið siglt að gasleiðslunum, tímasprengjum hafi verið komið fyrir við eða á leiðslunum. Þær hafi sprungið eftir að kafbáturinn hafði siglt á brott.

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …