
Öryggissamvinnustofnun Evrópu (ÖSE) varar við vaxandi spennu og hættu á átökum í austurhluta Úkraínu. Eftirlitsmenn stofnunarinnar hafa séð fjölgun þungavopna eins og skriðdreka og stórskotavopna við landamæra Úkraínu og Rússlands. Alexander Hug, varaformaður eftirlitsnefndar ÖSE í hafnarborginni Mariupol, segir að deiluaðilar hafi ekki virt ákvæði Minsk-samkomulagsins frá febrúar 2015 um brottflutning vopna.
Hug segir að ástandið hafi greinilega versnað á einni viku. Hann hefur krafist þess af yfirmönnum hers Úkraínu og foringjum aðskilnaðarsinna að þeir hverfi á brott með vopn sín.
Í Frankfurter Allgemeine Zeitung segir mánudaginn 6. júlí að þýski herinn, Bundeswehr, muni taka þátt í tveimur æfingum í Úkraínu yfir sumarmánuðina. Annars vegar tekur landherinn þátt í æfingu og hins vegar flotinn. Þetta er annað sumarið sem þýski herinn æfir í samvinnu við her Úkraínu. Sunmarið 2014 mótmæltu Rússar komu þýska hersins til Úkraínu.
Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, segir að stjórn sín muni ekki láta neitt land af hendi til aðskilnaðarsinna. „Við viljum frið, við greiðum þó ekki hvaða verð sem er í þágu friðar,“ sagði forsetinn.