
Tveir fyrrverandi sendiherrar Bandaríkjanna í Rússlandi eru ósammála í mati sínu á samskiptum rússneskra og bandarískra stjórnvalda í fortíð og framtíð og hvor aðili beri meiri skylda til að dýpka tvíhliða samskiptin.
Michael McFaul og Jack Matlock sátu fyrir svörum í utanríkismálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þriðjudaginn 14. júní þar sem hörð ummæli forystumanna nefndarinnar endurspegluðu vaxandi andúð í garð ríkisstjórnar Rússlands meðal margra bandarískra forystumanna.
McFaul, gegndi sendiherraembætti í Moskvu frá 2012 til 2014 en Matlock frá 1987 til 1991. Báðir voru sammála um að stjórnmálaþróunin innan Rússlands réði mestu um utanríkisstefnu Kremlverja undanfarin ár.
„Þetta snýst allt um framvindu stjórnmála innan Rússlands og í Úkraínu en mjög lítið um bandaríska utanríkisstefnu, hvort sem hún er sterk eða veik,“ sagði McFaul.
„Þetta er sorglegur tími í samskiptunum við Rússa,“ bætti hann við. „Ég fagna þessu alls ekki en við verðum að fylgja þolinmóðri, alhliða stefnu til að fæla Rússa frá árás, vinna með stjórnvöldum þegar það þjónar hagsmunum okkar og vinna með rússnesku samfélagi.“
Matlock varaði hins vegar við bandarískri stefnu sem kynni að verða túlkuð sem afskipti af innri málefnum Rússa, oftar en einu sinni hefði Vladimír Pútin Rússlandsforseti kvartað undan slíkum afskiptum. „Jú, Pútin forseti hefur gert mörg mistök, mörg sem þjóna ekki hagsmunum Rússa. Rússar verða hins vegar að taka af skarið varðandi ríkisstjórn Pútins. Þeir verða að takast á við hneykslismál hennar,“ sagði Matlock.
Sendiherrarnir fyrrverandi voru ósammála þegar þingmenn spurðu þá um hvort Vesturlönd hefðu ögrað Rússum með því að stækka NATO með aðild Póllands og Eystrasaltsríkjanna eða hvort bandalagið ætti að milda skuldbindingar gagnvart bandalagsríkjunum.
Matlock sagðist ekki hafa stutt stækkun NATO á meðan hann var sendiherra í Moskvu og taldi að NATO væri stundum Bandaríkjunum frekar til vandræða. Hann nefndi einnig sérstaklega Tyrkland og sagði ekki viss um ágæti NATO-aðildar þess.
„Stjórnmál mótast af því hvernig men skynja hluti og skynjun þeirra er að við höfum markvisst unnið gegn hagsmunum þeirra, reynum að umkringja þá, og reynum meira að segja að hlutast til um innri málefni þeirra.“
McFaul starfaði fyrir öryggisráð Bandaríkjaforseta áður en hann varð sendiherra í Moskvu. Hann sagði bandalagið yrði að sýna festu, veiklyndi mundi aðeins ýta undir frekari yfirgang Rússa.
Hann hafnaði fullyrðingum um að hernaðarleg innlimun Kremlverja á Krímskaga frá Úkraínu væri beint svar við stækkun NATO.
„Það eru allt eftir-á-skýringar til að réttlæta það sem Pútin gerði í Úkraínu,“ sagði McFaul. Hann sagðist hafna öllum afsökunum sem væru reistar á slíkum samanburði. „Að þetta sé á einhvern hátt okkur að kenna að Bandaríkjamenn beri ábyrgðina.“
McFaul sagði að ætti hann að nefna „10 helstu boðorðin að baki því að vera góður alþjóðasinni, góður alþjóðlegur borgari“ yrði þetta eitt af þremur fyrstu boðorðunum: „Þú skalt ekki innlima land nágranna þíns.“
„Það var því miður þetta sem [Pútin] gerði,“ sagði hann. „Við innlimuðum ekkert landsvæði. Við ýttum ekki undir neina byltingu gegn honum.“
Matlock og McFaul sögðu báðir nefndarmönnum að Bandaríkjastjórn yrði áfram að aðstoða Úkraínumenn við að koma á stöðugleika og bæta efnahag sinn. Matlock lagði auk þess áherslu á að til að Úkraína blómstraði yrðu tengsl hennar við Rússland að vera góð. Hann taldi einnig að þegar fram liðu stundir yrðu ríkisstjórnir Vesturlanda að sætta sig við að Rússar hefðu innlimað skagann við Svartahaf.
„Úkraínu vegnar betur án Krím,“ sagði Matlock.
Heimild: Rfe/rl