Home / Fréttir / Öryggisstofnun Tékklands varar við hættunni af ágengni Rússa í tékknesku efnahags- og stjórnmálalífi

Öryggisstofnun Tékklands varar við hættunni af ágengni Rússa í tékknesku efnahags- og stjórnmálalífi

Milos Zeman, forseti Tékklands.
Milos Zeman, forseti Tékklands.

Öryggisstofnun Tékklands (BIS) hefur nýlega birt ársskýrslu sína fyrir 2015. Þar er lagt mat á hættuna af hryðjuverkum og öðrum ógnum en einnig birt betri lýsing en áður á gagnnjósnastarfsemi stofnunarinnar. Þar segir: „Kínverskar og rússneskar njósnastofnanir létu mest að sér kveða í Tékklandi.“ Hefur þetta áður verið sagt í ársskýrslum BIS.

Jakub Janda, varaforstjóri tékknesku hugveitunnar Evrópsk gildi þar sem hann fylgist einnig með starfi ráðamanna í Kreml, skrifar grein um nýja ársskýrslu BIS, á vefsíðuna EUobserver föstudaginn 2. september.

Janda minnir á að Milos Zeman, forseti Tékklands, sé talsmaður þess að Kínverjar láti að sér kveða í tékknesku efnahagslífi. Það fylgi hins vegar böggull skammrifi. Í skýrslu BIS segir: „Kínverskir stjórnarerindrekar, njósnarar og fésýslumenn leituðust við að fylgja fram árangrinum sem þeir náðu á árinu 2014 … [og] lögðu sig fram um að auka og viðhalda kínverskum áhrifum í tékknesku stjórnmála- og efnahagslífi.“

Rússar eru þó fyrirferðarmestir: „Rússneskar njósnastofnanir voru virkastar af erlendum njósnastofnunum í Tékklandi [árið 2015],“ segir í skýrslu BIS.

Þar er vakin athygli á fjölda starfsmanna í rússneska sendiráðinu í Prag, þeir séu 140 en 70 í bandaríska sendiráðinu og 30 í því kínverska. Segir BIS að margir rússneskir njósnarar hafi notað sem yfirvarp að þeir væru sendiráðsstarfsmenn. Segir BIS að með slíkum feluleik sé öryggi Tékklands ógnað auk annarra hagsmuna landsmanna.

Janda segir að sami vandi í samskiptum við Rússa þekkist annars staðar innan ESB. Säpo, sænska öryggislögreglan, telji til dæmis að um þriðjungur af 35 manna starfsliði rússneskra sendiráðsins í Stokkhólmi séu njósnarar.

Í BIS-skýrslunni er gengið lengra nú en áður til að varpa ljósi á markmið rússneskra stjórnvalda í Tékklandi. Þar segir að á árinu 2015 hafi Rússar lagt áherslu á „upplýsingastarf“ með sex markmið:

Í fyrsta lagi að „draga úr styrk tékkneskra fjölmiðla“. Leynileg áhrif innan tékkneskra fjölmiðla og netmiðla, mikil miðlun rússnesks áróðurs og rangfærslna undir stjórn ríkisins.

Í öðru lagi að „styrkja viðnámsþrótt Rússa gegn upplýsingum frá öðrum (tilbúnar rangfærslur frá tékkneskum miðlum fyrir Rússa).

Í þriðja lagi að hafa mótandi áhrif á skoðanir og hugmyndir Tékka, veikja innri þrótt samfélagsins. Ýta undir skoðun sem felst í orðunum „það ljúga allir“.

Í fjórða lagi að skapa innri samfélagslega og stjórnmálalega spennu í Tékklandi með því að koma á fót fjarstýrðum samtökum og styðja opinberlega við lýðskrumara og öfgahópa.

Í fimmta lagi að grafa undan samstöðu í NATO og innan ESB, reyna að spilla tengslum milli Tékka og Pólverja, flytja lygafréttir um Bandaríkin og NATO, skapa ótta við stríð við Rússa.

Í sjötta lagi að sverta orðspor Úkraínumanna og einangra þá á alþjóðavettvangi. Fá Tékka og samtök þeirra undir leynilegri stjórn Rússa til að standa að aðgerðum innan Úkraínu eða gegn Úkraínu.

BIS segir að Rússar hafi nú náð fótfestu innan Tékklands með samtökum sem styðji aðgerðir þeirra í Úkraínu og Sýrlandi. Á þennan hátt ógni Rússar Tékklandi, ESB og NATO og beita megi þessum „innviðum“ til „grafa undan eða hafa ill áhrif í tékknesku samfélagi eða stjórnmálalífi hvenær sem Rússum þóknast það“.

Janda segir að draga megi þrjár meginályktanir af þessari ársskýrslu BIS:

Að vilji sé til að vekja meiri athygli á erlendum undirróðri en áður. Að hluta vegna þess að hann sé meiri en áður en einnig vegna þess að nýr forstjóri hafi nýlega hafið störf í BIS. Hann hafi áður stjórnað gagnnjósnadeildinni og unnið hjá stofnuninni síðan í upphafi tíunda áratugarins. Hann gangi þó ekki eins langt og starfsbræður hans í Eystrasaltslöndunum sem nafngreini meira að segja þá sem þeir telja að skapi hættu.

Janda segir þetta fagnaðarefni þar sem 25% Tékka treysti ekki lengur stjórn landsins eða sjálfstæðum fjölmiðlum og að Rússar hafi hreiðrað vel um sig í forsetakrifstofu landsins.

Þá beri skýrslan með sér vilja til að þrýsta á tékknesk stjórnvöld svo að þau grípi til gagnráðstafana gegn ágengni Rússa.

Loks beri skýrslan með sér að þar sé aðeins gefið sýnishorn af því sem síðar megi vænta af Rússum.

Gengið verði til forsetakosninga í janúar árið 2018. Zeman, trjóuhestur Kremlar, ætli að bjóða sig fram að nýju. Hann njóti vinsælda og geti þjónað hagsmunum Rússa í miðhluta Evrópu.

Ætla megi að Kremlverjar muni nota aðstöðu sína í Tékklandi til að beita öllum ráðum til að tryggja bandamanni sínum áfram forsetaembættið.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …