Home / Fréttir / Öryggisráðstefnan í München: Pence segir stuðninginn við NATO „óhagganlegan“ – Evrópumenn tala um „evrópsku leiðina“

Öryggisráðstefnan í München: Pence segir stuðninginn við NATO „óhagganlegan“ – Evrópumenn tala um „evrópsku leiðina“

 

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, flutti ræðu á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 18. febrúar og sagði Bandaríkjamenn „óhagganlega“ í stuðningi sínum við NATO.

Þetta var fyrsta meiriháttar ræða varaforsetans um utanríkismál frá því að Donald Trump forseti og stjórn hans komu til valda. Hann sagði Bandaríkjamenn standa með Evrópumönnum „í dag og dag hvern“.

Hann minnti þó að ýmis Evrópuríki létu undir höfuð leggjast að „greiða sanngjarna hlutdeild sína“ af kostnaði við varnarmál. Með því væri „grafið undan stoðum bandalags okkar“ sagði hann.

Varaforsetinn vakti máls á því sama og aðrir talsmenn Bandaríkjastjórnar að fyrir utan Bandaríkjamenn stæðu aðeins fjórar NATO-þjóðir við skuldbindinguna um að greiða að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála.

„Það er tímabært að gera betur,“ sagði hann.

Í ræðu sinni sagði Pence að Bandaríkjamenn mundu enn halda Rússum við efnið varðandi Úkraínu þótt þeir héldu áfram að leita að samstarfsgrundvelli við þá sem Trump teldi vera unnt. Rússar yrðu að virða Minsk-friðarsamkomulagið frá 2015 um vopnahlé í Úkraínu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, flutti ræðu á ráðstefnunni. Hann hafnaði fullyrðingum um að Rússar græfu undan friði og sakaði NATO um að vera „fast“ í kaldastríðs-hugsunarhætti.

Lavrov neitaði einnig ásökunum um að Rússar hefðu blandað sér í bandarísku kosningarnar. Hann sagði ekki „sjá neinar staðreyndir“ sem bentu til þess að rússneskir tölvuþrjótar hefðu verið að verki.

Lavrov vísaði til þess í ræðu sinni að skipuleggjendur ráðstefnunnar í München höfðu í skýrslu vegna hennar um stöðu heimsmála spurt hvort runnið væri upp post-west skeið í alþjóðastjórnmálum. Hann sagði menn geta kallað það sem þeir vildu þegar hvert ríki fyrir sig reyndi í krafti eigin fullveldis og í samræmi við alþjóðalög að leita að jafnvægi milli eigin þjóðarhagsmuna og hagsmuna samstarfsaðila sinna.

Ríkisstjórn Rússlands vildi koma á sambandi við Bandaríkjastjórn sem mótaðist af raunsæi, gagnkvæmri virðingu og viðurkenningu á ábyrgð beggja ríkja á stöðugleika í heiminum.

 

Angela Merkel Þýskalandskanslari talaði næst á undan Mike Pence. Hún hvatti til aukins samstarfs milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins vegna ágengni Rússa og íslamskra hryðjuverka.

Merkel sagði að bandalagsríkin við Atlantshaf stæðu nú frammi fyrir spurningunni um það hvort „við getum starfað saman eða látum stjórnast af þröngsýni eins og áður fyrr“. Fréttaskýrandi BBC segir að í þessu felist mildileg en skýr sneið til Trumps vegna stefnu hans um „Bandaríkin í fyrsta sæti“.

Þegar Merkel var spurð beint að því hvað henni þætti um árásir Trumps og talsmanna hans á fjölmiðla áréttaði Merkel að frelsi fjölmiðla væri ein af grunnstoðum lýðræðis.

Fréttaskýrandi þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle (DW) í München sagði að samhliða því sem fulltrúar Bandaríkjanna áréttuðu hollustu sína við Atlantshafssamstarfið kysu Evrópumenn að beina athygli að „evrópsku leiðinni“ í öryggismálum frekar en ræða fjárhagslega hlið varnarmála.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tók undir sjónarmið Bandaríkjamanna með því að segja að Evrópumenn gætu ekki krafist meiri framlaga af Bandaríkjamönnum til varna Evrópu væru þeir ekki sjálfir til þess búnir að leggja sitt af mörkum. „Kynslóð eftirstríðsáranna stóð við sitt, við verðum einnig að gera það,“ sagði Stoltenberg.

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að þýska ríkisstjórnin yrði að auka útgjöld sín til hermála um 25 milljarða evra til að ná 2% markinu sem NATO-ríkin samþykktu árið 2014. Þá sagði Gabriel:

„Þjóðverjar verja um 30 til 40 milljörðum evra til stuðnings flóttamönnum vegna hernaðar sem fór illa fyrir mörgum árum. Líta ber á þetta sem framlag til stöðugleika.“

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði að vissulega væru útgjöld til varnarmála lykilþáttur í öryggi ESB-ríkjanna en þó ekki sá eini. Fjárfesting í menntun, störfum og góðum stjórnarháttum væri einnig fjárfesting í öryggi ríkjanna. Það væri mikilvægt að nýta opinbert fé til að hafa áhrif á lífskjör almennings. „Það er evrópska leiðin,“ sagði hún.

Formaður hermálanefndar NATO, Petr Pavel hershöfðingi, sagði DW laugardaginn 18. febrúar að „hryðjuverk“ væru stærsta ógnin við öryggi bandalagsríkjanna.

„Þegar litið er til ytra umhverfis eru hryðjuverk helsta ógnin við NATO. Við verðum að snúast gegn hryðjuverkum á öflugri hátt,“ sagði Pavel við DW.

„Þetta snýst ekki aðeins um þann þátt sem snýr að því að eyðileggja bardagahópa innan hryðjuverkasamtaka heldur snýst þetta einnig um hryðjuverk í stærri mynd, jarðveginn og skilyrðin sem verða til þess að hryðjuverkum fjölgar og öfgahyggja vex,“ sagði Pavel.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …