Home / Fréttir / Öryggisráðið veitir heimild til að beita öllum nauðsynlegum úrræðum gegn RÍ

Öryggisráðið veitir heimild til að beita öllum nauðsynlegum úrræðum gegn RÍ

Atkvæðagreiðsla í öryggisráði SÞ.
Atkvæðagreiðsla í öryggisráði SÞ.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna (SÞ) samþykkti einum rómi að kvöldi föstudags 20. nóvember, réttri viku eftir hryðjuverkaárásina í París, tillögu Frakka um  að ríki heims hefðu heimild til að „beita öllum nauðsynlegum úrræðum“ til að vinna sigur á Ríki íslams (RÍ).

Formlega veitir ályktunin (nr. 2249) ekki heimild til þess að beita hervaldi þar sem hún er ekki felld undir VII. kafla sáttmála SÞ um beitingu hervalds. Franskir diplómatar segja hins vegar að orðalagið sé þess eðlis að það megi túlka á víðtækan hátt þegar litið sé til „allra nauðsynlegra úrræða“.

Rússar studdu tillöguna með beinu samþykki Vladmírs Pútíns forseta. Þetta er veruleg breyting á afstöðu Rússa sem hafa í fjögur ár staðið gegn nær öllum tillögum varðandi Sýrland í öryggisráðinu. Rússneski sendiherrann lét þess hins vegar getið í ræðu sinni að „áður en langt um liði“ mundu Rússar flytja eigin tillögu sem tryggir Bachar al-Assad Sýrlandsforseta aðild að hinum hernaðarlega samstarfshópi gegn RÍ.

Í ályktuninni er RÍ skilgreint sem „einstæð ógn við heimsfrið og alþjóðaöryggi“. Með tillögunni vildu Frakkar herða afdráttarlaust á baráttunni gegn hryðjuverkum með því að skapa „lagalegan og stjórnmálalegan grundvöll fyrir alþjóðlegar aðgerðir til að uppræta Daesh [eins og arabar kalla RÍ] í Sýrlandi og Írak,“ sagði François Delattre, sendiherra Frakka, hjá SÞ. „Þetta er mjög harður texti frá ríki sem varð nýlega fyrir hryðjuverkaárás.“

Eftir að ályktunin hafði verið samþykkt sagði David Cameron, forsætisráðherra Breta, sem vill fá heimild breska þingsins til að senda breskar orrustuvélar til sprengjuárása í Sýrlandi, að texti hennar sýndi alþjóðlegan vilja til sóknar í Sýrlandi og markvissra aðgerða til að uppræta RÍ. Talið er að fleiri ríki sláist nú í hóp þeirra sem ráðast á RÍ í Sýrlandi þar sem þau túlki ályktunina á þann veg að hún veiti svigrúm til þess.

Sérfræðingar SÞ segja að í ályktuninni sé vísað til sáttmála SÞ um virðingu fyrir fullveldi ríkja og það hafi dugað Rússum til að styðja hana, í henni felist ekki að vegið sé að yfirráðum Sýrlandsforseta. Hinn 19. nóvember fluttu Rússar tillögu í öryggisráðinu þar sem lagt er til að Bachar al-Assad Sýrlandsforseti verði viðurkenndur sem aðili að samstarfshópi ríkja um að uppræta RÍ. Vilja Rússar að tillagan komi sem fyrst til afgreiðslu. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands hafna þessari ósk Rússa. Þær vilja að Sýrlandsforseti stigi strax til hliðar.

Frakkar segja að rætt sé um pólitísku stöðuna í Sýrlandi á sérstökum fundum í Vínarborg og tillögu þeirra hafi ekki verið ætlað að grípa fram fyrir hendur manna þar.

Heimild: Le Monde

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …