Home / Fréttir / Öryggismál þvælast fyrir breska Verkamannaflokknum vegna Corbyns

Öryggismál þvælast fyrir breska Verkamannaflokknum vegna Corbyns

 

Andrew Gwynne, formaður kjörtstjórnar breska Verkamannaflokksins.
Andrew Gwynne, formaður kjörtstjórnar breska Verkamannaflokksins.

Innan Verkamannaflokksins í Bretlandi hafa menn löngum deilt um gildi Trident-kjarnorkuflauga Breta og kafbátanna sem flytja þær. Nú deila ráðamenn flokksins einnig um hvort þeir mundu heimila dróna-árás til að fella leiðtoga Daesh (Ríkis íslams).

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, gaf til kynna í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 23. apríl að hann yrði tregur til að heimila árás á Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Daesh.

Andrew Gwynne sem situr í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins og stjórnar nýskipaðri kosningastjórn hans sagði mánudaginn 24. apríl að hann mundi gefa fyrirmæli um að drepa hryðjuverkaforingjann þyrfti hann að taka ákvörðun um það.

Corbyn sagði: „Ég tel að það yrði til gagns ef leiðtogi Isils [Ríkis íslams] væri ekki á ferðinni og ég styð hvorki né ver Isil á nokkurn hátt, ég bendi hins vegar einnig á að sprengjuárásirnar hafa orðið mörgum almennum borgurum að bana, mörgum sem voru í raun fangar Isil, menn verða að hugsa um þetta.“

Gwynne, formaður kjörtstjórnar, sagði í sjónvarpsviðtali þegar hann var spurður hvort hann mundi persónulega drepa leiðtoga Isil:

„Já, já. Verkmannaflokkurinn mun aldrei setja vörn ríkisins aftast í röðina. Jeremy [Corbyn] mun sem forsætisráðherra taka varnir ríkisins fram yfir allt annað. Sérhver leiðtogi eða forsætisráðherra Verkamannaflokksins mun gera það.“

Gwynne var einnig spurður um þá skoðun Corbyns að Verkamannaflokkurinn mundi endurskoða áætlunina um endurnýju Trident-kjarnorkuflauganna. Hann svaraði:

„Verkamannaflokkurinn er fylgjandi fjölþjóðlegri kjarnorkuafvopnum. Í því felst að setjast niður með öðrum sem eru að þróa kjarnorkuvopn.“

Þá var Gwynne bent á að Corbyn vildi einhliða afvopnun. Hann endurtók þá: „Verkamannaflokkurinn styður fjölþjóðlegar viðræður og í því felst að setjast niður með öðrum sem eiga kjarnorkuvopn, klípa af þeim og koma í veg fyrir að öðrum þjóðum takist nokkru sinni að eignast kjarnorkuvopn.“

Corbyn hefur sagt að hann mundi aldrei heimila beitingu kjarnorkuvopna en Gwynne fullyrti að vopnin hefðu áfram fælingarmátt. Hann sagði:

„Ég tel að menn eigi þau sem fælingarvopn af því að enginn vill verða settur í þá stöðu að þurfa að gera fyrstu árás [með þeim]. Enginn vill lenda í þeirri stöðu að þurfa að þrýsta á rauða hnappinn.“

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …