Home / Fréttir / Öryggismál ber hátt á fundi utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna

Öryggismál ber hátt á fundi utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna

 

Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo í bandaríska utanríkisráðuneytinu 7. janúar 2019.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo í bandaríska utanríkisráðuneytinu 7. janúar 2019.

Utanríkisráðuneytið sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu síðla dags mánudaginn 7. janúar 2019:

„Ýmis tvíhliða málefni á borð við viðskipti, fríverslun, öryggis- og varnarmál og norðurslóðamál voru til umræðu á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington í dag. Ráðherrarnir samþykktu í lok fundar sameiginlega yfirlýsingu [sjá hér fyrir neðan] um samstarf ríkjanna.

Fundurinn í Washington í dag er fyrsti tvíhliða fundur ráðherranna frá því Pompeo tók við embætti í fyrrasumar. Viðskipti og varnar- og öryggismál voru í brennidepli á fundinum en auk þess ræddu þeir Guðlaugur Þór og Pompeo málefni norðurslóða og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

„Samband Íslands og Bandaríkjanna hefur alla tíð verið náið, meðal annars á sviði varnar- og öryggismála. Samstarf ríkjanna á því sviði stendur á traustum grunni varnarsamningsins og Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin eru auk þess stærsti einstaki markaður Íslands, bæði þegar horft er til vöru- og þjónustuviðskipta og beinna fjárfestinga á Íslandi, svo ekki sé minnst á þann mikla fjölda bandarískra ferðamanna sem heimsækir Ísland ár hvert,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fundinum loknum. „Þá deilum við hagsmunum á norðurslóðum og horfum til aukins samstarfs í Norðurskautsráðinu þegar Ísland tekur þar við formennsku í maí. Góð samskipti við okkar góðu granna í vestri eru því afar mikilvæg. Vilji Bandaríkjastjórnar til að efla samvinnuna við okkur enn frekar kom glögglega í ljós á fundinum í dag.”

Í lok fundar samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu sem tekur til aukins samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, sérstaklega í ljósi breyttra aðstæðna á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Þá er undirstrikað í yfirlýsingunni að ríkin ætli að kanna leiðir til að bæta aðstæður fyrir viðskipti og fjárfestingar sem og samvinnu á vettvangi Norðurskautsráðsins.“


Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna

Washington 7. janúar 2019.

 

Áratugum saman hefur verið mjög náið samband milli Bandaríkjanna og Íslands þar á meðal í öryggis- og varnarmálum, norðurslóðamálum, viðskiptum, fjárfestingum, menningu, menntun og almennum samskiptum fólks. Þetta hefur stuðlað að stöðugleika og velsæld á Norður-Atlantshafssvæðinu.

Breytingar á strategísku umhverfi á Norður-Atlantshafi og á Norðurskautssvæðinu staðfesta enn mikilvægi langvarandi samstarfs Bandaríkjanna og Íslands í öryggismálum. Með vísan til þessa munum við efla samráð okkar og samvinnu innan NATO og við framkvæmd tvíhliða varnarsamningsins.

Bandaríkin eru orðin stærsta tvíhliða viðskiptaríki Íslands og bandarískir ferðamenn eru stærsti einstaki hópur gesta á Íslandi. Engu að síður eru enn fyrir hendi viðskiptakostir í verslunarsamskiptum okkar og Bandaríkin og Ísland munu kanna tækifæri til að bæta aðstæður fyrir tvíhliða viðskipti og fjárfestingu.

Ísland tekur innan skamms við formennsku í Norðurskautsráðinu og mun vinna náið með Bandaríkjunum og öðrum aðildarríkjum að efla samvinnu á svæðinu.

 

(Þýðing yfirlýsingar: vardberg.is)

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …