Home / Fréttir / Öryggisæfingin Norðuráskorunin

Öryggisæfingin Norðuráskorunin

Laqndhelgisgæslan birti þessa mynd frá sprengjueyðingaræfingu sinni.
Landhelgisgæslan birti þessa mynd frá sprengjueyðingaræfingu sinni.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Við Íslendingar erum og viljum vera herlaus þjóð.  Í ótraustri veröld mætti halda að þetta myndi stuðla að óöryggi meðal landsmanna.  Svo er hins vegar ekki.  Við vitum nefnilega sem er að litlar líkur eru á því að á okkur verði ráðist.  Kemur það til af því að við erum hluti af Atlantshafsbandalaginu (NATO).  Í varnarbandalaginu eru 28 önnur öflug ríki sem halda hlífiskildi yfir okkur.  Íslendingum er því óhætt að eyða tíma, fjármunum og mannauði í friðsamlega uppbyggingu landsins og hefur það fleytt okkur vel áfram.

Því er ekki óeðlilegt að við leggjum okkar af mörkum til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsríkjanna með einhverjum hætti.  Brottför varnarliðsins árið 2006 leiddi til þess að meiri áhersla var lögð á varnar- og öryggismál innan íslensku stjórnsýslunnar en áður.  Samkvæmt nýlegum upplýsingum af vefsíðu stjórnarráðsins hafa framlög Íslands til varnarmála og Atlantshafsbandalagsins aukist á síðustu árum.  Er það vegna ákvarðana sem teknar voru á leiðtogafundunum í Wales árið 2014 og Varsjá tveimur árum síðar.  Þannig hafa íslensk stjórnvöld fjölgað borgaralegum sérfræðingum í störfum hjá Atlantshafs­bandalaginu og aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Framlag okkar til Atlantshafsbandalagsins felst m.a. í því að halda árlega sprengjuleitar­­æfingu sem kallast Norðuráskorunin (e. Northern Challenge).   Hún er haldin undir merkjum NATO en Landhelgisgæslan hefur veg og vanda að henni.  Eðlilegt er að hún hafi verkefnið á sinni könnu enda er sérþekking á sprengjueyðingu til staðar innan stofnunarinnar.  Þeir sem telja að ekki sé þörf fyrir þekkingu af því tagi hér á landi eru minntir á að í hafinu umhverfis Ísland er fjöldinn allur af tundurduflum sem lögð voru í seinni heimsstyrjöldinni.  Þau skapa hættu fyrir sjófarendur og aðra.  Því má heldur ekki gleyma að Gæslan gegnir mikilvægu hlutverki í skipulagi varnar- og öryggismála landsins.  Með samningi milli utanríkis- og innanríkisráðherra árið 2014 var Landhelgisgæslunni falið að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga frá árinu 2008

Fram kemur á heimasíðu Gæslunnar að meginmarkmið æfingarinnar sé að æfa viðbrögð við hryðjuverkum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir.  Hófst æfingin þann 8. september og stendur í rúma viku.  Þetta er í átjánda skipti sem æfingin er haldin hér á landi.  Hún þykir vel skipulögð og jafnframt krefjandi en verkefnin eru á ýmsum stöðum t.d. á flugvelli, í höfnum, í skipi og við bryggju.  Því þarf ekki að koma á óvart að spengju­sérfræðingar hafi mikinn áhuga á að taka þátt í henni.  Í viðtali við Morgunblaðið staðfestir Keith Mabbott, undirforingi í konunglega breska sjóhernum að æfingin hafi mikið gildi fyrir stéttina.  Segir hann að landslagið hér á landi henti afar vel til sprengjuleitaræfinga enda sé það krefjandi bæði hvað varðar veðurfar og umhverfi.  Þeir sem geti leitað að sprengjum á Íslandi geti gert það hvar sem er í heiminum.

Í ár taka sérfræðingar frá 17 löndum þátt í æfingunni eða um 300 manns.  NATO ríki gegna auðvitað lykilhlutverki í henni en hún er líka hugsuð sem samráðsverkefni með öðrum ríkjum þar á meðal þeim sem tengjast samstarfi í þágu friðar.  Á ensku kallast verkefnið Partnership for Peace en því var komið á fót af NATO árið 1994 til að styrkja tengslin við ríki sem standa utan bandalagsins.  Ríki sem teljast til vildarvina NATO (e. NATO´S Enhanced Opportunity Partners) taka einnig þátt.  Vildarvinaverkefninu var hleypt af stokkunum á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales árið 2014.  Fimm ríki eru í hópnum: Ástralía, Finnland, Georgía, Svíþjóð og Jórdanía.

Ljóst er að æfing af þessu tagi styrkir öryggi Íslands.  Þannig bætum við með henni tengslin við þær þjóðir sem við viljum eiga samleið með í öryggismálum auk þess sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar auka við þekkingu sína á sprengjueyðingu og ýmsum öðrum verkefnum sem auðveldar þeim að sinna þeim í framtíðinni.   Norðuráskorunin sýnir líka samstarfsþjóðum okkar að við Íslendingar tökum öryggismál okkar alvarlega.

Vegna þess gildis sem æfingin hefur fyrir Ísland má spyrja hvort ekki væri hægt að nýta hana betur til þess að vekja athygli á mikilvægi öryggismála fyrir þjóðina og kosti aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu.  Þannig má draga úr áhrifum þeirra sem eru andvígir veru okkar í NATO.  Auðvitað er af öryggisástæðum ekki hægt að fjalla um æfingu sem þessa í smáatriðum en eftir að hafa leitað að upplýsingum um æfinguna er greinarhöfundur á því að betur hefði mátt kynna hana.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …