Home / Fréttir / Öryggi fyrir alla, konur og karla

Öryggi fyrir alla, konur og karla

Norski flotaforinginn Louise Dedichen.
Norski flotaforinginn Louise Dedichen.

Höfundur Kristinn Valdimarsson

Öryggismál varða okkur öll. Rökin fyrir því eru einföld. Komi til átaka þá snerta þau alla hvort heldur karla eða konur. Til eru ýmis dæmi um konur sem hafa látið að sér kveða í öryggis- og varnarmálum en sögulega séð hafa karlar meira skipt sér af þessum málaflokkum. Í dag hefur gamaldags viðhorfum um störf á valdi kvenna verið rutt úr vegi auk þess er aukinn skilningur á því hve mikilvægt er að rödd þeirra heyrist í umræðum um öryggismál.

Atlantshafsbandalagið tekur þátt í þessari þróun. Flestir yfirmanna þar hafa vissulega verið karlar. Þetta hefur breyst á undanförnum árum. Kona, Anna Jóhannsdóttir, var til dæmis skipuð fastafulltrúi Íslands hjá bandalaginu árið 2013. Árið 2016 var svo Rose Gottemoeller, sem áður hafði gegnt lykilstöðum innan bandaríska utanríkisráðuneytisins, skipuð aðstoðarframkvæmdastjóri NATO fyrst kvenna.

Á heimasíðu norska hersins, forsvaret.no, segir að nú hafi enn ein konan komist til æðstu metorða innan Atlantshafsbandalagsins. Um er að ræða norska flotaforingjann Louise Dedichen. Hefur hún verið skipuð formaður sendinefndar Noregs í hermálanefnd NATO (e. Military Committee) og er hún fyrsta konan sem fer fyrir slíkri sendinefnd. Hermálanefndin er æðsta fastanefndin í varnarmálaarmi bandalagsins. Verkefni hennar er að veita Atlantshafsráðinu, þar sem fastafulltrúar bandalagsríkjanna sitja, ráð í öryggis- og varnarmálum. Tekur Louise við starfi sínu á næsta ári.

Louise er ekki óvön brautryðjendastarfi. Á forsvaret.no er minnt á að hún hafi verið fyrsti kvenundirflotaforingi (e. rear admiral) í sögu Noregs og árið 2008 tók hún viðstjórn norska varnarmálaháskólans fyrst kvenna. Louise var síðan fyrsta konan til að gegna stöðu aðstoðarflotaforingja (e. vice admiral) í norska flotanum. Ekki kemur á óvart að í samtali við fréttamann norska hersins segi Louise að helsta markmið hennar í nýja starfinu sé að gæta hagsmuna Noregs innan Atlantshafsbandalagsins og stuðla að árangursríkri samvinnu bandalagsríkjanna. Hún leggur líka áherslu á að mikilvægt sé að sjá skóginn fyrir trjánum í öryggis- og varnarmálum. Þegar hún er spurð hvaða málefnum valdi henni mestum áhyggjum svarar hún því til að mikilvægt sé að hafa ekki of miklar áhyggjur. Að lokum minnist hún á að herir, líkt og aðrir, þurfi að láta umhverfismá meira til sín taka.

Einhverjum kann að þykja léttvægt að telja upp nokkrar konur í stjórnunarstöðum í varnarbandalagi 29 þjóða sem starfar í þágu tæplega milljaðs manna, það segi ekki mikið um stöðu kvenna innan bandalagsins. Þá má árétta að NATO berst fyrir hagsmunum kvenna með ýmsum öðrum hætti líkt og fram kemur á heimasíðu þess. Bandalagið hefur lengi fengist við þetta verkefni og má nefna að árið 1976 var stofnuð nefnd um stöðu kvenna í herjum NATO ríkjanna. Nú er áhersla lögð á það innan bandalagsins að fylgja eftir ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi (e. Women, peace and security). Grunnatriði í ályktununum er að átök bitni mjög illa á konum og stúlkum. Til þess að fylgja verkefninu eftir var embætti sérlegs fulltrúa NATO í málefnum kvenna (e. NATO Special Representative for Women, Peace and Security) stofnað árið 2012. Í dag gegnir Clare Hutchinson frá Kanada stöðunni. Hún vann í rúman áratug að kynjamálum innan Sameinuðu þjóðanna. Að lokum er þess að geta að á leiðtogafundi bandalagsins í Wales árið 2014 var lögð áhersla á að jafnréttissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi í mikilvægustu verkefnum NATO.

Kynjahallinn í öryggismálum er einnig til staðar hér á Íslandi. Rökin fyrir því að draga úr honum eru þau sömu og minnst hefur verið á hér í greininni. Varðberg er ekki síður opið konum en körlum. Þar eiga þær fullt erindi. Auðvelt er að skrá sig í félagið á vefsíðu þess,

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …