Home / Fréttir / Orrustan um Kyív harðnar – gagnrýni í sjónvarpsþáttum í Moskvu

Orrustan um Kyív harðnar – gagnrýni í sjónvarpsþáttum í Moskvu

Sprengjumynd frá Kyív.

Þess sáust merki í ríkisrekinni rússneskri sjónvarpsstöð að kvöldi fimmtudags 10. mars að viðmælendur virtu ekki bann Pútin-stjórnarinnar og gagnrýndu stríðið í Úkraínu. Innrásinni var líkt við illa skipulagða innrás Sovétmanna í Afganistan fyrir rúmum 40 árum, þó væri verr að verki staðið nú en þá. Pútin vill að gengið verði harðar fram gegn þeim á rússneskum heimavelli sem fara ekki að fyrirmælum hans í umræðum um stríðið.

Viðmælendur rússneskra sjónvarpsmanna neita að taka undir lýsingar þáttastjórnenda á átökunum þegar þeir fara að fyrirmælum Pútins og segja að Rússar hafi gripið til „sérstakra aðgerða“ til að „afvopna“ og „afmá nazisma“ í Úkraínu. Í Kyív og á Vesturlöndum er þessum skýringum Pútins andmælt sem örgustu lygum.

Gestur í viðtalsþættinum Kvöldi með Vladimir Soloviev sem sýndur er á besta tíma andmælti þáttarstjórnandanum með því að vísa til sovésku innrásarinnar í Afganistan árið 1979 sem endaði hörmulega með brotthvarfi innrásarhersins tíu árum síðar.

Sagnfræðingar halda því fram að þetta misheppnaða stríð Sovétforystunnar, þegar þúsundir liðsmanna Rauða hersins féllu, hafi opnað augu milljóna manna í Sovétríkjunum á blekkingum stjórnvalda og loks stuðlað að falli sovéska stórveldisins árið 1991.

Meðal þeirra sem andæfðu Vladimir Soloviev – oft kallaður áróðursmeistari Pútins – var háskólamaðurinn Semjond Bagdasarov sem velti fyrir sér hvort Rússar hefðu hafið stríð sem yrði þeim jafnvel dýrkeyptara en Afgangistan-stríðið.

„Þarna er fleira fólk og kann meira í meðferð vopna,“ sagði hann. „Við þörfnumst þess ekki. Nú þegar er nóg komið.“ Þá sagði hann: „Breytist þessi mynd í algjöran mannlegan harmleik munu jafnvel nánir bandamenn okkar í Kína og á Indlandi neyðast til að fjarlægast okkur.“

Karen Shakhnazarov, kvikmyndagerðarmaður og ríkis menningarviti, dró einnig í efa að Kremlverjar segðu rétt frá með því að kalla þetta „sérgreinda aðgerð“ í Donbass-héraði þegar ráðist væri á höfuðborgina Kyív í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.

„Það er erfitt fyrir mig að sjá fyrir hertöku borga eins og Kyív. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það verður,“ sagði hann.

Í fréttum af stríðinu segir meðal annars:

  • Rússneskir hermenn í Úkraínu hafa fengið afhentar gasgrímur með vísan til þess að tæki til notkunar efnavopna séu meðal herfangs Rússa eftir handtöku á úkraínskum hermönnum. Á hinn bóginn hafa forystumenn á Vesturlöndum varað við hættunni á að hermenn Pútins grípi til efnavopna.
  • Um 64 km löng rússnesk „dauða lest“ sem hefur dögum saman mjakast áfram fyrir norðan Kyív hefur dreift sér og aukið hraða á för sinni í átt að höfuðborginni megi marka myndir úr gervitunglum. Skotflauga-stórskotalið hefur stillt sér í skotstöðu.
  • Talið er að fyrir norðvestan Kyív séy rússneskir hermenn nú aðeins í 15 km fjarlægð frá miðborginni. Langvinn og blóðug barátta um Kyív harðnar.
  • Í frétt frá þingi Úkraínu segir að rússneskir hermenn hafi síðdegis fimmtudaginn 10. mars ráðist á kjarnorkurannsóknarstöð við borgina Kharkiv. Þar séu gerðar tilraunir með kjarnakljúf.
  • Volodymyr Zelenskij Úkraínuforseti segir að undanfarna tvo daga hafi 100.000 almennir borgarar verið fluttir á brott frá borgum þar sem tókst að halda flóttaleiðum opnum. Rússneskir hermenn virða ekki kröfur um öryggi á slíkum leiðum til dæmis við hafnarborgina Mariupol þar sem þúsundir hafa týnt lífi.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …