Home / Fréttir / Orrustan um Bakhmut og Wagner-málaliðaherinn

Orrustan um Bakhmut og Wagner-málaliðaherinn

Þegar þessi mynd var tekin fyrir nokkrum dögum lét Jevgení Prigósjín, Wagner-foringi, eins og hann væri að sigra í Bakhmut. Annað hefur komið á daginn.

Fréttir herma að enn sé barist hart í bænum Bakhmut í Donetsk-héraði í austurhluta Úkraínu og rússneskir hermenn geri þar enn árásir á varnarlið Úkraínuhers. Herforingjar Úkraínu segja að tjón Rússa sé mikið. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) segir að sókn rússnesku Wagner-málaliðanna virðist hafa stöðvast í héraðinu.

Herstjórn Úkraínu fullyrti 12. mars að Rússar hefðu misst meira en 1.000 hermenn sólarhringinn þar á undan í átökunum um Bakhmut. Fimmtudaginn 16. mars sagði ISW hugveitan að ekki hefðu borist neinar staðfestar fréttir um sókn Rússa í Bakhmut og nágrenni í einn sólarhring. Á sem rennur um bæinn skilur á milli stríðandi fylkinganna.

„Enn berast fréttir frá Úkraínumönnum og Rússum um þunga bardaga í bænum en líklegt er að sífellt þrengi meira að Wagner-málaliðunum í borgarhverfum og þess vegna eigi þeir erfitt með að sækja nokkuð fram,“ segir ISW.

Rússneska TASS-fréttastofan hafði 12. mars eftir Jevgeníj Prigósjín, eiganda Wagner-málaliðanna, að hermenn hans ættu í „hörðum“ bardögum og að „endalaus“ straumur liðsauka bærist her Úkraínu í bænum.

„Ástandið í Bakhmut er erfitt, mjög erfitt, óvinurinn berst um hvern metra,“ var haft eftir honum.

Daginn áður en Prigósjin lét þessi orð falla birti hann myndskeið af sjálfum sér í fullum herklæðum ofan á húsþaki í um km fjarlægð frá Bakhmut og lét þá eins og borgin væri að falla í hendur Rússum.

Prigósjin í vanda.                        

Sumir hafa látið eins og Jevgeníj Prigósjín kynni að geta ógnað Vladimir Pútin forseta í valdabaráttu í Kreml. Eftir að hafa verið í náðinni hjá Pútin kvartar Prigósjín nú undan að fá ekki beint samband á æðstu staði. Wagner-liðar fái ekki næg skotfæri sem skaði þá í Bakhmut. Bardagar þar eru ekki aðeins skoðaðir í ljósi átakanna við Úkraínumenn heldur er talið að þeir snúist einnig um áhrif í Moskvu ­– og einkum innan varnarmálaráðuneytisins.

Þrátt fyrir vandræði Wagner-liða í Bakhmut sagði Prigósjín í liðinni viku að hann yrði forseti Úkraínu árið 2024. Hann hefur lagt allt undir í Bakhmut að mati sérfræðinga og rætt um sigur sinn þar síðan í júlí 2022 segir Stephen Hall, sérfræðingur í rússneskum málefnum við Bath-háskóla í Bretlandi.

Í Moskvu hafa ýmsir tekið höndum saman gegn Prigósjín og varnarmálaráðuneytið bendir á vandræði hans í Bakhmut því til sönnunar að hann megi sín í raun ekki mikils. Til að ná sér niðri á ráðuneytinu lætur Prigósjín orð falla um að hann ætli að verða varnarmálaráðherra í krafti eigin stjórnmálaflokks. Hann reis til metorða sem „kokkur Pútins“. Málaliðaherinn varð til eftir að hann sá um matseld fyrir Kremlverja.

Þegar stríðið í Úkraínu harðnaði og mannfall í liði Rússa kallaði á liðsauka treysti Pútin sér ekki til þess síðsumar 2022 að senda út allsherjar herútboð um Rússland. Hann gerði það að hluta en sneri sér jafnframt til Prigósjins og málaliða hans, þátttaka þeirra í stríðinu létti undir með rússneska hernum án stórs herútboðs.

Prigósjin kann að hafa ofmetnast við þetta. Sagt er að hann sé fullur sjálfstrausts og óhræddur við að grípa til blekkinga til að styrkja eigin stöðu. Hann virðist hafa staðið í þeirri trú að með herafla sínum gæti hann ekki aðeins skákað Úkraínumönnum heldur einnig rússneska varnarmálaráðherranum Sergei Shoigu og herráðsforingjanum, Valeríj Gerasimov, hægri hönd ráðherrans.

Prófessor Hall segir Prigósjin hafa ætlað að sanna hernaðarsnilld sína í Bakhmut. Hann hafi veðjað á að Úkraínumenn mundu ekki leggja hart að sér við að verja bæ sem hefði óljósa hernaðarlega þýðingu. „Hann bjóst við skjótu falli Bakhmut,“ segir Hall.

Nú hefur verið barist þar í rúma 9 mánuði og staða Prigósjins veikist.

Hall prófessor segir við frönsku fréttastofuna France 24 að í Moskvu hafi menn myndað bandalag gegn Prigósjin. Hrakfarir hans í Bakhmut styrki stöðu þessara andstæðinga hans. Hann hafi í raun aldrei staðið nærri Pútin. Shoigu varnarmálaráðherra hafi miklu nánari og lengri tengsl við Pútin. Nú virðist rússneska varnarmálaráðuneytið hafa ákveðið að Bakhmut verði grafreitur Wagner-málaliðanna.

„Prigósjín getur ekki horfið frá Bakhmut, venjulegi heraflinn notar átökin þar því til þess að sverfa að Wagner, þeir eru sendir til verstu átakanna í rústum AZOM stálversins en [venjulegi herinn] bíður sjálfur eftir að eigna sér sigurinn ef og þegar það fellur,“ segir Mark Galeotti, sérfræðingur í rússneskum málefnum, í grein í breska vikuritinu The Spectator.

Joseph Moses, herfræðingur og sérfræðingur í málefnum Úkraínu við International Team for the Study of Security Verona, segir að hvað sem líði vandræðum Prigósjíns vegna Bakhmut treysti Pútin honum enn sem komið er betur en varnarmálaráðuneytinu sem sitji uppi með alla gagnrýnina vegna afhroðs rússneska hersins.

Þá gagnist málaliðarnir Pútin vel, það sé auðveldara fyrir hann að fangar í Wagner-liðinu falli unnvörpum en venjulegir rússneskir hermenn, forsetinn verði ekki kallaður til sömu ábyrgðar vegna þess.

Þá segir Moses að ekki megi horfa fram hjá því að takist Wagner-liðum að leggja undir sig Bakhmut geti Prigósjín ekki aðeins fagnað sigri yfir Úkraínuher heldur einnig að hann hafi unnist þrátt fyrir varnarmálaráðuneytið.

Í þessu ljósi snýst orrustan um Bakhmut eins mikið um pólitíska framtíð Rússlands eins og úrslit stríðsins.

Heimild: France24

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …