
Örn réðist á dróna norska hersins sem notaður var til myndatöku á heræfingunni Cold Resopnse sem lýkur í Norður-Noregi fimmtudaginn 10. mars. Um var að ræða dróna af gerðinni RQ-11 Raven mini-UAV. Lítið fjarstýrt flygildi með myndavél. Dróninn hafði verið tæpar 60 mínútur á lofti þegar hann varð fyrir árásinni segir á vefsíðu norska hersins.
Alls taka um 15.000 hermenn frá 14 þjóðum þátt í æfingunni. Hér hefur birst frétt um að á annað þúsund Svíar æfi nú með herjum NATO. Finnar sendu einnig liðsafla til æfinganna. Eru því tvær þjóðir utan NATO sem eiga þátttakendur í æfingunni. NATO-þjóðirnar eru: Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Kanada, Lettland, Pólland, Spánn og Þýskaland.
Sá sem stjórnaði drónanum segir að hann hafi haldið honum á hægri ferð og fylgst með ferðum sænskra skriðdreka á eftirlitssvæði sínu. Allt í einu hafi örn birst í átta metra fjarlægð og einkennileg atburðarás hófst með árás arnarins á drónann. Laskaðist tækið svo mikið í árásinni að ekki var unnt að snúa því til baka til stjórnstöðvar sinnar og hrapaði dróninn til jarðar. Síðar fundu norskir hermenn flakið bar það skýr merki um að hafa lent í klóm arnarins sem höfðu rispað það.
Í frétt á iBarents Observer miðvikudaginn 9. mars um atvikið segir að hollenska lögreglan sé að temja erni til að granda litlum drónum. Lögreglan í London íhugi einnig að nota erni til að stöðva dróna sem notaðir séu í vaxandi mæli til afbrota.