Home / Fréttir / Orkurisar setja Rússa á bannlista – Shell tekið til bæna

Orkurisar setja Rússa á bannlista – Shell tekið til bæna

Olíurisinn Shell stendur nú ströngu við að svara þeim sem gagnrýna fyrirtækið fyrir að kaupa föstudaginn 4. mars farm af rússneskri hráolíu fyrir ofurlágt verð. Um er að ræða 100.000 tonn af olíu fyrir verð sem var tæplega 4.000 ísl. kr. undir markaðsverði á tunnu að sögn The Wall Street Journal.

Viðskiptin fóru fram fáeinum dögum eftir að Shell tilkynnti að það ætlaði að slíta öllum samskiptum við Rússa og meðal annars hætta samstarfi sínu við rússneska orkurisann Gazprom, auk þess sem fyrirtækið mundi hætta allri aðild að Nord Stream 2 gasleiðslunni.

Ben van Beurden, forstjóri Shell, fór þeim orðum um innrás Rússa í Úkraínu að hún væri „tilgangslaus hernaðaraðgerð sem ógnar öryggi Evrópu“ að sögn The Financial Times.

Blaðið segir að olíukaupin gefi Shell í aðra hönd 20 milljón dollara ágóða, hann sé hins vegar dýru verði keyptur sé litið til mótmælanna sem skollið hafi á fyrirtækinu.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, fór hörðum orðum um þessi olíukaup Shell og hvatti samtímis fjölþjóðleg fyrirtæki til að slíta öllum viðskiptasamböndum sínum við Rússland.

„Mér er sagt að með leynd hafi Shell keypt eitthvað af rússneskri olíu í gær. Ég hef spurningu til Shell: Finnið þið ekki úkraínska blóðlykt af rússnesk olíunni?“ spurði utanríkisráðherrann á Twitter laugardaginn 5. mars.

Síðan hefur Shell sagt í opinberri tilkynningu á Twitter að ákvörðunin um að kaupa rússnesku hráolíuna hafi verið „erfið“ en hún hafi meðal annars verið tekin af ótta við „truflun á markaðsframboði“.

Shell segir nú að fyrirtækið ætli að gefa hagnaðinn í sjóð sem styrkir hjálparstarf vegna stríðsins.

Fréttin um þessi viðskipti Shell minnir á þá einstöku stöðu sem Rússar höfðu á orkumarkaði heimsins og þá staðreynd að þar hafa orðið algjör umskipti frá því að Pútin hóf hernaðaraðgerðir sínar gegn Úkraínumönnum.

Þjóðverjar lögðu Nord Stream 2 gasleiðsluna til hliðar og ætla að hefja hafnarframkvæmdir til að geta tekið á móti gasi úr LNG-tankskipum sem flytja kælt fljótandi jarðgas. Þá er líklegt að frestað verði lokun þýskra kjarnorkuvera og kol verði nýtt lengur til orkuframleiðslu en ætlað var.

Hvað sem líður ofangreindum feluviðskiptum Shell hefur fyrirtækið ásamt hinum stóru, vestrænu risaorkufyrirtækjunum BP og ExxonMobil hætt aðild að marg milljarða dollara orkuverkefnum í Rússlandi. Franska orkufyrirtækið TotalEnergies ætlar að hætta öllum ný-fjárfestingum.

„Ég held að þetta sé upphafið að endalokum Rússlands sem orku-risaveldis,“ segir Nikos Tsafos, orku-sérfræðingur hjá bandarísku hugveitunni Center for Strategic and International Studies CSIS), í hlaðvarpssamtali sem birtist 1. mars. Hann sagði að sala Rússa á gasi til Kína bætti þeim aldrei að fullu lokun á evrópska markaðnum.

Rússland er þriðja stærsta olíuframleiðsluríki heims og annað stærsta framleiðsluland heims á jarðgasi. Rússar hafa haft sterka markaðsstöðu á evrópska orkumarkaðinum með um 25% hlutdeild í olíusölu og 30 til 40% í gassölu. Rússar hafa til þessa notið almenns trausts í Evrópu sem orkuseljendur.

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …