Home / Fréttir / Orðrómur um brottrekstur Tillersons utanríkisráðherra magnast

Orðrómur um brottrekstur Tillersons utanríkisráðherra magnast

Rex Tillerson
Rex Tillerson

Innan bandaríska forsetaembættisins hefur verið unnin áætlun um lausn Rex Tillersons utanríkisráðherra frá embætti og skipun Mikes Pompeos, forstjóra CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, í hans stað. Pompeo er sagður njóta meira trausts Donalds Trumps forseta en aðrir ráðgjafar hans um þjóðaröryggismál og sýna forsetanum þá hollustu sem hann krefst.

Frá þessu er skýrt í The New York Times og The Washington Post fimmtudaginn 30. desember.

Sagt er að John F. Kelly, liðsstjóri Trumps í Hvíta húsinu, hafi samið áætlunina og henni verði hrundið í framkvæmd á næstu vikum með víðtækum stuðningi þeirra sem starfa næst forsetanum. Óljóst er hvort Trump hafi gefið samþykki sitt og minnt er á að forsetanum snúist oft hugur um menn og málefni áður en lokaákvörðun er kynnt á opinberan hátt.

Áætlunin gerir ráð fyrir að Tom Cotton, öldungadeildarmaður repúblíkana frá Arkansas, verði forstjóri CIA í stað Pompeos. Cotton er í hópi traustustu stuðningsmanna Trumps.

Að morgni fimmtudags 30. desember átti Donald Trump fund með Salman bin Hamad al-Khalifa, krónprins frá Bahrain. Í tengslum við fundinn spurðu blaðamenn Trump hvort Tillerson yrði áfram utanríkisráðherra, forsetinn svaraði: „Hann er hér. Rex er hér.“

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi forsetans, sagði: „Eins og forsetinn sagði, „Rex er hér“. Ekki verður að þessu sinni skýrt frá neinum starfsmannamálum. Tillerson er áfram í forystu utanríkisráðuneytisins og öll ríkisstjórnin einbeitir sér að ljúka þessu ótrúlega árangursríka fyrsta árs stjórnar Trumps forseta.“

Orðrómur um að Tillerson yrði hugsanlega vikið til hliðar hlaut byr undir báða vængi í október þegar sagt var frá því í NBC News að Tillerson hefði kallað Trump „hálfvita“. Þótt Tillerson hafi sagt vinum sínum að hann vildi sitja sem utanríkisráðherra í eitt ár og hefði opinberlega sagt að hann hefði engin áform um að hverfa úr ríkisstjórninni varð til orð um yfirvofandi brottför hans – Rexit.

Sagt er að utanríkisráðherrann hafi einangrað sig frá fyrrum bandamönnum sínum í Hvíta húsinu og undirmönnum sínum í utanríkisráðuneytinu með yfirlætisfullri framgöngu sinni. Tillerson hefur unnið að því að skera niður í utanríkisráðuneytinu en aðgerðir hans þar hafa sætt gagnrýni í þinginu jafnt frá repúblíkönum og demókrötum.

Mike Pompeo (53 ára) hefur orðið handgenginn Trump á reglulegum fundum með forsetanum um leynileg málefni í skrifstofu forsetans. Pompeo er útskrifaður úr herskólanum í West Point og Harvard lagaskólanum. Hann sat í fulltrúadeild þingsins sem þingmaður repúblíkana frá kjördæmi í Kansas. Hann náði fyrst kjöri árið 2010 sem hluti af teflokks-hreyfingunni.

Tillerson (65 ára) hafði aldrei setið í ríkisstjórn eða haft náin samskipti við þing og stjórn í Washington þegar Trump kom honum á óvart í fyrra með að bjóða honum ráðherraembætti. Allan starfsaldur sinn hafði hann verið hjá ExxonMobil og loks orðið forstjóri risafyrirtækisins sem starfar um allan heim.

Tillerson sættir sig ekki við hve hlutir ganga hægt og illa fyrir sig innan stjórnkerfisins. Hann hefur sagt vinum sínum að honum líki ekki við illt umtal og sjálfsupphafninguna í Washington.

Til þessa hefur einkum verið rætt að Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, yrði eftirmaður Tillersons sem utanríkisráðherra. Hún er fyrrverandi ríkisstjóri repúblíkana í Suður-Karólínu og hefur átt í útistöðum við Tillerson. Haley sagði í október að hún vildi ekki ráðherrastarfið og mundi hafna því fengi hún boð um það.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …