Home / Fréttir / Örbylgjum beint gegn bandarískum sendiráðsmönnum

Örbylgjum beint gegn bandarískum sendiráðsmönnum

Sendiráð Bandaríkjanna í Havana á Kúbu.
Sendiráð Bandaríkjanna í Havana á Kúbu.

Bandarískir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að beiting örbylgna sé líklegasta ástæða þess að bandarískir sendiráðsmenn á Kúbu og í Kína veiktust á ýmsan hátt, máttu til dæmis þola svima og minnisleysi.

Frá þessu var skýrt laugardaginn 5. desember í skýrslu frá National Academies of Sciences, Engineering and Medicine í Bandaríkjunum. Vísindamennirnir tala um directed, pulsed radio frequency (RF) energy sem líklegustu skýringuna á veikindum sendiráðsmannanna, undir þetta fellur ýmiss konar útvarpsbylgju-orka, þar á meðal örbylgjugeislar.

Áhrif þessara bylgjusendinga voru slæm á marga bandaríska og kanadíska sendiráðsstarfsmenn. Þeir fengu svima, höfuðverk, þreytuköst, ógleði, kvíðaköst, doða og minnisleysi. Segja vísindamennirnir að einkennin hafi verið „ólík öllu því sem lýst er í læknaritum um taugasjúkdóma eða almennt um sjúkdóma“.

Bandaríska utanríkisráðuneytið réð 19 sérfróða vísindamenn og lækna til að veita ríkisstjórninni upplýsingar um ástæður sjúkdóma sem herjuðu á sendiráðsmenn erlendis.

Hvatt er til þess að vísbendingarnar sem nú liggja fyrir um að beitt hafi verið örbylgjum gegn sendiráðsmönnunum verði rannsakaðar nánar af sérfræðingum sem fái meiri aðgang að trúnaðargögnum og „öruggum“ stöðum en 19 manna hópurinn sem leit á málið frá vísindalegum og læknisfræðilegum sjónarhóli.

Það var síðla árs 2016 sem bandarískir sendiráðsmenn á Kúbu tóku að veikjast. Leiddu veikindin til þess að samband Kúbu og Bandaríkjanna slitnaði en ríkin höfðu tekið að nálgast þegar Barack Obama var forseti Bandaríkjanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti skellti skuldinni á Kúbverja en stjórnvöld Kúbu höfnuðu ásökunum hans sem marklausum. Bandarískir sendiráðsmenn í Kína veiktust síðar á annan hátt og sömu sögu er að segja um bandaríska njósnara sem sinntu verkefnum sem tengdust Rússum víðs vegar um heim.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …