
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, efndi til fyrsta blaðamannafundar síns árið 2019 fimmtudaginn 10. janúar. Hann var ómyrkur í máli um hugmyndafræðilegan ágreining í Evrópu.
„Það verða tveir siðmenningarheimar innan ESB,“ sagði Orbán í Búdapest. „Annar mótaður af blöndu íslam og kristni í vestri og hinn reistur á hefðbundinni evrópskri kristni í Mið-Evrópu.“
Forsætisráðherrann kynnti markmið sitt í kosningunum til ESB-þingsins í maí: að meirihluti þingmanna fylgi harðri útlendingastefnu og standi gegn ólöglegum straumi fólks til Evrópu.
„Mikilvægasta pólitíska málið sem við okkur blasir eru ESB-þingkosningarnar. Kannanir sýna að 52% Ungverja líta á innflytjendamál sem stærstu áskorun ESB. Við ein getum ákveðið með hverjum við ætlum að lifa í framtíðinni,“ sagði Orbán.
Forsætisráðherrann sagði að mál hefðu nú þróast á þann veg í Evrópu að frjálslyndir væru höfuðóvinir frelsis. Orbán nefndi sérstaklega til sögunnar belgíska stjórnmálamanninn Guy Verhofstadt, leiðtoga ALDE, Bandalags frjálslyndra og lýðræðissinna í Evrópu, og sagði hann ógna frelsi Evrópu.
Í ræðu sinni vék Orbán sérstaklega að Matteo Salvini, leiðtoga Bandalagsins á Ítalíu, vara-forsætisráðherra og innanríkisráðherra, og hrósaði honum sem „hetju“ og fagnaði pólsk-ítölsku samstarfsverkefni gegn innflytjendum.
Salvini var í Varsjá miðvikudaginn 9. janúar til að ræða myndun bandalags um gagnrýna stefnu innan ESB við Jaroslaw Kaczynski, leiðtoga pólska stjórnarflokksins. Salvini sagði þar að bandalag Ítala og Pólverja myndi koma í stað ráðandi bandalags Þjóðverja og Frakka innan ESB.
„Ég bind miklar vonir við pólsk-ítölsku samvinnuna, ég hef fengið nóg af því að Evrópski lýðflokkurinn (European People’s Party (EPP), mið-hægri flokkur) vinni aðeins með frjálslyndum. Innan EPP ættum við að líta til hægri,“ sagði ungverski forsætisráðherrann.
Í ágúst 2018 gáfu Salvini og Orbán út sameiginlega yfirlýsingu þar sem varað var við flótta- og farandfólki. Margir Pólverjar hafa fyrirvara á afstöðu sinni til Salvinis, þeir telja hann halla sér um of að Rússum.
Einn helsti álitsgjafi pólska dagblaðsins Rzeczpospolita, Michal Szuldrzynski, sagðist álíta að Salvini hefði fengið að heyra meira um það sem skilur á milli flokks hans, Bandalagsins, og flokks Kaczynskis, Flokks laga og réttlætis, en það sem sameinar flokkana.
„Kaczynski gaf til kynna að hann vildi ekki verða aðili að gagnrýnu bandalagi innan ESB undir handarjaðri Kremlverja,“ sagði Szuldrzynski dálki sínum í blaðinu fimmtudaginn 10. janúar.
Orbán gagnrýndi Emmanuel Macron, forseta Frakklands, og lýsti honum sem forystumanni þeirra sem vildu innleiða reglur í þágu innflytjenda í Evrópu.
„Þetta er ekkert persónulegt heldur snýst málið um framtíð þjóða okkar,“ sagði Orbán um Macron. „Nái það fram sem Macron vill í innflytjendamálum í Evrópu yrði það slæmt fyrir Ungverjaland þess vegna verð ég að berjast við hann.“
Orbán sagðist ekki sjá neinar líkur á málamiðlun við Þjóðverja. Hann lægi undir stöðugum árásum frá þýskum stjórnmálamönnum og fjölmiðlum sem beittu sig ofurþrýstingi til að hann tæki á móti farandfólki.
Heimild: Euronews og DW