Home / Fréttir / Orbán sigrar í Ungverjalandi Brusselmönnum til gremju

Orbán sigrar í Ungverjalandi Brusselmönnum til gremju

Viktor Orbán
Viktor Orbán

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, vann afgerandi sigur í þingkosningunum sunnudaginn 8. apríl. Fidesz-flokkur hans fær 133 þingsæti af 199 (48,5% atkvæða). Orbán fær með litlum samstarfsflokki „ofurmeirihluta“ á þingi, tvo-þriðju þingsæta, sem gerir honum kleift að breyta stjórnarskrá landsins, ef svo ber undir.

Þetta er þriðja kjörtímabil Orbáns (54 ára) í röð sem forsætisráðherra. Stefna hans mótast af gagnrýni á Evrópusambandið og harðri afstöðu í útlendingamálum.

Hann ávarpaði stuðningsmenn sína rétt fyrir miðnætti á kjördag þegar sigurinn var í höfn og sagði: „Frammi fyrir slíkum úrslitum ber að hafa þessi vísdómsorð í huga: Sýndu hógværð því að nú hefur þú ástæðu til þess.“

Orbán hafnaði í ávarpi sínu ásökunum um að hann safnaði of miklu valdi á fáar hendur: „Þjóð okkar er ekki enn kominn á þann stað þar sem hún vill vera,“ sagði hann. „Hún er hins vegar á þeirri leið sem hún hefur valið. Við munum halda áfram á þessari leið.“

Fréttaskýrendur segja að Orbán og fylgismenn hans hafi ekki búist við fá jafnmikið fylgi og raun varð.

Kjörsókn var 69% sem er há tala á ungverskan kvarða.

Gabor Vona er formaður Jobbik-flokksins helsta andstöðuflokks Orbáns með 20% fylgi. Hann sagðist virða ákvörðun kjósenda þótt erfitt væri að kyngja henni því að hann hefði vonað að mun fleiri kysu flokk sinn.

Sósíalistaflokkurinn er þriðji stærsti flokkur Ungverjalands með 12% fylgi og aðeins 20 þingmenn þrátt fyrir kosningabandalag með Samræðuflokknum. Flokkurinn er nærri fylgislaus utan höfuðborgarinnar Búdapest. Gergely Karacsony, leiðtogi sósíalista, sagði augljóst að flokkurinn gætin ekki boðið annan lýðræðislegan kost í landinu, hafi hann ekkert fylgi á landsbyggðinni.

Græningjar fengu 7%.

 

Skoðun Le Monde

 

Franska blaðið Le Monde (mið-vinstri) segir í leiðara mánudaginn 9. apríl um úrslit kosninganna:

„Þegar um eitt ár er til stefnu vegna kosninga til ESB-þingsins er afgerandi sigur Viktors Orbáns og hægrisinnaðs fullveldisflokks hans, Fidesz, í þingkosningunum í Ungverjalandi sunnudaginn 8. apríl mikilvægur vegna tveggja þátta: hann er túlkaður sem eindregin hvatning til popúlistaflokka innan ESB og í honum felst alvarleg áminning til Brusselmanna.

Sigur Orbáns, sem áréttaður er með mjög mikilli kjörsókn, fer fram úr vonum hans. Þegar 99% atkvæða höfðu verið talin að morgni mánudags höfðu 45.8% fallið flokki forsætisráðherrans í skaut, það  tryggir Fidesz og litlum samstarfsflokki hans tvo þriðju þingmanna sem dugar til að breyta stjórnarskránni.  Viktor Orbán, 54 ára, hefur því sterka stöðu þegar hann byrjar þriðja kjörtímabil sitt í röð – fjórða sem leiðtogi Ungverjalands – eftir kosningabaráttu sem snerist einkum um hættuna af „endurnýjuninni miklu“ á Evrópubúum með innflytjendum.

Orbán hefur alltaf verið vandræðagripur Evrópu, til góðs eða ills. Árið 1989 þegar hann var 26 ára og ungur baráttumaður fyrir lýðræði sem vildi sjá þjóð sína tengjast Evrópu frelsis, fór hann út fyrir hófsemdarstefnu andstæðinga kommúnista með því að krefjast þess hátt og skýrt að sovéski herinn hyrfi frá Ungverjalandi. Þegar hann komst til valda varð það hins vegar upphaf að fráhvarfi frá mið-hægristefnu í átt að hægristefnu mótaðri af þjóðernishyggju og andófi gegn elítunni.

Eftir að hafa verið um tíma í stjórnarandstöðu og skipbrot ríkisstjórnar fyrrverandi kommúnista sem breyttust í sósíalista komst Viktor Orbán að nýju til valda árið 2010 og setti svip sinn smátt og smátt á Búdapest: þjóðernisleg efnahagsstefna þar sem aðhaldi var hafnað, veruleg stjórn á fjölmiðlum og réttarkerfinu, næstum samfelldar kvartanir undan „okinu“ í Brussel, bætt samskipti við ráðamenn í Moskvu.

Flóttamannakrísan árið 2015 þegar hundruð þúsunda hælisleitenda fóru um Ungverjaland á leið til Þýskalands og tilraun ESB til að ákveða kvóta flóttamanna fyrir hvert land urðu kveikjan að því að hann nýtti sér hræðsluna við innflytjendur, fjölmenningu og íslam gagnvart kjósendum: þetta mál sem yfirgnæfði allt fyrir kosningarnar 2018 lá í þagnargildi fyrir fyrri kosningar. Vegna andstöðu sinnar við frjáls félagasamtök almennt og þó sérstaklega samtök bandaríska milljarðamæringsins George Soros, sem er borinn og barnfæddur í Ungverjalandi, varð Orbán forystumaður hægrisinnaðra þjóðhyggjumanna í Evrópu. Frá árinu 2015 hefur hann átt öflugan bandamann í Flokki laga og réttar sem er við völd í Póllandi.

Augljóst er að stefna ungverskra yfirvalda gengur þvert gegn grundvallarsjónarmiðum ESB. Til þessa hafa Brusselmenn ráðist á stjórnvöld í Varsjá en haft í hótunum við þá sem stjórna í Búdapest, þessu ræður einkum tvennt: litla Ungverjaland (9,8 milljón íbúar) má sín minna en metnaðarfullt Pólland (38 milljónir) og þá skiptir miklu að Fidesz-flokkur Orbáns er í EPP-flokknum á ESB-þinginu en í honum sitja CDU/CSU Angelu Merkel og Lýðveldissinnar frá Frakklandi. Það er löngu tímabært að EPP andmæli skýrt og skorinort útlendingaandúð og ofríkisstefnu samþingflokksmannanna frá Ungverjalandi.

Viktor Orbán gerir Brusselmenn að blóraböggli í Búdapest en slæst í hóp þeirra þegar hann hittir starfsbræður sína í Brussel. Þótt almenningur í Ungverjalandi styðji forsætisráðherra sinn eins og í ljós hefur komið er hann einnig að stórum hluta hlynntur ESB, fólki er ljóst aðildin að Evrópusambandinu bætir efnahag þjóðarinnar og eykur öryggi hennar. Viktor Orbán segir þess vegna ekki skilið við ESB, sambandið á að sýna festu þegar það minnir hann á stjórnmálaskilyrðin sem sett eru þeim vilja vera í evrópsku fjölskyldunni.“

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …