
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sér „dimm ský yfir Evrópu“. Þau megi rekja til straums innflytjenda og skeytingarleysis vestrænna stjórnmálamanna. Þetta kom fram í stefnuræðu sem hann flutti sunnudaginn 18. febrúar á fundi flokksmanna sinna í Búdapest.
Orbán er kunnur fyrir að kveða fast að orði í málflutningi sínum um innflytjendur. Hann segir að þeir hafi varpað dimmu skýi yfir Evrópu. „Þjóðir munu hverfa, Vesturlönd falla á sama tíma og Evrópumenn átta sig ekki einu sinni á að trampað er á þeim.“
Forsætisráðherrann varaði einnig við að innan skamms tíma yrði meirihluti íbúa í evrópskum stórborgum múhameðstrúar. Hann sakaði andstæðinga sína um að skynja ekki „tímanna tákn“ og þeir hefðu skapað sér „vonlausa stöðu“ með því að leggjast gegn girðingu á landamærum Ungverjalands og láta hjá líða að styðja ríkisstjórnina í deilu hennar við ESB um mótttöku flóttamanna. „Ég skil ekki hvernig þessir menn geta óskað eftir að verða treyst,“ sagði Orbán og áheyrendur hans veifuðu ungverskum fánum. Á ræðustólnum stóð: Fyrir okkur, Ungverjaland fremst.
Orbán er þekktur fyrir harða afstöðu sína gegn innflytjendum. Þegar straumur flóttamanna var mestur lét hann reisa girðingu á landamærunum og stöðvaði þannig straum flóttamanna frá Balkanskaga. Innan ESB er meirihluti fyrir því að flóttamönnum verði skipt á milli aðildarríkjanna en Orbán er andvígur því.
Kosið verður til þings í Ungverjalandi í apríl og býr Orbán (54 ára) sig undir að halda embætti sínu þriðja kjörtímabilið í röð með stuðningi Fidesz-flokksins. Í könnunum mælist fylgi flokksins um 50% en helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Jobbik, sem skipar sér til hægri við Fidesz-flokkinn mælist með 20% fylgi. Fyrir fjórum árum hlaut Fidesz þrjá-fjórðu atkvæða í kosningum.
Heimild: FAZ