Home / Fréttir / Ör og neikvæð breyting á öryggismálum Norðurlandanna

Ör og neikvæð breyting á öryggismálum Norðurlandanna

Björn Bjarnason, Anna Wieslander, Svein Efjestad, Sten Rynning og Charly Salonius-Pasternak í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.
Björn Bjarnason, Anna Wieslander, Svein Efjestad, Sten Rynning og Charly Salonius-Pasternak í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.

 

Önnur ráðstefna Varðbergs í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins var haldin fimmtudaginn 27. október í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns. Ráðstefnan sem stóð í þrjár klukkustundir var vel sótt og góður rómur gerður að máli ræðumanna sem voru  Sten Rynning, prófessor í alþjóðasamskiptum og forstöðumaður Stofnunar stríðsrannsókna í Syddansk háskólanum í Óðinsvéum, Danmörku, Anna Wieslander, stjórnandi málefna Norður-Evrópu við Atlantic Council og framkvæmdastjóri Sænsku varnarmálasamtakanna, Charly Salonius-Pasternak, rannsóknastjóri hjá Finnsku alþjóðamálastofnuninni og Svein Efjestad, yfirmaður stefnumótunardeildar í norska varnarmálaráðuneytinu.

Af máli fyrirlesaranna má ráða að breytingin á þróun öryggismála á Eystrasalti hefur verið bæði ör og neikvæð undanfarin misseri. Áhrif breytinganna eru ekki síst greinileg í Svíþjóð og Danmörku en í báðum löndum hefur áhersla á þátttöku í hernaði á fjarlægum slóðum minnkað en aukist á varnir landanna sjálfra.

Svíar undrast áreitið sem þeir verða fyrir af hálfu Rússa sem hafi greinilega ákveðið að efna til áróðursstríðs á hendur sér. Sænskir stjórnmálamenn megi ekki segja neitt sem miði að öflugri vörnum og viðbúnaði Svía, meðal annars með gerð tvíhliða samstarfssamninga við Bandaríkjamenn eða nágrannaþjóðir, án þess að Rússar taki það illa upp og lýsi óánægju sinni.

Eins og oft áður sat Alexeij Shadiskij, ráðunautur í rússneska sendiráðinu í Reykjavík, Varðbergsráðstefnuna og svaraði hann sænska ræðumanninum og sagði ekkert undarlegt að Rússar létu í sér heyra gagnvart Svíum enda hefði Carl Bildt, þáv. utanríkisráðherra, og fleiri Svíar komið dónalega fram við Rússa eins og birtist meðal annars á glæru sem Anna Wieslander notaði í ræðu sinni og sýndi Rússa eins og bjarndýr, þetta væri ekki sæmandi!

Finnski ræðumaðurinn minnti á að Finnar hefðu aldrei slakað á í landvörnum sínum og þeir ættu í senn samstarf við nágranna sinn i austri og byggjust við hinu versta. Bæði hann og Svíinn töldu að samstarf þjóða sinna við NATO mundi aukast en hvorugt vildi láta í ljós skoðun á því hvort reyna myndi á aðild á næstunni. Ákvæðu Svíar að gerast aðilar yrði erfitt fyrir Finna að standa fyrir utan NATO en gengju Finnar í NATO leiddi það ekki endilega til aðildar Svía.

Daninn sagði að hernaðarlegur viðbúnaður danska hersins yrði að taka stakkaskiptum til að verja danskt landsvæði eins og áður var. Undanfarin ár hefði allt skipulag og kaup á herbúnaði miðast við getu til að láta að sér kveða með hreyfanlegum herafla á fjarlægum slóðum. Nú hvíldi ástandið á Eystrasalti, þróunin á norðurslóðum og þátttaka í aðgerðum eins og í Sýrlandi þyngst á danska hernum. Danir hefðu ekki burði til að skipta liði heldur að beina því þangað hverju sinni eftir því sem aðstæður krefðust.

Norðmaðurinn sagði norska herinn líta í norður og vestur út á N-Atlantshaf en ekki til Eystrasaltsins eins og herir hinna landanna gerðu. Allt væri þetta þó samtengt. Tryggja yrði öryggi á siglinga- og samgönguleiðum yfir N-Atlantshaf til að treysta öryggi í Eystrasalti. Hann sagði að líta ætti á dvöl um 300 bandarískra landgönguliða í Noregi sem tímabundna, þeir yrðu þar til þjálfunar eins og lengi og þörf krefði.

Í pallborðsumræðum í lok ráðstefnunnar komst Finninn Charly Salonius-Pasternak svo að orði að þannig væri haldið á málum gagnvart rússneskum almenningi af yfirvöldum í Rússlandi að hann gæti ætlað að fyrsta skref til styrjaldar hefði verið stigið.

Þegar litið er á áhrif þessara breytinga á stöðu Íslands er augljóst að innan NATO og gagnvart íslenskum stjórnvöldum verður lögð meiri áhersla en áður á að auka hernaðarlegt eftirlit og vöktun á Norður-Atlantshafi með aðstöðu á Íslandi. Skýr mynd af því sem gerist á hafinu er liður í nauðsynlegri viðleitni til að skapa sem mesta öryggiskennd allra Norðurlandaþjóðanna og NATO-þjóða í Norður-Evrópu.

Síðar verður unnt að sjá ráðstefnuna í heild hér á vefsíðunni.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …