Home / Fréttir / Óöld í Kamerún

Óöld í Kamerún

Paul Biya, forseti Kamerún.
Paul Biya, forseti Kamerún.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Kamerún liggur við Gíneuflóa í vestanverðri Afríku.  Þann 6. nóvember árið 1982 sagði Ahmadou Ahidjo, forseti landsins óvænt af sér.  Við tók Paul Biya sem verið hafði forsætisráðherra í Kamerún.  Nú 37 árum síðar situr hann ennþá á valdastóli.  Litlu munaði reyndar að honum hefði verið steypt af stóli stuttu eftir að hann tók við völdum en hann hélt velli og stóð sterkari á eftir.  Þannig hefur hann borið sigur úr býtum í öllum forsetakosningum í landinu síðan hann tók við embættinu.  Því hefur verið haldið fram að þær hafi einkennst af víðtæku kosningasvindli.

Hryðjuverkamenn hafa framið ýmis illvirki í Kamerún.  Sé miðað við nálæg ríki telst valdatíð Biya þó hafa verið tiltölulega friðsöm.  Það er, fram að þessu en fyrir nokkrum árum brutust út átök í landinu.  Þúsundir hafa fallið í valinn og um hálf milljón manna hefur orðið að flýja heimili sín.  Fjallað er um stöðu mála í tímaritinu The Economist.

Rekja má orsakir átakanna um 100 ár aftur í tímann.  Kamerún varð þýsk nýlenda árið 1884.  Eftir fyrri heimsstyrjöldina náðu Bretar og Frakkar völdum í landinu.  Franska Kamerún hlaut sjálfstæði 1. janúar 1960 og stuttu síðar sameinaðist breska Kamerún því.  Með einföldun má því segja að landið skiptist í tvo hluta á grundvelli tungumáls.  Um 60 % Kamerúna tala frönsku en um fjórðungur ensku.  Þeir síðarnefndu búa að mestu í tveimur héruðum í vesturhluta landsins.

Árið 2016 hófust verkföll í héruðunum tveimur þar sem ofríki frönskumælandi embættismanna var mótmælt.  Mótmælendur höfðu talsvert til síns máls því Kamerún er mjög miðstýrt ríki og hafa frönskumælandi íbúar undirtökin í stjórnsýslunni.  Er deilurnar hörnuðu brutust út átök milli stjórnarhersins og ýmissa enskumælandi hópa.  Stjórnarherinn brást við af hörku og hafa hermenn framið ýmis ódæðisverk.  Fjölmörg þorp hafa verið brennd til grunna nokkuð sem skýrir hvers vegna um 500 þúsund manns eru á vergangi.  Hætt er við að ýmsir af þeim verði sjúkdómum að bráð.  Andstæðingar stjórnvalda beita einnig óþverrabrögðum.  Þannig reyna þeir að koma í veg fyrir skólagöngu barna í enskumælandi héruðunum því þeir segja að kennararnir séu útsendarar ríkisins.  Þetta hefur leitt til þess að stuðningur við andstæðinga stjórnvalda hefur nokkuð minnkað.  Ekki bætir úr skák að sumir þeirra hafa snúið sér að glæpastarfsemi og krefjast m.a. verndartolla af íbúum í enskumælandi héruðum.

Átökin hafa haft afar slæm áhrif á kamerúnskt samfélag og ekki bætir úr skák að þau hafa skaðað mjög efnahag landsins.  Því er mikilvægt að það takist að stilla til friðar til að forða borgarastríði.  Það er ekki of seint enda vilja flestir enskumælandi Kamerúnar aðeins meiri sjálfstjórn en ekki sjálfstæði.  Stjórnvöld hafa hins vegar sýnt lítinn friðarvilja.  Því er mikilvægt að alþjóðasamfélagið reyni að stilla til friðar.  Ekki lítur út fyrir að af því verði.

Það er ekki að ástæðulausu sem The Economist kallar átökin gleymda stríðið í Kamerún.  Ein ástæða þess að önnur ríki þrýsta ekki á um lausn mála er að þeim er umhugað um að Kamerúnar haldi áfram baráttu sinni við tvö illvíg hryðjuverkasamtök.  Önnur þeirra eru tengd Ríki íslams (e. Islamic State of Iraq and Syria (ISIS)) sem þekktust eru fyrir að hafa ætlað að stofna kalífadæmi í Mið-Austurlöndum.  Boko Haram samtökin, sem hafa svipuð markmið og ISIS, eru engu skárri.  Það voru t.d. þau sem rændu 276 skólastúlkum árið 2014 í Nígeríu.  Um þriðjungur þeirra eru ennþá í klóm hryðjuverkasamtakanna.  Það er því mikilvægt að ráða niðurlögum samtakanna en The Economist segir þó að það sé engin afsökun fyrir því að reyna ekki að þrýsta á stjórnvöld í Kamerún um að semja við enskumælandi íbúa landsins.  Eitt ríki sker sig reyndar úr hvað þetta varðar en það eru Bandaríkin.  Stjórnvöld þar í landi hafa dregið úr hernaðaraðstoð við landið og beita það efnahagsþvingunum.  Meira þarf þó greinilega til svo deilum í Kamerún linni.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …