Home / Fréttir / Óöld á Indlandi

Óöld á Indlandi

Mótmæli á Indlandi,.
Mótmæli á Indlandi,.

 

Á Indlandi búa tæplega 1,4 milljarðar manna. Það þýðir að landið er næst fjölmennasta ríki heimsins. Aðeins Kínverjar eru fjölmennari en þar búa rúmlega 1,4 milljaðar manna. Ýmislegt aðskilur þessi fjölmennu ríki. Lykilmunur er að Kína er einræðisríki en Indland er lýðræðisríki. Rétt er reyndar að minna á að Indverjar eru misfrjálsir. Hér er verið að vísa til hinna stéttlausu (Dalíta), sem eru um 16 % landsmanna, en þeir verða fyrir margvíslegum fordómum. Indland hefur samt sem áður talist lýðræðisríki frá því það hlaut sjálfstæði frá Bretum árið 1948. Nú eru hins vegar komnir brestir í lýðræðissamfélagið.

Þann 23. febrúar síðastliðinn brutust út óeirðir í Delhi borg þar sem höfuðborg Indlands er. Stóðu þær í nokkra daga eða allt til 29. febrúar. Orsakir þeirra voru trúarlegar en þær hófust þegar hindúskir þjóðernissinnar réðust á múslíma í borginni. Fjörtíu og níu manns létust í óeirðunum, flestir þeirra múslímar og fleiri en tvö hundruð slösuðust.

Deilumálið

Orsakir óeirðanna má rekja til laga sem sett voru í Indlandi í desember síðastliðnum. Markmið þeirra er að auðvelda flóttamönnum að öðlast ríkisborgararétt. Ekki sitja hins vegar allir við sama borð og njóta múslímar ekki sömu kjara og aðrir trúarhópar. Lögin hafa valdið titringi meðal þeirra og ekki dregur úr ótta þeirra að áætlanir eru uppi um að skrá alla Indverja og aðeins þeir sem geta sýnt gild skilríki munu teljast borgarar. Fjöldi indverska múslíma á ekki slík skilríki.

Lögin um ríkisborgararéttinn komu frá stjórnvöldum í landinu. Þar ræður nú um stundir Bharatiya Janata flokkurinn undir stjórn Narendra Modi forsætisráðherra landsins. Eitt meginmarkmið flokksins er að styrkja stöðu hindúa, sem eru um 80 % landsmanna. Í nýlegum greinum í breska tímaritinu The Economist er fjallað um flokkinn og stefnumál hans.

Þjóðernishindúismi

Fram kemur í tímaritinu að hreyfing þjóðernissinnaðra hindúa sé ekki ný af nálinni í Indlandi. Hún kom fram fyrir 1948 og á fyrstu áratugum hins nýja lýðveldis barðist hún gegn stefnu stjórnvalda um að Indland skyldi vera fyrir alla. Á níunda áratugnum fór hagur hreyfingarinnar að vænkast. Það má m.a. rekja til deilu um 16. aldar mosku í borginni Ayodhya. Svo fór að hún var eyðilögð árið 1992.

Bharatiya Janata flokkurinn þreifst á ólgunni og árið 1996 varð hann fjölmennasti flokkurinn á indverska þinginu. Narendra Modi leiddi flokkinn til sigurs í þingkosningunum í Indlandi árið 2014. Þó Modi hafi innleitt ýmsar breytingar á kjörtímabilinu sem gerðu hindúum hærra undir höfði en öðrum gætti hann þess að ganga ekki of langt í því að gera Indland að landi hindúa. Árið 2019 vann flokkurinn mikinn kosningasigur. Fékk hann rúmlega 37 % atkvæða sem dugði honum til þess að fá meirihluta í fulltrúadeildinni (303 af 543 sætum) því kosningafyrirkomulagið byggist á einmenningskjördæmum. Eftir sigurinn hefur Modi verið mun herskárri í framgöngu sinni fyrir hönd hindúa og sem dæmi um það eru fyrrnefnd lög um ríkisborgararétt.

Í The Economist veltir blaðamaður fyrir sér hvort allt sé eins og það sýnist hvað varðar þjóðernisáróður Modis. Verið getur að aðrir þættir en trú ráði för. Þjóðernishindúismi hvetur stuðningsmenn flokksins áfram. Áhersla á stefnuna beinir líka kastljósinu frá efnahag Indlands sem hefur verið í lægð að undanförnu. Stefnan dregur líka þá sem sjá óvini Indlands í hverju horni að flokknum. Sé þetta raunin segir blaðamaður The Economist að um sé að ræða áhættusama stefnu því sá tími kann að koma að Narendra Modi geti ekki lengur haldið aftur af fylgismönnum sínum og þá kann ofbeldið í landinu að aukast.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …