
Kimia Alizadeh, eina íranska konan sem hefur unnið til verðlauna á ólympíuleikum, tilkynnti laugardaginn 11. janúar að hún yfirgefið land sitt. Hún segir að stjórnkerfi þess einkennist af „hræsni og fulltrúar stjórnvalda niðurlægi íþróttamenn og „noti“ þá í pólitískum tilgangi.
„Á ég að hefja mál mitt með halló, bless eða samúðarkveðjur?“ skrifaði hún á Instagram í framhaldi af því að íranskt flugskeyti grandaði af slysni úkraínskri farþegavél með 176 manns um borð
Á ólympíuleikunum í Ríó 2016 hlaut Alizadeh bronsverðlaun í taek-won-do. Fyrir utan að saka írönsk stjórnvöld um „hræsni“ sagði hún þau „ljúga“, beita „ranglæti“ og „smjaðri“. Hún sagðist ekki vilja annað en „taek-won-do, öryggi og hamingjusamt og heilbrigt líf“.
Aluzadeh er 21 árs og segist vera: „Ein af milljónum kúgaðra kvenna í Íran sem þeir hafa spilað á árum saman. Ég klæddist alltaf eins og þeir vildu. Ég endurtók allt sem þeir sögðu mér að segja. Engin okkar skiptir þá neinu. Enginn bauð mér til Evrópu,“ segir hún án þess að upplýsa hvar hún sé.
AFP-fréttastofan segir að það hafi valdið uppnámi í Íran fimmtudaginn 9. janúar þegar fréttist að Alizadeh hefði horfið.
Íranski þingmaðurinn Abdolkarim Hosseinzadeh krefst skýringa, hann sakar „óhæfa embættismenn“ um að leyfa írönskum „mannauði að flýja“ landið.
Hálfopinbera fréttastofan ISNA sagði í frétt á fimmtudaginn: „Áfall fyrir taek-won-do í Íran. Kimia Alizadeh er flutt til Hollands.“ Líklega mundi hún æfa þar fyrir ólympíuleikana 2020 í Tókío. Hún ætlaði ekki að keppa fyrir Íran.
Í færslu sinni á Instagram sagði Alizadeh ekkert um áform sín en fullvissaði „kæru írönsku þjóðina“ um að áfram yrði hún „barn Írans“.