fbpx
Home / Fréttir / Ólöglegt bátafólk veldur Bretum áhyggjum

Ólöglegt bátafólk veldur Bretum áhyggjum

 

Á gúmbát á Ermarsundi - siglt frá Frakklandi til Englands.
Á gúmbáti á Ermarsundi – siglt frá Frakklandi til Englands.

Caroline Nokes, innflytjendaráðherra Breta, hefur lýst „miklum áhyggjum“ vegna frétta um fjölgun farandfólks sem reynir að komast yfir Ermarsund frá Frakklandi til Englands í bátkænum. Frá því í nóvember hafa 209 manns komist þessa leið til Englands.

Snemma að morgni fimmtudags 27. desember fundu breskir landamæraverðir 23 Írana á þremur stöðum á strönd Kent í suðaustur Englandi. Fáeinum klukkustundum áður höfðu Frakkar stöðvað ferð 11 manns á siglingu í smábáti skammt frá Sangatte á norðvestur strönd Frakklands.

Nokes sagði að þessi fjölgun á ólöglegum ferðum fólks yfir Ermarsund benti til þess að glæpahópar stæðu þar að baki.

Að morgni fimmtudagsins fundust fyrst níu Íranir, þar af þrjú börn. Þeir voru á ströndinni skammt frá bænum Folkstone í Kent. Hafði hópurinn siglt yfir Ermarsund á fjögurra metra löngum gúmbáti.

Matt Crittenden í björgunarmiðstöð í Littlestone-on-Sea sagði AFP-fréttastofunni að menn um borð í þyrlu miðstöðvarinnar hefðu séð fólkið og gert lögreglu viðvart.

Breska innanríkisráðuneytið sagði að læknar hefðu skoðað hvern og einn í hópnum. Allir fullorðnir hefðu verið fluttir til yfirheyrslu hjá útlendingaeftirlitinu en börnin nytu umhyggju félagsmálayfirvalda.

Ráðuneytið sagði að skömmu síðar þennan sama fimmtudagsmorgun hefðu tveir bátar til viðbótar sést í nágrenni við höfnina í Dover. Þar hefðu 14 íranskir karlmenn verið á ferð. Útlendingaeftirlitið hefði tekið þá til yfirheyrslu að lokinni læknisskoðun.

Á fáum siglingaleiðum er meiri umferð en um Ermarsund og þar hefur ferðum óskráðra smábáta sem farandfólk fjölgað jafnt og þétt þvert yfir sundið síðan í október.

Bresk yfirvöld höfðu hendur í hári 43 einstaklinga í lögsögu sinni við strönd Englands á jóladag og annan dag jóla.

Nokes sagði að embættismenn beggja vegna Ermarsunds samhæfðu viðbrögð sín í sameiginlegri upplýsingamiðstöð sem opnuð var í Calais í Frakklandi seint í nóvember 2018. Þar væri unnið gegn lögbrotum á landamærunum.

 

Skoða einnig

Torséðu þoturnar aftur á heimavelli í Missouri

B-2 Spirit þota á Keflavíkurflugvelli. Þrjár torséðar bandarískar sprengjuþotur af gerðinn B-2 Spirit sneru aftur …