Home / Fréttir / Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

Á kortinu má sjá lykilstöðu sænsku eyjunnar Gotlands þegar rætt er um öryggi á Eystrasalti. Græni liturinn sýnir svæði Rússa. Fregnir eru um að þeir ætli í lögsögudeilur vegna svæða við Kaliningrad og innst í Finnskaflóa við Finnland.

 

Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða á Eystrasalti í nágrenni lögsögu Finnlands og lögsögu Litháens. Tillagan um breytingarnar á markalínunum kom frá rússneska varnarmálaráðuneytinu.

Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháens, sagði um „augljósa stigmögnun“ af hálfu Rússa að ræða.

Nokkrum klukkustundum eftir að tillagan var kynnt á netinu hvarf hún allt í einu, skýringarlaust, af heimasíðu rússneskra yfirvalda.

Við það skapaðist óvissa um hvort stjórn Rússlands stæði að baki tillögunni eða birting hennar væri liður í fjölþátta stríði við vestrið eða hefði þann sjálfstæða tilgang að skapa upplýsingaóreiðu.

Nokkrir rússneskir ríkisfjölmiðlar vísuðu fyrir hádegi 22. maí til ónafngreindra heimildarmanna á sviði her- og utanríkismála sem höfnuðu því að Rússar ætluðu að færa út lögsögu sína á Eystrasalti. Á hinn bóginn hefur Dmitrij Peskov, talsmaður Kremlverja, sagt að Rússar geti tekið „nausðynleg skref“ til að tryggja öryggi á Eystrasalti.                                                                                                                                                                                                                                                                 

„Nú hafa Rússar hafið enn eina fjölþátta aðgerðina. Að þessu sinni gera þeir tilraun til að ala á ótta, öryggisleysi og efasemdum um áform þeirra á Eystrasalti,“ sagði Landsbergis utanríkisráðherra á samfélagsmiðlinum X miðvikudaginn 22. maí þegar fréttir bárust um þessi óljósu áform Rússa.

Utanríkisráðherrann sagði þetta „augljósa stigmögnun“ gagnvart NATO og ESB sem yrði óhjákvæmilega að svara á „hæfilega ákveðinn hátt“ ef úr áformunum yrði.

Sagt var að við stækkun rússneska yfirráðasvæðisins yrði meðal annars litið til nokkurra rússneskra eyja í austurhluta Finnskaflóa. Það eitt að Rússar ræði slík áform vekur áhyggjur nágrannaríkjanna en rússneska hólmlendan Kaliningrad er við strönd Litháens.

Peter Suppli Benson sem sérhæfir sig í norrænum málefnum fyrir danska blaðið Berlingske sagði 22. maí að í stóra samhenginu vektu allar slíkar ráðagerðir hræðslu og ekki að ástæðulausu. Pútin hefði oftar en einu sagt að það sem eitt sinn var hluti Sovétríkjanna ætti að verða hluti Rússlands, þau orð snertu hluta Finnlands og Svíþjóðar og Eystrasaltslöndin þrjú. Tillögurnar sem nú hefðu verið settar í loftið væru um að stækka ætti yfirráðasvæði Rússa.

Benson sagði að Rússar vildu á táknrænan hátt láta á það reyna hve langt þeir gætu gengið. Tækist þeim að stækka yfirráðasvæði sitt þarna yrði það aðeins til að þeir reyndu fyrir sér annars staðar. Þetta kynni að verða fyrsta skref af mörgum.

Frá Finnlandi bárust fréttir um að sérfræðingar í öryggismálum hefðu vitneskju um að skip frá NATO-ríkjum hefðu siglt í nágrenni eyjanna sem Rússar vildu nýta til að skapa sér rétt til stærra yfirráðasvæðis.

Benson sagði að ferðir skipanna sýndu að litið væri á hafsvæðin sem alþjóðlegar siglingaleiðir og hann líkti stöðunni við það sem gerst hefði á Suður-Kínahafi þar sem Kínverjar og alþjóðlegir aðilar hafa ólíka sýn á hafsvæðin við Filippseyjar.

Í Finnskaflóa eru eyjar sem áður voru hluti af Finnlandi en Finnar afhentu Rússum eftir aðra heimsstyrjöldina í von um að leggja grunn að friði við þá.

Blaðamaður Berlingske sagði að hrintu Rússar áformunum sem nú hefði verið hreyft í framkvæmd vöknuðu gamlar minningar um Vetrarstríðið við Rússa í hugum Finna.

Alexander Stubb, forseti Finnlands, sagði við Reuters-fréttastofuna 22. maí að Rússar hefðu ekki haft neitt samband við Finna vegna hafsvæða í Finnskaflóa. Finnsk stjórnvöld myndu leita eftir vitneskju um það sem segði í rússneskum miðlum um þessi mál.

Rússar hafa löngum haft hagsmuna að gæta á Eystrasalti en hafna því að einhver „pólitík“ búi að baki hugmyndum um útfærslu rússnesks yfirráðasvæðis þar. Í samtali við Reuters sagði upplýsingafulltrúi í Kreml að hér væri um það að ræða að leiðrétta markalínur.

Svíar hafa búið sig undir að Rússar reyni að leggja sænsku eyjuna Gotland undir sig en hún er undan strönd Svíþjóðar andspænis Lettlandi.

Micael Bydén, yfirmaður sænska heraflans, sagði við þýsku fréttastofuna RND að þess mætti vænta að Pútin reyndi að ná Eystrasaltinu undir sig og þar kæmi Gotland mjög við sögu:

„Ég er viss um að Pútin lítur með báðum augum á Gotland. Markmið Pútins er að ráða yfir öllu Eystrasaltinu. Sá sem ræður yfir Gotlandi, ræður yfir Eystrasaltinu.“

Ef Rússar réðust á Gotland yrði það upphaf mikilla átaka.

 

Heimild: Berlingske

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …